Hoppa yfir valmynd
30. desember 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Reglugerðir um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga, fasta starfsstöð og skil á ríki-fyrir-ríki skýrslum

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sett þrjár nýjar reglugerðir sem taka gildi í ársbyrjun 2017. Um er að ræða reglugerð um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga, reglugerð um fasta starfsstöð og reglugerð um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu. Í reglugerðunum er kveðið á um nánari útfærslu á viðeigandi lagaákvæðum ásamt því að tekið er á efnisatriðum sem þarfnast frekari skýringa.

Frádráttur frá tekjum erlendra sérfræðinga. Með lögum nr. 79/2016, um breytingu á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti, var lögfest frádráttarheimild fyrir erlenda sérfræðinga sem ráðnir eru til starfa hér á landi vegna sérþekkingar sinnar og reynslu. Sé heimildin nýtt eru einungis 75% tekna erlendra sérfræðinga  tekjuskattsskyldar, bæði í staðgreiðslu og við endanlega álagningu, fyrstu þrjú árin í starfi að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Í nýrri reglugerð er kveðið nánar á um framkvæmd heimildarinnar, m.a. um form og skilyrði umsókna, og þær kröfur sem erlendir sérfræðingar þurfa að uppfylla, svo sem varðandi menntun, reynslu og fyrri störf, auk ráðningarsamninga. Í reglugerðinni er einnig fjallað um skipun og starfshætti nefndar sem meta skal hvort viðkomandi starfsmaður teljist erlendur sérfræðingur í skilningi laganna.

Umsóknir um frádráttarheimildina skal senda til Rannsóknarmiðstöðvar Íslands, Rannís, Borgartúni 30, 105 Reykjavík

Föst starfstöð (e. permanent establishment, PE). Með lögum nr. 112/2016, um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., var beinni skilgreiningu á fastri starfsstöð skattaðila bætt við lög um tekjuskatt. Tilgangur skilgreiningarinnar er fyrst og fremst sá að skerpa á leikreglum hvað varðar túlkun á ákvæðum tekjuskattslaga sem hafa ekki verið talið nægjanlega skýr. Samkvæmt skilgreiningunni er meginreglan sú að föst starfsstöð merkir fasta atvinnustöð þar sem starfsemi fyrirtækis fer fram að nokkru eða öllu leyti. Undantekningar frá meginreglunni og frekari skýringar er að finna í lagaákvæðinu, en í nýrri reglugerð er kveðið nánar á um afmörkun fastrar starfsstöðvar í framkvæmd. Skilgreiningin er í samræmi við skilgreiningu 5. gr. samningsfyrirmyndar OECD um tvísköttunarsamninga frá árinu 2014 sem Ísland hefur samþykkt, sbr. einnig 7. lið aðgerðaráætlunar OECD og G20. 

Ríki-fyrir-ríki skýrslur – milliverðlagning. Þá var með lögum nr. 112/2016, um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl., einnig lögfest ákvæði þar sem móðurfélagi, sem skráð er hérlendis og á félag/félög erlendis og myndar þannig alþjóðlega fyrirtækjasamstæðu, er gert skylt að skila til ríkisskattstjóra svokallaðri ríki-fyrir-ríki skýrslu (e. Country-by-Country Report). Skýrslan á að auðvelda skattyfirvöldum eftirlit með skattskilum slíkra samstæðna, einkum þó með milliverðlagningu, á alþjóðavísu. Skýrslan á að innihalda upplýsingar um dreifingu tekna og greidda skatta hinnar alþjóðlegu fyrirtækjasamstæðu ásamt upplýsingum um hvernig efnahagsleg starfsemi samstæðunnar dreifist. Lögfesting ákvæðisins er í samræmi við samkomulag, sem unnið var á vegum OECD, og samþykkt hefur verið milli fjölmargra ríkja, um aukið gagnsæi í starfsemi alþjóðlegra fyrirtækjasamstæðna. Ísland varð formlegur aðili að samkomulaginu með undirritun þess 12. maí sl. Með ákvæðinu er ríkjunum sem aðild eiga að samkomulaginu gert að skiptast á ríki-fyrir-ríki skýrslum, bæði sjálfvirkt og með tvíhliða samningum. Samkomulagið er hluti af 13. lið aðgerðaráætlunar OECD og G20 í tengslum við endurskoðun á milliverðlagningarreglum. Í reglugerðinni er kveðið nánar á um framkvæmd lagaákvæðisins, þar á meðal um efni og form ríki-fyrir-ríki skýrslunnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum