Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samtökin ´78 fá styrk til að styðja betur við fjölbreyttan hóp hinsegin fólks

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78 og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Samtökunum ´78 styrk að upphæð 10 milljónir króna í þeim tilgangi að efla stuðning samtakanna við hinsegin eldra fólk og hinsegin fólk sem leitar eftir alþjóðlegri vernd. Hinsegin fólk er breiðari og fjölbreyttari hópur en nokkru sinni fyrr, á öllum aldri, og hefur þörf fyrir þjónustu, ráðgjöf og fræðslu aukist samhliða því. Eldra hinsegin fólk er stækkandi hópur sem kallað hefur á aukna fræðslu og ráðgjöf bæði til einstaklinganna sjálfra og þeirra sem vinna með og/eða þjónusta aldrað fólk. Þá hefur eftirspurn eftir þjónustu til hinsegin fólks sem leitar eftir alþjóðlegri vernd aukist samhliða fjölgun umsókna. 

Heimsóknarvinir fyrir eldra hinsegin fólk

Samtökin ’78 hafa leitað leiða til að þjónusta betur hinsegin eldra fólk með það að markmiði að sporna við félagslegri einangrun hópsins. Styrkurinn mun gera samtökunum kleift að bjóða upp á heimasóknarvini fyrir eldra hinsegin fólk og verður verkefnið mótað að fyrirmynd heimsóknarvina Rauða Krossins.

Gerð fræðsluefnis og fræðsla til starfsfólks og fagaðila

Styrkurinn mun nýtast til framleiðslu á sértæku fræðsluefni með það að markmiði að tryggja viðeigandi fræðslu, þar með talið til einstaklinga á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Samhliða verður framleitt fræðsluefni fyrir starfsfólk sem vinnur með hinsegin eldra fólki. Byggt verður á grunni sambærilegra verkefna á vegum samtaka hinsegin fólks í Noregi og Finnlandi sem unnið hafa markvisst að því að varpa ljósi á aðbúnað og reynslu hinsegin eldra fólks.

Sértæk þjónusta við hinsegin fólk sem leitar að alþjóðlegri vernd

Á síðastliðnum árum hefur skapast töluverð reynsla og þekking innan Samtakanna ´78‚ þegar kemur að þjónustu til hinsegin fólks sem leitar eftir alþjóðlegri vernd, meðal annars í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi. Með styrknum gefst tækifæri á að þróa og bæta þjónustuna enn frekar t.d. með því að bjóða upp á sértæka ráðgjöf og stuðningshópa.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra: „Samtökin ´78 hafa í áratugi veitt hinsegin fólki og aðstandendum þess mikinn stuðning og aðstoð. Samtökin hafa lengi haldið úti fjölbreyttri starfsemi og þar skipar ráðgjöf og fræðsla stóran sess og er sá hópur sem nýtur þjónustu samtakanna alltaf að verða fjölbreyttari. Það er sérstaklega ánægjulegt að styðja við og efla það starf sem samtökin hafa unnið í málefnum eldra hinsegin fólks og hinsegin fólks sem leitar eftir alþjóðlegri vernd, en þörfin á fræðslu og ráðgjöf fyrir þessa hópa er alltaf að aukast.“

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78: „Styrkur félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra mun meðal annars gera Samtökunum ´78 kleift að vinna af krafti gegn einangrun eldra hinsegin fólks og koma í veg fyrir að elsta kynslóðin okkar hrökklist aftur í felur á efri árum. Það er mikið fagnaðarefni og við hlökkum til að takast á við þetta stóra verkefni.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum