Hoppa yfir valmynd
22. mars 2007 Utanríkisráðuneytið

Undirritun samstarfssamninga við Háskólann á Akureyri

Ávarp

Valgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra

við undirritun samstarfssamninga utanríkisráðuneytisins og

Háskólans á Akureyri

Góðir áheyrendur,

Það er mér sönn ánægja að undirrita hér í dag þessa tvö samstarfssamninga á milli utanríkisráðuneytisins og Háskólans á Akureyri.

Gerð þessara samninga markar nokkur tímamót fyrir okkur í utanríkisráðuneytinu, Háskólann á Akureyri og byggð og mannlíf hér í Eyjafirði. Annars vegar er um að ræða samning um leigu á húsnæði Háskólans fyrir þýðingarstarfsemi utanríkisráðuneytisins og faglegt samstarf milli þýðingarmiðstöðvar ráðuneytisins og háskólans á sviði þýðingarstarfsemi. Hins vegar er um að ræða samning milli ráðuneytisins og Háskólans um fjárhagslegan og faglegan stuðning við meistaranám í heimskautarétti við Félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri.

Á þessu ári eru liðin 20 ár frá stofnun Háskólans á Akureyri. Ekki leikur vafi á því að Háskólinn á Akureyri hefur með starfi sínu lyft sannkölluðu grettistaki í mennta- og byggðamálum á Norðurlandi. Á þessum tveimur áratugum hefur fjöldi nemenda sem stunda nám við Háskólann á Akureyri meira en hundraðfaldast og námsframboð við skólann hefur aukist verulega. Háskólinn á Akureyri hefur gert ungu fólki á Norðurlandi kleift að sækja sér æðri menntun á sínum heimaslóðum, laðað nemendur frá öðrum landshlutum hingað norður og skapað fræðimönnum og háskólakennurum störf hér á Akureyri. Þá hefur það metnaðarfulla háskólastarf sem unnið hefur verið í Háskólanum á Akureyri borið hróður Akureyrar víða. Allt hefur þetta verið til þess fallið að styrkja byggðina hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Ég tel því að eitt brýnasta verkefnið í byggðamálum hér fyrir norðan sé að styrkja Háskólann á Akureyri enn frekar og ég er sannfærð um að gerð þessara samstarfssamninga sé mikilvægt skref í þeim efnum.

Það er vel við hæfi að utanríkisráðuneytið styðji frumkvæði Háskólans á Akureyri að því að koma á fót meistaranámi á sviði heimskautaréttar. Nánasta umhverfi okkar Íslendinga eru hafsvæðin hér á norðurslóðum og málefni þeirra hljóta að vera í brennidepli við mótun utanríkisstefnu Íslands. Skipasamgöngur um hafsvæðin í kringum Ísland hafa aukist á síðustu árum og fastlega má búast við því að umferð skipa um þessi hafsvæði muni margfaldast á komandi árum. Þar kemur til bæði auknir sjóflutningar á olíu- og jarðgasi frá Rússlandi og möguleg opnun siglingarleiðar milli Norður-Atlantshafs og Kyrrahafs um Norður-Íshafið sökum hlýnandi loftslags. Þessi þróun mun óneitanlega hafa áhrif á öryggis- og varnarmál og umhverfisvernd á Norður-Atlantshafi en einnig skapa margvísleg tækifæri til þróunar efnahags- og atvinnulífs hér á landi. Á öllum þessum sviðum höfum við Íslendingar ríkra hagsmuna að gæta. Af þeim sökum er ekki efi í mínum huga að málefni norðurslóða munu verða ofarlega á baugi í utanríkismálum Íslands á næstu árum.

Þessi þróun mun einnig vekja upp mörg og snúin lagaleg álitaefni. Í ljósi þess hversu mikilla hagsmuni við Íslandingar höfum hér að gæta er afar mikilvægt að á Íslandi sé til staðar þekking á þeim réttarreglum sem gilda á þessu sviði. Þess vegna ber að fagna frumkvæði Háskólans á Akureyri við að byggja hér upp meistaranám í heimskautarétti og utanríkisráðuneytinu er bæði ljúft og skylt að styðja við bakið á þessu frumkvöðlastarfi.


Góðir áheyrendur,

Að undanförnu hefur verið mikið talað um að fjölga störfum á vegum hins opinbera á landsbyggðinni og hafa margir gagnrýnt hversu litlu hefur verið áorkað í þeim efnum. Það má vissulega til sanns vegar færa að í þeim efnum hefði ég viljað sjá meiri árangur. En ég er þeim mun stoltari yfir því að geta í dag skrifað undir samning við Háskólanna á Akureyri um leigu á húsnæði undir þýðingarstarfsemi á vegum utanríkisráðuneytisins. Þessi samningur gerir okkur kleift að stofna útibú frá Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins hér á Akureyri og ráða til starfa þýðendur sem búsettir eru eða verða á Eyjafjarðarsvæðinu. Er skemmst frá því að segja að áhuginn á þessum störfum er geysimikill og uumsóknir skiptu tugum, sem er afar ánægjulegt.

Þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur allt frá því að Ísland gerðist aðili að EES-samningnum haft með höndum það mikilvæga starf að þýða allt það mikla safn Evrópulöggjafar sem okkur ber að innleiða yfir á íslensku. Starf þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytins skiptir því sköpum fyrir þróun íslenskunnar sem lagamáls á tímum þegar sífellt stærri hluti löggjafar okkar á uppruna sinn að reka til Evrópulöggjafar eða annarra alþjóðlegra skuldbindinga. Á undanförnum árum hafa verkefni þýðingarmiðstöðvarinnar aukist jafnt og þétt, enda er henni ætlað að þýða lagabálka sem eru í senn miklir af vöxtum og oft á tíðum á snúnu og flóknu máli. Var því orðið brýnt að fjölga þýðendum hjá þýðingarmiðstöðinni. Með því að hefja þýðingarstarfsemi hér á Akureyri, til viðbótar þeirri starfsemi sem þegar er starfrækt í ráðuneytinu í Reykjavík, hefur þörfinni fyrir fjölgun þýðenda verið mætt. En um leið er opinberum störfum fjölgað hér á Akureyri. Raunar er utanríkisráðuneytið fyrsta ráðuneytið sem flytur hluta starfsemi sinnar hingað til höfuðstaðar Norðurlands. Það er alltaf ánægjulegt þegar okkur tekst að slá tvær flugur í einu höggi.

En í raun má segja að flugurnar verði þrjár í þessu tilfelli, því til viðbótar er með þessum samningi komið á víðtæku samstarfi utanríkisráðuneytisins og Háskólans á Akureyri sem tekur til fleiri sviða en þýðingarmála. Þannig mælir samningurinn fyrir um kannaður verði grundvöllur fyrir því að starfsmenn utanríkisþjónustunnar sinni kennslu, námskeiðahaldi eða fyrirlestrum á sviði alþjóðastjórnmála, alþjóðaviðskipta, mannréttindamála og lögfræði hér við Háskólann á Akureyri. Einnig mælir samningurinn fyrir um að ráðuneytið og háskólinn geri samkomulag um að nemendur við skólann eigi möguleika á starfsnámi og starfsaðstöðu í utanríkisþjónustunni.

Ég er sannfærð um að það samstarf utanríkisráðuneytisins og Háskólans á Akureyri sem hér hefur verið innsiglað með undirskrift þessara tveggja samstarfssamninga muni efla það góða starf sem fram fer innan veggja Háskólans á Akureyri. En þetta samstarf mun jafnframt verða utanríkisráðuneytinu styrkur í þeim verkefnum sem utanríkisþjónustan mun glíma við í framtíðinni. Ég vil því óska þeim sem hér eru staddir, starfsmönnum utanríkisþjónustunnar, nemendum, kennurum og öðrum starfsmönnum Háskólans á Akureyri – og raunar Akureyringum, Eyfirðingum og landsmönnum öllum - til hamingju með daginn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum