Hoppa yfir valmynd
20. júní 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 14/2006. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 20. júní 2006

í máli nr. 14/2006:

Norðlensk hús ehf.

gegn

Eyjafjarðarsveit

Með bréfi 9. júní 2006 kæra Norðlensk hús ehf. samþykkt sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um að samþykkja tillögu skólanefndar kærða um að samið verið við SBA-Norðurleið vegna útboðs auðkennt sem ,,Skólaakstur fyrir Hrafnagilsskóla“.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi samningsgerð kærða við SBA-Norðurleið eða eftir atvikum við aðra aðila um skólaakstur fyrir Hrafnagilsskóla, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Þá krefst kærandi þess að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar kærða um að semja við SBA-Norðurleið um skólaakstur við Hrafnagilsskóla, sbr. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001. Þá er þess krafist að nefndin felli úr gildi þá ákvörðun vinnuhóps sem annaðist hið kærða útboð að dæma ógilt tilboð kæranda, sbr. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001. Þá er þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001. Loks er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001.

Kærði krefst þess að kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar verði hafnað.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar þegar í stað. Úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.

I.

            Í febrúar 2006 óskaði kærði eftir tilboðum í skólaakstur með nemendur í Hrafnagilsskóla og var útboðið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu Um var að ræða sex akstursleiðir með samtals um 150 nemendur og var heimilt að bjóða í einstakar leiðir, nokkrar saman eða allar.  Skólaaksturinn var boðinn út til fjögurra ára með möguleika á framlengingu um eitt ár í senn að hámarki tvisvar sinnum. Í lið 1.2.1 í útboðslýsingu var fjallað um kröfur til hæfis bjóðenda. Kom þar fram að bjóðendur þyrftu að hafa jákvætt eigið fé, að minnsta kosti tveggja ára reynslu af akstri fólksflutninga sambærilegum þeim sem tilboð þeirra næði til og sýna fram á með vottorðum frá þar til bærum yfirvöldum að bifreiðar þeirra væru útbúnar samkvæmt lögum og reglugerðum. Tilboð voru opnuð 19. apríl 2006 og skiluðu sjö bjóðendur inn tilboðum. Kærandi bauð í leiðir 4, 5 og 6 og var tilboð hans í leið 6 lægst. Í bréfi kærða, dags. 4. maí 2006, um niðurstöðu á úrvinnslu tilboða kemur fram að tilboð frá kæranda og Sportrútunni ehf. hafi verið dæmd ógild þar sem þau hefðu ekki staðist þær kröfur sem gerðar væru um reynslu bjóðenda í lið 1.2.1 í útboðslýsingu. Var jafnframt tekið fram að gengið yrði til viðræðna við SBA-Norðurleið á grundvelli frávikstilboða 1 og 2 sem hljóði upp á 511.840 krónur á viku í allan akstur skólans. Með bréfi kærða til kæranda, dags. 16. maí 2006, var tilkynnt að sveitarstjórn kærða hefði samþykkt tillögu skólanefndar um að semja við SBA-Norðurleið um skólaakstur við Hrafnagilsskóla.

II.

Kærandi byggir á því að fyrrgreind samþykkt kærða sé ólögmæt og að jafnframt hafi verið ólögmætt að telja tilboð hans ógilt. Hafi hann átt lægsta tilboðið í akstursleið 6 og kærða borið að samþykkja það tilboð, sbr. einkum 26. og 50. gr. laga nr. 94/2001. Hafi samþykkt kærða byggt á því að kærandi hafi ekki haft tveggja ára reynslu ,,af akstri fólksflutninga“, sbr. lið 1.2.1 í útboðslýsingu. Sé þetta skilyrði í útboðslýsingu ólögmætt og hafi kærða því verið óheimilt að byggja niðurstöðu útboðsins á því. Sé skilyrðið ekki í samræmi við VI. kafla laga nr. 94/2001 sem hafi að geyma ákvæði um hæfi bjóðenda, en þar komi fram að bjóðandi skuli uppfylla kröfur verkkaupa um fjárhagslega og tæknilega getu til að framkvæma verkið. Hins vegar sé ekki að finna í lögunum ákvæði sem heimili verkkaupa að útiloka nýja aðila frá því að bjóða í verk af þeirri ástæðu einni að þeir hafi ekki áður sinnt slíkum verkum. Uppfylli kærandi skilyrði laganna um fjárhagslega getu og hafi hann lagt fram gögn því til stuðnings og jafnframt til stuðnings því að hann hafi tæknilega getu til að framkvæma verkið. Þá hafi kærandi upplýst kærða um að starfsmenn hans hefðu mikla reynslu af því að sinna akstri. Beri að túlka fyrrgreint ákvæði útboðslýsingar þar sem segi að bjóðandi hafi ,,reynslu af akstri við fólksflutninga“ með þeim hætti að átt sé við að þeir sem sinni akstri á vegum bjóðanda hafi a.m.k. tveggja ára reynslu af akstri við fólksflutninga. Leiði af sjálfu sér að einkahlutafélög geti ekki haft reynslu af akstri við fólksflutninga, enda aki þau ekki bifreiðum heldur ökumenn á vegum þeirra. Beri að túlka ákvæðið með þessum hætti enda sé sú túlkun eðlilegust og í samræmi við ákvæði laga nr. 94/2001. Þá njóti kærandi vafa um skýringu á skilmálum útboðsins. Hafi hann lagt fram upplýsingar yfir bifreiðar sem hann hefði til verksins og yfir ökumenn, þ. á m. ökumann sem hafi reynslu af akstri hópbifreiða frá árinu 1992. Uppfylli hann því augljóslega skilyrði útboðslýsingar.

Byggt er á því að fyrirætlun kærða um að semja við SBA-Norðurleið um allan akstur fyrir Hrafnagilsskóla brjóti gegn lögum nr. 94/2001 og útboðslýsingu. Þá muni fyrirhugaður samningur brjóta gróflega gegn lögmætum hagsmunum kæranda. Hafi boð kæranda í akstursleið 6 verið hagkvæmasta boðið og geri útboðslýsing ráð fyrir að boð í hverja leið verði metin sérstaklega. Þá sé fjárhagslega hagkvæmara fyrir kærða að semja við kæranda um akstursleið 6 og við þá bjóðendur sem buðu lægst í aðrar leiðir, heldur en að semja um allan akstur við SBA-Norðurleið.

III.

Kærði krefst þess að kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar verði hafnað þar sem undirritaður hafi verið samningur við SBA-Norðurleið á grundvelli hins kærða útboðs 24. maí 2006. Hafi samningurinn þegar tekið gildi og sé því ekki unnt að verða við kröfu kæranda.

IV.

Kærandi hefur í máli þessu krafist stöðvunar samningsgerðar, sbr. heimildir kærunefndar útboðsmála samkvæmt 80. gr. laga nr. 94/2001. Í 1. mgr. 54. gr. laganna kemur fram að tilboð skuli samþykkja skriflega innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda. Þó skal gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins þegar við á eða annar aðili óskar þess. Í 1. mgr. 83. gr. laganna kemur fram að eftir að samningur hefur verið gerður verði hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt. Í 3. mgr. sömu greinar segir að um gildi samninga, sem stofnað er til samkvæmt lögunum, fari að öðru leyti eftir almennum reglum.

Í máli þessu liggur fyrir þjónustusamningur á milli kærða og SBA- Norðurleiðar vegna hins kærða útboðs. Samningurinn er dagsettur 24. maí 2006 og verður að líta svo á að á því tímamarki hafi verið kominn á bindandi samningur milli kærða og SBA-Norðurleiðar. Brestur kærunefnd útboðsmála því heimild til að verða við kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar á grundvelli hins kærða útboðs. Með vísan til framangreinds verður að hafna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Norðlenskra húsa ehf.., um stöðvun samningsgerðar vegna útboðs kærða, Eyjafjarðarsveitar, auðkennt sem ,,Skólaakstur fyrir Hrafnagilsskóla“, er hafnað.

 

            Reykjavík, 20. júní 2006.

                                                                          

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Stanely Pálsson

                                                                                                                                                   

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 20. júní 2006.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum