Hoppa yfir valmynd
21. september 2005 Innviðaráðuneytið

Breyting á reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs

Félagsmálaráðherra hefur undirritað reglugerð um breytingu á reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs, nr. 544/2004. Við reglugerðina hefur verið bætt viðauka um viðurkennd viðskipti og mótaðila vegna áhættustýringar, til fyllingar ákvæði í 3. gr. reglugerðarinnar.

Félagsmálaráðherra óskaði í júnímánuði eftir formlegu samstarfi við Fjármálaeftirlitið um hugsanlegar breytingar á  reglugerðinni, í því skyni að kanna hvort þörf væri á setja ítarlegri ákvæði um fjárstýringu sjóðsins. Afrakstur þeirrar vinnu liggur nú fyrir. Áður en reglugerðin var sett aflaði ráðuneytið umsagna Fjármálaeftirlitsins og stjórnar Íbúðalánasjóðs, lögum samkvæmt og voru umsagnir beggja aðila athugasemdalausar.

Af gefnu tilefni skal tekið fram að með breytingunni er ekki verið að víkka heimildir Íbúðalánasjóðs að einu eða neinu leyti. Engin breyting hefur verið gerð á efnisákvæðum fyrri reglugerðar. Heimildir Íbúðalánasjóðs til áhættustýringar hafa til þessa verið útfærðar í áhættustýringarstefnu sjóðsins, innan þess svigrúms sem ákveðið er í lögum og reglugerð. Ákvæði hins nýja viðauka eru sett til að auka á gagnsæi og kveða skýrlega á um svigrúm sjóðsins til áhættustýringar í reglugerð. Þannig er nú meðal annars kveðið skýrt á um heimildir Íbúðalánasjóðs til að gera lánasamninga við banka og sparisjóði í áhættustýringarskyni og tekinn af allur vafi um lögmæti slíkra samninga.

Skjal fyrir Acrobat ReaderBreyting á reglugerð um fjárhag og áhættustýringu Íbúðalánasjóðs (PDF, 100 KB)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum