Hoppa yfir valmynd
8. mars 2021 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra tók þátt í viðburði UN Women í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þátt í viðburði á vegum UN Women í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Viðburðurinn var rafrænn og bar yfirskriftina: „Kvenleiðtogar: Jafnréttisbaráttan á tímum heimsfaraldurs COVID-19 á leið til kynslóðar jafnréttis“ (e; „Women in leadership: Achieving an equal future in a COVID-19 world on the way to the Generation Equality Forum“).

Forsætisráðherra ræddi það bakslag sem orðið hefur í jafnréttismálum vegna heimsfaraldursins og þær leiðir sem stjórnvöld geta farið til að styrkja stöðu kvenna og auka kynjajafnrétti. Hún fór einnig yfir það hvernig heimsfaraldurinn hefði dregið fram mikilvægi kvennastétta en um leið hefði álag á konur aukist, bæði vegna ólaunaðrar vinnu við umönnun ættingja og vegna aukins heimilisofbeldis í faraldrinum.

Þátttakendur í pallborði með forsætisráðherra voru meðal annarra Elizabeth Gómez Alcorta, ráðherra jafnréttismála í Argentínu. Á meðal þeirra sem fluttu ávörp voru Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Phumzile Mlambo-Ngcuka framkvæmdastjóri UN Women og Melinda Gates, framkvæmdastjóri góðgerðarstofnunarinnar Bill & Melinda Gates Foundation.

Viðburðinn má nálgast hér: https://www.unwomen.org/en/news/events/2021/03/event-international-womens-day-2021

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum