Hoppa yfir valmynd
5. mars 2013 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Tímamótafrumvarp um almannatryggingar

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem felur í sér heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni og grundvallarbreytingar á réttindum ellilífeyrisþega. Meginmarkmiðið er að einfalda löggjöfina, skýra betur réttindi lífeyrisþega og styrkja stöðu aldraðra.Starfshópur um endurskoðun almannatryggingalaga vinnur áfram að breytingum vegna þeirra sem eru með skerta starfsgetu. Hópurinn var skipaður í október 2009 og falið að gera tillögur um nýskipan almannatrygginga og er frumvarpið sem hér er lagt fram byggt á niðurstöðum hans.

Með breytingunum nú verða lög um almannatryggingar og lög um félagslega aðstoð sameinuð. Í frumvarpinu er skýrt kveðið á um markmið almannatrygginga með skírskotun til 76. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að í lögum skuli tryggður réttur allra sem þess þurfa til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis og sambærilegra atvika.“ Þetta er nýmæli en í gildandi almannatryggingalöggjöf skortir ákvæði um tilgang hennar og markmið. Í frumvarpinu er rík áhersla lögð á skýra framsetningu og einföldun löggjafarinnar sem auki gagnsæi og auðveldi fólki að gera sér grein fyrir réttindum sínum og skyldum. Samhliða þessu frumvarpi leggur ráðherra fram sérstakt frumvarp til laga um slysatryggingar sem eru hluti af gildandi almannatryggingalögum. Verði frumvörpin að lögum er áætluð gildistaka þeirra 1. júlí 2013.

Helstu breytingar

Breytingar með nýju frumvarpi eru fjölmargar en þær stærstu snúa að réttindum ellilífeyrisþega og felast í sameiningu bótaflokka gjörbreyttum og einfölduðum reiknireglum um útreikning bóta vegna tekna þar sem dregið er úr tekjutenginum, samhliða því að frítekjumörk verða afnumin. Almennt munu greiðslur almannatrygginga til ellilífeyrisþega hækka í kjölfar breytinganna. Af þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér eru þessar helstar:

  • Bótaflokkarnir ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót eru sameinaðir í einn flokk.
  • Í stað mismunandi áhrifa tekna til lækkunar á ellilífeyri munu allar tekjur ellilífeyrisþega hafa sömu áhrif. Miðað er við að ellilífeyrir skerðist um 45% af tekjum lífeyrisþega hvort sem um er að ræða atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur eða fjármagnstekjur auk þess sem öll frítekjumörk verða afnumin.
  • Verulega verður dregið úr áhrifum tekna á uppbót vegna framfærslu sem nú er greidd þeim elli- og örorkulífeyrisþegum sem eru hvað tekjulægstir. Í gildandi kerfi lækkar uppbót þessi um krónu á móti krónu hafi lífeyrisþegi einhverjar tekjur. Með breytingunni er stefnt að því að einungis 45% tekna hafi áhrif á útreikning framfærsluuppbótar þegar breytingin hefur að tekið gildi að fullu árið 2017. Þessi breyting verður innleidd í áföngum. Miðað er við að hlutfallið lækki í 80% við gildistöku laganna, verði síðan tug lægra 1. janúar ár hvert til ársins 2016 og lækki loks niður í 45% 1. janúar 2017.
  • Mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur verða framvegis greiddar eftir á, líkt og almennt gildir um launagreiðslur á vinnumarkaði, í stað fyrirframgreiðslu. Með þessu fær Tryggingastofnun ríkisins betri forsendur til að reikna út bótarétt og fjárhæðir bóta til hvers og eins og getur jafnframt stöðvað greiðslur tímanlega þegar skilyrði fyrir bótum eru ekki lengur uppfyllt.
  • Ítarleg ákvæði eru um málsmeðferð og stjórnsýslu, réttindi og skyldur borgaranna í tengslum við upplýsingagjöf sem tengjast útreikningum bóta og áhersla er lögð á leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu sjórnvalda.
  • Eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar ríkisins eru auknar til muna og aðgangur hennar að upplýsingum aukinn til að kanna réttmæti bótagreiðslna og rannsaka mál vakni grunur um bótasvik.
  • Samkvæmt frumvarpinu skulu ákvarðanir um greiðslur og fjárhæðir almannatrygginga endurskoðaðar árlega við afgreiðslu fjárlaga og taka mið af þróun launa, verðlags og efnahagsmála.

Athugasemd vegna kostnaðarumsagnar með frumvarpinu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir í umsögn með frumvarpinu að áætluð útgjöld ríkissjóðs vegna ellilífeyris umfram núverandi kostnað muni aukast um tvo til þrjá milljarða fyrstu árin eftir gildistöku frumvarpsins og árleg útgjaldaaukning verði rúmir níu milljarðar á ári þegar breytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda. Í umsögninni er horft fram hjá því að í núverandi kerfi munu útgjöld ríkissjóðs aukast um 3,7 milljarða króna á næstu tveimur árum, annars vegar til að efna samkomulag stjórnvalda og lífeyrissjóða frá því í desember 2010 og hins vegar þegar úr gildi fellur bráðabirðgaákvæði um aukið skerðingarhlutfall tekjutryggingar frá 2009. Í þessu felst að aukin útgjöld ríkissjóðs til almannatrygginga vegna nýja frumvarpsins verða 3,7 milljörðum lægri en fjármálaráðuneytið heldur fram.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira