Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 200/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 200/2023

Fimmtudaginn 24. ágúst 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. apríl 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. janúar 2023 um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021 skyldi standa óbreyttur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2021. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2021 leiddi í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 1.916.873 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. maí 2022. Með bréfi, dags. 29. júlí 2022, andmælti kærandi niðurstöðunni. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. janúar 2023, var kæranda tilkynnt um að fyrri útreikningur skyldi standa óbreyttur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2023. Með bréfi, dags. 19. apríl 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 5. maí 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. maí 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 23. maí 2023 og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar samdægurs. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun, dags. 9. júní 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. júní 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi fengið bréf, dags. 19. maí 2022, frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem fram komi að greiðslur vegna ársins 2021 hafi verið endurreiknaðar á grundvelli skattframtals árið 2022. Niðurstaða endurreikningsins hafi verið skuld að fjárhæð 1.916.873 kr. Kærandi hafi andmælt niðurstöðunni með bréfi, dags. 29. júlí 2022. Hann hafi fengið annað bréf frá Tryggingastofnun, dags. 24. janúar 2023, þar sem fram hafi komið að fyrri útreikningar stæðu óbreyttir.

Kærandi krefjist þess aðallega að Tryggingastofnun falli frá kröfu sinni um endurgreiðslu á 1.916.873 kr. vegna ársins 2021, auk þess sem Tryggingastofnun endurgreiði honum þær greiðslur sem hann hafi greitt til stofnunarinnar vegna sambærilegs máls vegna ársins 2020. Til vara krefjist kærandi þess að Tryggingastofnun falli frá kröfu sinni um endurgreiðslu á 1.916.873 kr. vegna ársins 2021.

Kærandi byggi kröfur sínar á öllum þeim andmælum sem komi fram í bréfi frá honum, dags. 29. júlí 2022. Brotið sé gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem um eign kæranda sé að ræða sem Tryggingastofnun sé ekki heimilt að takmarka með slíkum hætti.

Krafa kæranda til fjármunanna, lífeyrisgreiðslnanna, hafi verið orðin virk, enda hafi hann þegar fengið þær greiddar og að hann hafi haft réttmætar væntingar til greiðslnanna. Þau lagafyrirmæli sem Tryggingastofnun byggi endurkröfuna á séu óskýr og illskiljanleg fyrir rétthafa samkvæmt þeim, þar á meðal kæranda og því hafi hann haft réttmætar væntingar til þeirra. Auk þess hafi kærandi og vinnuveitendur hans greitt tryggingargjald til Tryggingastofnunar í nokkur ár og eigi því sannarlega rétt á þessum greiðslum. Kærandi vísi til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu.

Með kröfum og rökstuðningi Tryggingastofnunar sé eldri borgurum á Íslandi mismunað, enda hafi þeir haft minni möguleika á að afla sér réttinda í lífeyrissjóðum og séu þar af leiðandi mikið háðari greiðslum frá Tryggingastofnun en þeir sem yngri séu. Ef eldri borgarar hafi greitt tryggingargjald til stofnunarinnar í mörg ár og verði fyrir hlutfallslega meiri skerðingum á fjármunum sínum en þeir sem yngri séu. Allir þurfi að greiða 22% fjármagnstekjuskatt, en þeir sem eldri séu þurfi að endurgreiða ellilífeyri, sem sé lögmæt eign þeirra. Yngri einstaklingar sem stundi hlutabréfaviðskipti lendi ekki í slíkum skerðingum á lífsleiðinni.

Almannatryggingakerfið sem slíkt á Íslandi veiti í tilviki kæranda ekki svigrúm til frekari tekjuöflunar þar sem hann eigi í þeirri hættu að réttindi hans hjá Tryggingastofnun sem hann hafi greitt til fjölda ára, skerðist ef hann hagnist á viðskiptum sínum.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. maí 2023, kemur fram að málsástæður í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 5. maí 2023, hreki í engu forsendur og málsástæður kærunnar enda vísi stofnunin til laga og reglna sem kæranda byggi á að brjóti gegn stjórnarskráinni.

Kærandi taki undir með Tryggingastofnun að áunnin lífeyrisréttindi samkvæmt lögum njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Hins vegar sé kærandi ekki sammála því að Tryggingastofnun hafi heimild til að skerða eignaréttindi hans með þessum hætti. Kærandi hafi verið búinn að ávinna sér rétt til ellilífeyris mörgum árum áður en Tryggingastofnun hafi greitt hann út og hafi haft réttmætar væntingar til þess að um eign hans hafi verið að ræða sem Tryggingastofnun hafi ekki verið heimilt að skerða með þessum hætti.

Kærandi greiði fullan fjármagnstekjuskatt af fjármagnstekjum sínum eins og aðrir, en til viðbótar sé honum gert að endurgreiða Tryggingastofnun ellilífeyri sem hann hafi unnið sér fyrir og eigi rétt á. Tvísköttun sé óheimil og kerfi það sem Tryggingastofnun vinni eftir og vísi til bendi einnig til þess. Eins og sjáist á uppgjöri kæranda hjá Skattinum fyrir árin 2020 og 2021 sé söluhagnaður hlutabréfa megin uppspretta fjármagnstekna hjá kæranda, eða um 91% árið 2020 og um 97% árið 2021. Ríkið innheimti fjármagnstekjuskatt og Tryggingastofnun krefjist síðar endurgreiðslu á ellilífeyri vegna þessa.

Núverandi lög og reglur hindri einstaklinga í að nýta eignir sínar og getu til viðskipta, til að tryggja þannig afkomu sína. Afrakstur eldri borgara af sjálfsaflafé sem verði til við hlutabréfaviðskipti verði alltof lítill þar sem ríkið krefjist fjármagnstekjuskatts og því til viðbótar endurgreiðslu á lífeyri.

Í 1. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar komi fram markmið með lögunum. Þar sé vísað til þess að tryggja skuli þeim sem lögin taki til og þess þurfi bætur og aðrar greiðslur vegna elli, örorku og framfærslu barna, eftir því sem nánar sé kveðið á um í lögunum. Kærandi hafni þeirri þröngu skýringu sem sé að finna í greinargerð Tryggingastofnunar um að löggjöfinni sé ætlað að styðja við bakið á þeim sem hafi orðið fyrir áfalli eða upplifi með einhverjum hætti aðstæður sem hafi áhrif á fjárhagslega afkomu þeirra. Ljóst sé af markmiði laganna að þeim sé meðal annars ætlað að tryggja borgurum ellilífeyrisgreiðslur.

Kærandi nefni dæmi máli sínu til stuðnings. Fjármagnstekjum sé skipt jafnt á milli hjóna, þá nái skerðing ellilífeyris til beggja aðila. Kærandi og maki hans verði bæði mjög háð greiðslum frá Tryggingastofnun þegar maki kæranda fari á eftirlaunaaldur. Lífeyrissjóðstekjur kæranda á mánuði séu um 125.000 kr. fyrir skatt og greiðslur frá Tryggingastofnun séu 286.930 kr. fyrir skatt. Ársgreiðslur kæranda frá Tryggingastofnun verði þá um 3.440.000 kr. fyrir skatt. Lífeyrissjóðstekjur maka verði um 65.000 kr. á mánuði fyrir skatt og samkvæmt reiknivél Tryggingastofnunar muni stofnunin greiða henni um 289.999 kr. á mánuði. Ársgreiðslur til hennar frá Tryggingastofnun verði því um 3.480.000 kr. fyrir skatt. Ef kærandi gæti haft tekjur af kaupum og sölu hlutabréfa og ef vel gengi myndu fjármagnstekjur hans af þeim viðskiptum verða 14.000.000 kr. Kærandi myndi greiða 3.080.000 kr. í fjármagnstekjuskatt og síðan myndi Tryggingastofnun krefjast endurgreiðslu á öllum ellilífeyri kæranda og maka hans. Augljóst sé að áður en að fjármagnstekjurnar yrðu til, væru kærandi og maki hans búin að eyða öllum ellilífeyrinum í mat, föt og húsnæði, en yrði þó gert að greiða ellilífeyrinn til baka. Þannig njóti ellilífeyrisþegar eingöngu lítils hluta af sjálfsaflafé sínu sem þeir eignist í slíkum viðskiptum, sem sé ósanngjarnt og ómálefnalegt.

Lög og reglur sem Tryggingastofnun byggi á hindri einstaklinga í að nýta eignir sínar og getu til að stunda viðskipti, og þar með að tryggja afkomu sína. Til þess hafi þeir of lítinn ábata af áhættusömum viðskiptum. Ríkissjóður verði einnig af fjármagnstekjuskatti og hugsanlegum gjaldeyristekjum ef engin viðskipti séu gerð.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2021.

Um útreikning ellilífeyris sé fjallað í III. kafla laga nr. 100/2007, með síðari breytingum. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar sé kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars ellilífeyris, sbr. 21. og 33. gr. núverandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. 16. gr. laganna hafi komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. a-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 22. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið fjallað um fjármagnstekjur. Þar hafi komið fram að ef um hjón sé að ræða skiptist tekjur samkvæmt 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Þá skipti ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða. Hliðstætt ákvæði sé að finna í 22. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. þágildandi laga um almannatryggingar skyldi ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr. laganna, uns lífeyririnn falli niður, sbr. 21. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Kærandi hafi þegið ellilífeyri frá 1. apríl 2017. Með bréfi, dags. 19. maí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2021. Niðurstaðan hafi verið skuld að upphæð 1.916.873 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu þar sem heildargreiðslur til kæranda á árinu 2021 hafi numið hærri upphæð en kærandi hafi átt rétt á samkvæmt endanlegum upplýsingum skattyfirvalda um tekjur kæranda á árinu 2021 í skattframtali ársins 2022. Mismuninn megi að mestu rekja til vanáætlunar fjármagnstekna. Á skattframtali komi fram að sameiginlegar fjármagnstekjur kæranda og eiginkonu hans hafi verið að upphæð 19.150.079 kr. á árinu 2021.

Kærandi hafi andmælt niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2021 með bréfi þann 29. júlí 2022. Þann 24. janúar 2023 hafi rökstuðningur verið birtur kæranda með bréfi. Kærandi hafi kært niðurstöðuna, sem og niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2020.

Með bréfi, dags. 20. maí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2020. Niðurstaðan hafi verið skuld að upphæð 1.983.895 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu þar sem heildargreiðslur til kæranda á árinu 2020 hafi numið hærri upphæð en kærandi hafi átt rétt á samkvæmt endanlegum upplýsingum skattyfirvalda um tekjur kæranda á árinu 2020 í skattframtali ársins 2021. Þennan mismun megi að mestu rekja til vanáætlunar fjármagnstekna. Á skattframtali komi fram að sameiginlegar fjármagnstekjur kæranda og eiginkonu hans hafi verið að upphæð 17.060.020 kr. á árinu 2020.

Fjármagnstekjur kæranda hafi reynst vera hærri á árunum 2020 og 2021 en hafi verið gert ráð fyrir í tekjuáætlun, sem hafi leitt til ofgreiðslukrafna. Fjármagnstekjur séu tekjustofn sem hafi áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar, sbr. 22. gr. núgildandi laga og c-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar segi að fjármagnstekjur skuli skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta, sbr. 22. gr. núgildandi laga. Tryggingastofnun greiði tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Stofnunni beri lögum samkvæmt að endurreikna bætur, sem greiddar hafi verið á grundvelli slíkra tekjuáætlana, með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun hafi því enga heimild til að líta framhjá fjármagnstekjum sem komi fram á skattframtali kæranda.

Ekki sé ágreiningur um að réttur kæranda til ellilífeyris árin 2020 og 2021 hafi við endurreikning og uppgjör áranna verið ákvarðaður í samræmi við almannatryggingalög. Kærandi byggi hins vegar á því að með því að tengja íþyngjandi réttaráhrif við fjármagnstekjur hans þannig að þær leiði til lækkunar bóta úr almannatryggingum hafi löggjafinn í reynd skert virk lífeyrisréttindi hans bótalaust. Hæstiréttur hafi í úrlausnum sínum um þetta álitaefni komist að þeirri niðurstöðu að áunnin lífeyrisréttindi launþega samkvæmt lögum njóti verndar eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þó hafi verið talið að setja megi þeim eignarrétti takmarkanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, svo sem að þær hvíli á skýlausri lagaheimild, málefnalegar forsendur búi að baki og þær séu almennar og taki á sambærilegan hátt til allra sem þeirra njóti, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 9. desember 1999, í máli nr. 195/1999. Enn fremur verði ályktað af dómaframkvæmd Hæstaréttar að löggjafinn hafi þrengri heimild til að skerða virk lífeyrisréttindi en þau sem einungis séu væntanleg þegar skerðing öðlist gildi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 23. mars 2000 í máli nr. 340/1999.

Víða í löggjöfinni sé gert ráð fyrir því að tekjur einstaklings geti haft þýðingu fyrir réttarstöðu hans án þess að slíkar reglur teljist jafngildi tekjuskerðingar. Um sjónarmið af þessum toga sé meðal annars fjallað í athugasemdum um efni jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar með frumvarpi því sem hafi orðið að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995. Þar sé tekið fram að skilyrðið um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum án tillits til efnahags komi ekki í veg fyrir að til séu skattleysismörk einkum þeim til hagsbóta sem lakast séu settir fjárhagslega og skattar geti síðan verið stighækkandi eftir því sem tekjur manna séu hærri. Af sama meiði sé regla sem byggist á þeirri forsendu að þeir sem meiri tekjur hafi sér til framfærslu fái minni aðstoð frá ríkinu en þeir sem litlar eða engar tekjur hafi.

Tekjutenging, byggð á slíkum forsendum, hafi verið í lögum um almannatryggingar í einhverju formi síðan árið 1972. Það almannatryggingakerfi sem lög um almannatryggingar fjalli um sé ætlað að veita landsmönnum fjárhagslegan stuðning í þeim tilvikum þegar aðstæður og atvik í lífi þeirra séu með þeim hætti að atbeina ríkisins sé þörf. Löggjafinn hafi þannig ákveðið að í tilteknum tilvikum skuli skatttekjur ríkisins notaðar til að styðja við bakið á þeim sem hafi orðið fyrir áfalli eða upplifi með einhverjum hætti aðstæður sem hafi áhrif á fjárhagslega afkomu þeirra sem lögin taki til. Undirliggjandi skilyrði þess að ríki geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um almannatryggingar sé að einstaklingar geri allt sem í þeirra valdi standi til þess að nýta sér þau úrræði sem þeim standi til boða til að ná takmarkinu um viðunandi lífsskilyrði. Það sé ætlast til að einstaklingar nýti eignir sínar eða getu til vinnu og tryggi þannig afkomu sína. Undirstaða félagslegra réttinda sé því meginreglan um eigin framfærslu. Gengið sé út frá því að hver og einn framfæri sig sjálfur og endurspeglist sú grundvallarhugsun í ýmsum lögum, meðal annars lögum um almannatryggingar. Víða í lögum sé því rétturinn til fjárhagslegs stuðnings úr opinberum sjóðum takmarkaður á grundvelli ákveðinna viðmiða. Til að mynda hafi tekjur einstaklinga og vissar tekjur maka þeirra áhrif á greiðslu til ellilífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar. Greiðsluþegar Tryggingastofnunar séu vel upplýstir um fyrirkomulag útreiknings á tekjutengdum réttindum þeirra á bótagreiðsluárinu og hvernig slík réttindi séu háð endurreikningi og uppgjöri.

Ekki sé fallist á með kæranda að slíkar réttmætar væntingar hafi skapast um að tekjur hans hafi ekki haft áhrif á greiðslur hans innan almannatryggingarkerfisins svo að þeir hagsmunir njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm Hæstaréttar 2. nóvember 2022 í málum nr. 15/2022, 16/2022 og 17/2022. Sérstaklega í ljósi langrar sögu tekjutengingar í lögum um almannatryggingar sem kærandi hafi verið upplýstur um, valdsins sem löggjafinn hafi til að útfæra almannatryggingakerfið, þess að meðalhófs hafi verið gætt við þær breytingar sem hafi orðið á almannatryggingakerfinu hverju sinni síðan kærandi hafi fyrst farið út á vinnumarkað og þess að kærandi hafi verið vel upplýstur um að réttindi þau sem hann hafi fengið greidd á árunum 2020 og 2021 hafi verið háð fyrirvara um endurreikning og uppgjör.

Kærandi byggi á því að umdeild tekjutenging mismuni honum samanborið við aðra sem séu yngri. Við mat á því hvort um ólögmæta mismunun í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnra sé að ræða verði að leggja mat á hvort hlutlægar og málefnalegar ástæður séu að baki mismunandi meðferðum á tveimur sambærilegum tilvikum sem stefni að lögmætu markmiði. Þá verði að líta til þess hvort eðlilegt samræmi sé á milli þess markmiðs sem mismununin stefni að og þeirra aðferða sem notaðar séu til að ná því, þannig að meðalhófs sé gætt. Þegar áðurnefnd markmið reglna um útreikning ellilífeyris, sem og annarra tekjutengdra bóta séu virt, sé augljóst að þær hvíli á málefnalegum sjónarmiðum, séu almennar og geri ekki slíkan greinarmun á einstaklingum að þær feli í sér ólögmæta mismunun andstætt fyrirmælum 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Með þeim sé stefnt að því að tryggja ákveðna heildarhagsmuni aldraðra og bæta kjör þeirra og við val á leiðum til að ná þeim markmiðum hafi ekki verið gengið of nærri réttindum kæranda. Því sé ekki fallist á þá málsástæðu að brotið hafi verið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. dóm Hæstaréttar 2. nóvember 2022 í máli nr. 16/2022.

Niðurstaða Tryggingastofnunar sé að endurreikningar og uppgjör tekjutengdra greiðslna kæranda vegna áranna 2020 og 2021 hafi verið rétt, byggt á fyrirliggjandi gögnum, faglegum sjónarmiðum, sem og í samræmi við þær kröfur sem séu gerðar samkvæmt gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari fram á að niðurstöður endurreikninga og uppgjöra tekjutengdra greiðslna vegna áranna 2020 og 2021 frá 20. maí 2021 og 19. maí 2022 verði staðfestar.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 9. júní 2023, kemur fram að greiðsluþegar stofnunarinnar séu í samskiptum sínum við stofnunina vel upplýstir um það að í fyrirkomulagi útreiknings á tekjutengdum réttindum þeirra samkvæmt lögum um almannatryggingar felist að tekjur þeirra hafi áhrif á réttindi þeirra hjá stofnuninni. Ítarlegar og aðgengilegar upplýsingar um þetta eðli tekjutengdra réttinda sé að finna á heimasíðu Tryggingastofnunar, auk þess sem greiðsluþegar séu upplýstir um réttindi þeirra og skyldur í bréfum við upphaf töku lífeyris, sem og á meðan þeir séu lífeyrisþegar, sbr. til dæmis bréf Tryggingastofnunar í tilefni af því að kærandi hafi orðið 67 ára. Tryggingastofnun veki athygli kæranda á mögulegum rétti hans til ellilífeyris. Ellilífeyrir sé tekjutengdur og huga þurfi að því hvort réttur sé fyrir hendi áður en sótt sé um. Greiðsluþegar séu því vel upplýstir um þessa grundvallarforsendu útreiknings tekjutengdra réttinda hjá Tryggingastofnun. Vanþekking kæranda á lögum hafi ekki áhrif á réttindi og skyldur samkvæmt þeim.

Lög um almannatryggingar tryggi þeim sem þess þurfi bætur vegna elli í formi ellilífeyris. Bótunum sé ætlað að stuðla að því að þeir sem þær þiggi geti framfleytt sér en ekki að þeir geti nýtt eignir sínar eða stundað viðskipti. Ef þörfin sé ekki til staðar, þá sé rétturinn ekki til staðar. Tekjutengingin sé útfærsla á þessari þörf. Tekjutengingin sé því ekki skerðing á rétti sem þegar sé til staðar, heldur gefi tekjutengingin til kynna hvaða réttur sé til staðar. Í tekjutengingu lífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar felist því ekki skattur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2021. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Á grundvelli þágildandi 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt þágildandi 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum og reglugerðarákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins gerði Tryggingastofnun ráð fyrir að á árinu 2021 fengi kærandi 4.153.318 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 633.987 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Kærandi lagði fram tekjuáætlun 1. janúar 2021 þar sem gert var ráð fyrir 1.269.1408 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 2.600.000 kr. í séreignarsjóð og 1.833.987 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 19. janúar 2021, var kærandi upplýstur um að framangreind tekjuætlun hefði verið samþykkt.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2021 reyndust tekjur kæranda á árinu vera 1.286.168 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 2.880.000 í séreignarsjóð og 19.150.079 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka. Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins var sú að kærandi hafi fengið ofgreiddan grunnlífeyri og orlofs- og desemberuppbætur og að ofgreiðsla ársins hafi verið samtals að fjárhæð 1.916.873 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og að meðtöldu áður mynduðum kröfum vegna ársins. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árinu 2021 en gert hafði verið ráð fyrir. Fyrst og fremst var um að ræða fjármagnstekjur sem er tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. c-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er að umræddur tekjustofn var vanáætlaður í tekjuáætlun. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Kærandi byggir á því að takmörkun Tryggingastofnunar á eign kæranda brjóti gegn eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi hafði þegar fengið greitt og því hafi hann haft réttmætar væntingar til greiðslnanna. Fyrir liggur að mælt er fyrir um tekjutengingu í lögum um almannatryggingar og kærandi var upplýstur um það. Jafnframt var kærandi upplýstur um að réttindi sem hann fékk greidd árið 2021 væru háðar fyrirvara um endurreikning og uppgjör. Því verður ekki fallist á að kærandi hafi haft slíkar réttmætar væntingar til greiðslnanna að brotið hafi verið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og laga um Mannréttindasáttmála Evrópu.

Kærandi byggir jafnframt á því að kröfur og rökstuðningur Tryggingastofnunar varðandi endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta brjóti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fram kemur að eldri borgurum á Íslandi sé mismunað, enda hafi þeir haft minni möguleika á að afla sér réttinda í lífeyrissjóðum og séu þar af leiðandi mikið háðari greiðslum frá Tryggingastofnun en þeir sem yngri séu. Úrskurðarnefndin telur að tekjutenging greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum, enda felur reglan í sér að þeir sem hafi þörf fyrir framfærslu fái meiri aðstoð frá ríkinu heldur en þeir sem hafi meiri tekjur. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að allir ellilífeyrisþegar eru jafnsettir gagnvart þeirri reglu að fjármagnstekjur komi til lækkunar ellilífeyri. Að mati úrskurðarnefnar felst því ekki ólögmæt mismunun í tekjutengingu ellilífeyrisgreiðslna, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda á árinu 2021.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum