Hoppa yfir valmynd
28. september 2001 Heilbrigðisráðuneytið

22. - 28. september 2001

Fréttapistill vikunnar
22. - 28. september 2001



Nýtt tæki til hjartaþræðinga tekið í notkun við Landspítala - háskólasjúkrahús

Landspítali - háskólasjúkrahús tók í notkun nýtt tæki til hjartaþræðinga og annarra æðarannsókna og innanæðaaðgerða í dag (28. september). Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur gerði kleift að ráðast í kaup á tækjabúnaðinum. Sjóðurinn leggur fram 40 milljónir króna vegna kaupanna en tækið kostar um 100 milljónir. Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur var stofnaður í júlí 2000. Stofnfé var 200 milljóna króna framlag hennar en meginhlutverk sjóðsins er að efla hjartalækningar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Nýja tækið nefnist Integris Allura og er keypt fyrir milligöngu Eirbergs ehf. frá Philips Medical Systems í Hollandi. Tækið er það nýjasta og besta sem þessi framleiðandi hefur upp á að bjóða. Þetta er alhliða æðarannsóknatæki, hentar sérstaklega vel til kransæðarannsókna og kransæðavíkkana en er einnig mjög vel úr garði gert til að gera rannsóknir á öðrum æðum.
MEIRA...

Nýtt rannsóknar- og þróunarverkefni um mat á geðheilsu og þjónustuþörf sjúklinga á geðsviði LSH
Myndaður hefur verið stýrihópur um RAI-MH (Resident Assessment Instrument - Mental Health) rannsóknar- og þróunarverkefnið sem nú er unnið að við Landspítala - háskólasjúkrahús. RAI-MH er eitt af fimm RAI mælitækjum sem þróuð hafa verið hjá Ontario Joint Policy and Planning Committee (JPPC í samvinnu við Ontario Hospital Association og Ontario Ministry of Health) í Kanada í samvinnu við interRAI. Þróun mælitækjanna hefur verið í höndum fjölþjóðlegs, þverfaglegs hóps yfir 25 rannsakenda. Hér er um að ræða fyrstu prófun RAI-MH mælitækisins á Íslandi en rannsókn þessi er hliðstæð rannsóknum á RAI-mælitækjum fyrir aldraða sem hafa verið í þróun og notkun hér á landi síðan 1991. Ísland er á meðal fyrstu landa þar sem RAI-MH er þýtt og forprófað. Tilgangurinn er að afla grunnupplýsinga við mat á geðheilsu og þjónustuþörf inniliggjandi sjúklinga, 18 ára og eldri, á geðsviði Landspítala - háskólasjúkrahúss. Upplýsingarnar munu gefa færi á samanburði milli þjónustu hinna ýmsu meðferðarforma, deilda og sviða innan geðheilbrigðisþjónustunnar. Einnig verða þær nýttar til að meta gildi framtíðarrannsókna á þessu sviði og geta lagt grunn að þróunarverkefnum í mati á þjónustu við geðsjúka. Jafn ítarlegar upplýsingar og þarna er ætlað að afla liggja ekki fyrir á Íslandi í dag.
MEIRA...

Upplýsingar fyrir almenning um kynsjúkdóma
Sóttvarnarlæknir hefur gefið út upplýsingar um kynsjúkdóma og eru þær aðgengilegar á heimasíðu landlæknisembættisins. Þar er fjallað almennt um kynsjúkdóma, veittar upplýsingar um einstaka kynsjúkdóma, einkenni þeirra og skaðsemi, varnir gegn þeim og um greiningu og meðferð.
MEIRA...

Aðstoðarlandlæknir í leyfi
Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlæknir, er í leyfi frá frá störfum frá 15. september 2001. Meðan á leyfinu stendur mun Matthías starfa hjá Evrópusambandinu í Luxemburg þar sem hann mun sinna lýðheilsumálum. Frá sama tíma hefur Haukur Valdimarsson verið ráðinn aðstoðarlandlæknir. Haukur er sérfræðingur í heimilislækningum og embættislækningum. Hann hefur starfað sem heilsugæslulæknir síðan 1986, síðustu ár sem yfirlæknir á heilsugæslustöðinni Hvammi í Kópavogi.

Alþjóðlegur hjartadagur 30. september
Sunnudaginn 30.september verður haldinn í annað sinn víða um heim alþjóðlegur hjartadagur. Hann er haldinn í yfir 100 löndum. Það er Alþjóðahjartasambandið(World Heart Federation) með stuðningi frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og UNESCO sem hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda upp á hjartadaginn. Hjartavernd er aðildarfélag í Alþjóðahjartasambandinu. Tilgangur með Hjartadeginum er að auka þekkingu almennings á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma og auka meðvitund fólks um hvað það getur sjálft gert til að draga úr hættunni á að fá þessa sjúkdóma.
MEIRA...





Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
28. september 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum