Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2012 Innviðaráðuneytið

Skýrsla um gildi fjármálareglna afhent innanríkisráðherra

Starfshópur sem innanríkisráðherra skipaði síðastliðið haust til að meta gildi fjármálareglna fyrir sveitarfélög sem lögfestar eru í nýjum sveitarstjórnarlögum hefur skilað skýrslu sinni. Telur hópurinn að fjármálareglurnar geri nýjar og ákveðnar kröfur til sveitarstjórna um fjármálastjórn.

Starfshópur skilaði innanríkisráðherra skýrslu um gildi nýrra fjármálareglna fyrir sveitarfélög.
Starfshópur skilaði innanríkisráðherra skýrslu um gildi nýrra fjármálareglna fyrir sveitarfélög.

Starfshópinn skipuðu þau Jóhannes Finnur Halldórsson, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, sem var formaður, Lilja Mósesdóttir alþingismaður og Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra þakkaði starfshópnum fyrir verkið og sagði fjármálareglurnar mikilvægt skref til að styrkja fjármálastjórn sveitarfélaga.  

Fjármálareglurnar samanstanda annars vegar af jafnvægisreglu sem gerir kröfu um jafnvægi í rekstri samstæðu sveitarfélaga á hverju þriggja ára tímabili og hins vegar skuldareglu sem gerir ráð fyrir að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu verði ekki hærri en sem nemur 150% af heildartekjum samstæðunnar. Tilgangurinn með fjármálareglum er því fyrst og fremst að setja sveitarfélögunum reglur um auka almennt aðhald að rekstri og takmarka möguleika þeirra til skuldsetningar.

Í niðurstöðukafla starfshópsins kemur meðal annars fram að fjármálareglurnar geri nýjar og ákveðnar kröfur til sveitarstjórna um fjármálastjórn og að svigrúm sveitarstjórna sé því takmarkaðra en áður til hallareksturs og skuldsetningar sveitarfélaganna. Þá segir starfshópurinn mikilvægt að í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga verði tryggð sveiflujöfnun á þann hátt að hægt verði að bregðast við utanaðkomandi breytingum í rekstrarumverfi sveitarfélaganna svo að þau geti staðið undir skyldum sínum. Þá telur nefndin mikilvægt að innleiðing reglnanna og útfærsla sé hófstillt og tekið sé mið af aðstæðum sveitarfélaganna eftir mikil efnahagsáföll undanfarinna ára.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum