Hoppa yfir valmynd
19. október 2010 Innviðaráðuneytið

Alþjóðaflugmálastofnun tekur út Flugmálastjórn Íslands

Hafin er úttekt Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO, á Flugmálastjórn Íslands og verður fimm manna úttektarteymi hér við störf fram í lok næstu viku. Tilgangurinn er heildar flugöryggisúttekt á Íslandi.

Hjá Flugmálastjórn og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hefur úttektin verið í undirbúningi í alllangan tíma en í henni verður farið ofan í saumana á nánast öllum málaflokkum flugrekstur á Íslandi. Könnuð eru atriði eins og lagasetning, reglugerðir um flugmál, fyrirkomulag eftirlits, þjálfun eftiritsmanna, útgáfa skírteina, vottorða og leyfa, viðbrögð við frávikum og flugslysarannsóknir.

Merki ICAOSamræmdar úttektir sem þessar hófust á vegum ICAO árið 1997 og hafa þær farið fram hjá um 160 af 190 aðildarríkjum ICAO. Úttektarteymið fer héðan til Finnlands og eftir er síðan að taka út nokkur Afríkuríki. Leiðtogi teymisins er RoseMarie Heftberger sem er ein sjö leiðtoga í úttektarteymum á vegum ICAO.

Auk úttektar á atriðum sem snúa að Flugmálastjórn munu fulltrúar úttektarteymisins heimsækja flugvelli og nokkra aðila í flugrekstri sem starfa samkvæmt vottun eða leyfum útgefnum af Flugmálastjórn. Við lok úttektarinnar er lögð fram bráðabirgðaskýrsla með ábendingum þar sem úttektarlandið getur komið að athugasemdum og lagt fram áætlun um úrbætur ef tillögur eru um slíkt. Lokaskýrsla er síðan birt opinberlega og skiptir niðurstaða úttektarinnar því miklu máli fyrir íslensk flugmál.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum