Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2007 Innviðaráðuneytið

Áhugi á samgöngumálum á Höfn

Kristján L. Möller samgönguráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra ræddu málefni ráðuneyta sinna á opnum fundi á Höfn í Hornafirði í gærkvöld. Samgönguráðherra greindi frá fyrirhuguðum framkvæmdum við Hringveginn svo sem styttingu vegarins vestan við Höfn.

Stytting Hringvegarins við Höfn
Stytting Hringvegarins við Höfn

Um 70 manns sátu fundinn og að loknu inngangsspjalli ráðherranna urðu miklar umræður, einkanlega um vegamál og flugmál. Fram kom í máli samgönguráðherra að verið er að undirbúa 10-12 km styttingu Hringvegarins vestan við Höfn. Frummatsskýrsla er væntanleg fyrir áramót og á næstunni verður kynningarfundur um málið. Þrjár leiðir þykja koma til greina og hefur bæjarstjórn Hafnar áhuga á leið nr. 3 eða syðstu leiðinni en Vegagerðin telur leið nr. 1, þá nyrstu vænlegasta og hagkvæmasta. Breyta verður aðalskipulagi sveitarfélagsins burtséð frá því hvaða leið verður valin.

Einnig kom fram hjá Kristjáni að framkvæmdir við Lónsheiðargöng yrðu í sjónmáli að loknum þeim gangaframkvæmdum sem þegar eru hafnar eða ákveðnar. Verður á meðan unnið að lagfæringum á Hringveginum í Þvottár- og Hvalnesskriðum.

Þá drap samgönguráðherra á málefni Hornafjarðarflugvallar en hann er ekki lengur skilgreindur sem alþjóðaflugvöllur sem þýðir að flugvélar í millilandaflugi geta ekki lent þar. Bæjarstjórnin hefur sent samgönguráðuneytinu erindi um að kannað verði hvort unnt verði að skilgreina flugvöllinn að nýju sem alþjóðlegan flugvöll en til þess þarf að koma upp ýmsum viðbúnaði til að mæta alþjóðlegum kröfum. Nokkrir tugir erlendra smáflugvéla hafa jafnan haft viðkomu á flugvellinum síðustu árin. Kannað verður hvað kosta myndi að verða við kröfum til að flugvöllurinn fái aftur fyrri stöðu.

Ráðherra minntist einnig á fjarskiptamál og sagði framundan að ganga frá samningum um síðari áfanga GSM-þjónustunnar og að á næstu vikum yrði boðin út þjónusta vegna háhraðatenginga á þeim svæðum sem fjarskiptafyrirtækin munu ekki sinna.

Kristján L. Möller sagði líflegar umræður hafa orðið á fundinum og greinilegt að menn hefðu mikinn áhuga á samgöngumálum á Höfn. Fram hefði komið ánægja með fyrirhugaðar endurbætur á veginum um Öxi sem greiðir leið milli Héraðs og Hornafjarðar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum