Hoppa yfir valmynd
27. september 2010 Utanríkisráðuneytið

Magnea Marinósdóttir til UNIFEM í Sarajevó

Magnea Marinósdóttir, alþjóðaritari hjá Alþingi, hefur tekið við starfi sérfræðings í jafnréttismálum hjá UNIFEM, Þróunarsjóði Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna, á Balkanskaga á vegum Íslensku friðargæslunnar. Hún hefur aðsetur í Sarajevó í Bosníu og Herzegóvínu.

Ráðning Magneu er framhald á því góða samstarfi sem Íslenska friðargæslan hefur átt við þær stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem vinna að jafnréttismálum. Hún undirstrikar þá áherslu sem utanríkisráðuneytið leggur á hlutverk kvenna í friðsamlegri lausn deilumála. Í þeim efnum er unnið samkvæmt framkvæmdaáætlun ráðuneytisins um konur, frið og öryggi, sem byggist á ályktun Sameinuðu þjóðanna um sama efni.

Samstarfið við UNIFEM á Balkanskaga hefur nú staðið í áratug og er þar með orðið langlífasta einstaka verkefni Íslensku friðargæslunnar. Magnea tekur við af Birnu Þórarinsdóttur, stjórnmálafræðingi, sem komin er heim eftir tveggja ára starf í Belgrad, og Hjálmari Sigmarssyni, mannfræðingi, sem einnig hefur snúið heim eftir tveggja ára starf í Sarajevó.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum