Hoppa yfir valmynd
19. október 2010 Innviðaráðuneytið

Rætt um fjárhagsstöðu sveitarfélaga á Alþingi

Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var til svara á Alþingi í dag í utandagskrárumræðu um fjármál sveitarfélaga. Málshefjandi var Kristján Þór Júlíusson, þingmaður í Norðausturkjördæmi.

Þingmaðurinn lýsti áhyggjum sínum af fjárhagsstöðu sveitarfélaga og benti á að af 76 sveitarfélögum hefðu 38 verið rekin með tapi á síðasta ári og að 22 sveitarfélög skuldu sem svaraði meira en 150% af árstekjum. Spurði hann hvers sveitarfélögin gætu vænst á næsta ári. Einnig benti þingmaðurinn á það fordæmi Dana að sveitarfélög fengju að fresta tímabundið ýmsum skylduverkefnum til að létta á erfiðum fjárhag.

Aðrir þingmenn sem tóku þátt í umræðunni voru Gunnar Bragi Sveinsson, Lúðvík Geirsson, Ásbjörn Óttarsson, Jórunn Einarsdóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir. Þau tóku undir áhyggjur af stöðu sveitarfélaga og sögðu að brýnt væri að ríkið hugaði að því að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélaga meðal annars vegna hækkunar á húsaleigubótum, hækkunar á tryggingagjaldi og ýmsum öðrum útgjöldum. Þá var ráðherra hvattur til þess að koma á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga eins og samkomulag þessara aðila kveður á um.

Í ræðu sinni sagði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að fyrir stjórnvöldum vekti að halda eins náið og unnt væri utan um sveitarfélögin í þeim vanda sem að steðjaði. Hann benti á varðandi flutning á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sem hann sagði mikilvægan að til sveitarfélaganna myndi renna það fjármagn sem málaflokkurinn hefði kostað hjá ríkinu auk tímabundins viðbótarframlags. Þá sagði hann að það hefði einmitt komið sér á óvart í ráðuneytinu hversu kröftugt samráð og náið hefði verið milli ríkis og sveitarfélaga og kvaðst hann munu boða hið fyrsta til áðurnefnds samráðsfundar fulltrúa ríkis og sveitarfélaga sem þingmennirnir viku að. Nú væri verið að endurskoða tekjustofnamál sveitarfélaga, einnig fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og að koma þyrfti í betri farveg áhrifum af skuldbindingum ríkis á fjárhagsútlát  sveitarfélaga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum