Hoppa yfir valmynd
4. ágúst 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Meirihluti íbúa á gossvæði reyndist við góða líðan

Ráðstafanir sem gripið var til vegna heilsufars í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli í vor hafa skilað árangri, að því er niðurstöður rannsóknar sóttavarnalæknis benda til og fram kemur í Farsóttafréttum. Heilsufar 207 íbúa á gossvæðinu var skoðað og reyndist meirihluti þeirra við góða líðan og án einkenna þegar rannsóknin fór fram.

Rannsóknin var gerð 31. maí til 11. júní. Enn er unnið úr rannsóknargögnum en fyrstu niðurstöður læknisrannsóknar sýna að 60% íbúanna voru við góða líðan og án einkenna þegar rannsóknin fór fram. 18% voru með skerta öndunargetu samkvæmt blástursmælingu og 13% með sögu um astma eða lungnasjúkdóm.

Sóttvarnalæknir segir að öndunargrímur sem notaðar voru úti við í öskufalli eða fjúki hafi dregið úr óþægindum frá öndunarvegi. Færri hafi notað hlífðargleraugu. Innan við helmingur þátttakenda svaraði spurningu um nýtingu þjónustuúrræða en flestir þeirra lýstu ánægju með þau.

Sóttvarnalæknir vann að rannsókninni í samvinnu við sérfræðinga frá lungnadeild Landspítalans og heilbrigðisstarfsfólk frá Hellu, Hvolsvelli og Vík í Mýrdal. Skoðuð var lungnastarfsemi fólks með öndunarmælingum og blóðpróf tekið til þess að rannsaka bólgusvörun. Einnig voru lagðir fyrir spurningalistar um andlega og líkamlega líðan.

Heilbrigðisráðherra skipaði í júní sérstakan stýrihóp sem undirbúa á vísindarannsókn á langtímaáhrifum eldgossins á lýðheilsu. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða, er formaður hópsins.

Farsóttafréttir sóttvarnalæknis

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum