Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2001 Heilbrigðisráðuneytið

27. okt. - 2. nóv. 2001

Fréttapistill vikunnar
27. okt. - 2. nóv. 2001


Notkun svefn-og róandi fer lyfja ört vaxandi

Umtalsverð aukning hefur orðið á notkun svefn-og róandi lyfja (NO5C) á Íslandi síðust fimm til sex árin mæld í dagskömmtum á íbúa á dag. Er notkunin hér með allt öðru sniði en annars staðar á Norðurlöndum. Í Danmörku og í Færeyjum hefur dregið verulega úr notkun þessara lyfja, í Noregi hefur neysla þeirra breyst lítið á liðnum árum, og í Finnlandi og Svíþjóð hefur neyslan aukist en mun minna en á Íslandi. Í umræðum á Alþingi utan dagskrár lýsti Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, yfir því að afar brýnt væri að skýra hina miklu svefnlyfjanotkun á Íslandi. Kostnaðurinn vegna neyslu svefn-og róandi lyfja hefur vaxið með aukinni neyslu. Hann var um 90 milljónir króna árið 1995 en nálgast 160 milljónir í ár.
Sjá töflu um lyfjanotkun á Norðurlöndum...

Umræður utan dagskrár á Alþingi um lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði í ræðu í utandagskrárumræðum á Alþingi í vikunni fyrirspurnum frá Margréti Frímannsdóttur varðandi lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum. Þingmaðurinn vakti þar máls á niðurstöðum könnunar sem Áfengis- og vímuefnaráð lét gera í október á síðasta ári á vímefnaneyslu ungmenna í framhaldsskólum hér á landi og lýsti áhyggjum sínum af því að samkvæmt niðurstöðunum hefði tíundi hver framhaldsskólanemi notað svefntöflur og róandi lyf án þess að hafa fengið uppáskrift frá lækni. Í svari ráðherra kom fram að samkvæmt nánari upplýsingum um það hve stór sá hópur væri sem notað hefði þessi lyf oftar en þrisvar sinnum þá væru það 4,6% framhaldsskólanema. Í rannsókninni kom ekki fram hvernig ungmennin komust yfir þessi lyf, en ráðherra sagði að landlæknisembættið hyggðist kanna þetta mál sérstaklega og aðhann vonaðist til að embættið myndi efna til almennra umræðna um þessi mál á vettvangi lækna. Ráðherra sagði enn fremur: ,,Ég geri ekki lítið úr því þegar 4,6% ungmenna á aldrinum 16 til 19 ára segist hafa notað róandi lyf og svefnlyf oftar en þrisvar sinnum, en ég bendi hins vegar á, að notkunin kann að eiga sér skýringar. Það er hugsanlegt að notkunin geti verið liður í læknismeðferð, þó ég vilji ekki fullyrða neitt í þeim efnum."
Ræða ráðherra...

Ný reglugerð um þjónustuhópa aldraðra og vistunarmat aldraðra
Tekið hefur gildi ný reglugerð nr. 791/2001 um þjónustuhóp aldraðra og vistunarmat aldraðra. Reglugerðin leysir af hólmi eldri reglugerð nr. 660/1995 um vistunarmat aldraðra með síðari breytingum. Í reglugerðinni er hlutverk þjónustuhópa aldraðra tíundað og gerð grein fyrir framkvæmd vistunarmats aldraðra vegna vistunar á stofnunum aldraðra. Þjónustuhópar aldraðra sem eru starfandi um allt land sinna vistunarmati aldraðra, ásamt fleiri verkefnum. Þjónustuhópar eru hvattir til að kynna sér nýju reglugerðina.

13,5 milljónir króna söfnuðust í söfnun Kiwanishreyfingarinnar til stuðnings geðsjúkum
Alls söfnuðust 13,5 milljónir króna til stuðnings geðsjúkum í landssöfnun Kiwanishreyfingarinnar með sölu K-lykilsins í byrjun síðasta mánaðar. Söfnunarféð var afhent í dag. Klúbburinn Geysir fékk 10 milljónir króna og verður því fé varið til húsnæðiskaupa. Geðverndarfélag Akureyrar fékk 2,3 milljónir króna til endurbóta og uppbyggingar áfangaheimilis geðfatlaðra á Akureyri. Hringsjá, starfsþjálfun fatlaðra, fékk 1,2 milljónir króna til tækjakaupa. Þetta var í tíunda sinn sem Kiwanismenn standa fyrir landssöfnun með sölu K-lykilsins og hefur ágóðinn ávallt runnið til geðverndarmála.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
02. nóvember 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum