Hoppa yfir valmynd
29. júní 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 15/2006. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 29. júní 2006

í máli nr. 15/2006:

Icepharma hf.

gegn

Ríkiskaupum

Með bréfi 16. júní 2006 kærir Félag íslenskra stórkaupmanna fyrir hönd Icepharma hf. útboð Ríkiskaupa nr. 14052 auðkennt sem ,,Ýmis lyf 10 fyrir sjúkrahús. Storkuþáttur VIII“.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi útboðið, sbr. 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Þá krefst kærandi þess að kærða verði gert að bjóða ýmis lyf 10 fyrir sjúkrahús út að nýju án tafar. Þá er þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda, sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001. Loks er þess krafist að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001.

Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar þegar í stað. Úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.

I.

            Hinn 26. apríl 2006 var útboðstilkynning vegna hins kærða útboðs send til birtingar í svokölluðum Ted banka eða Tender electronic daily þar sem útgáfustjórn Evrópubandalagsins birtir tilkynningar vegna útboða á Evrópska efnahagssvæðinu. Var þar tilgreindur fimmtán daga tilboðsfrestur undir liðnum ,,Time limit for receipt of tenders or request to participate“. Hið kærða útboð var síðan auglýst í Morgunblaðinu 28. maí 2006 og á vef kærða á svipuðum tíma. Með tölvupósti benti kærandi kærða á að auglýsing vegna útboðsins hefði ekki birst í Ted bankanum. Í kjölfarið tilkynnti kærði kæranda að hann hefði sent tilkynningu um útboðið til birtingaraðila. Við leit kæranda í Ted bankanum 14. og 15. júní 2006 kom hið kærða útboð ekki fram. Tilboð frá kæranda, Lyfjaveri ehf. og Vistor hf. voru móttekin á opnunarfundi 20. júní 2006, en ekki opnuð vegna kæru þeirrar sem hér er til umfjöllunar.

II.

Kærandi byggir á því að hið kærða útboð sé yfir viðmiðunarfjárhæðum vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um opinber innkaup, sbr. 56. gr. laga nr. 94/2001. Fari um birtingu tilkynninga vegna útboða á Evrópska efnahagsvæðinu eftir 62. gr. laga nr. 94/2001 og birti útgáfustjórn Evrópubandalagsins tilkynningar í svokölluðum Ted banka. Hafi íslenskir bjóðendur eins og erlendir bjóðendur fylgst með auglýsingum í bankanum og haft 52 daga til að afla nægilegra upplýsinga frá erlendum birgjum sínum til að geta skilað tilboði í útboðum kærða. Byggt er á því að hvort sem tilkynning um hið kærða útboð hafi verið send eða ekki hafi hún ekki verið birt í samræmi við gildandi reglur. Við reglulega leit kæranda í Ted bankanum hafi útboðið ekki komið fram, sbr. útprentanir af niðurstöðu leitar frá 14. og 15. júní 2006.

Vísað er til þess að kærandi hafi ekki fengið vitneskju um fyrirhugað útboð í samræmi við 64. gr. laga nr. 94/2001. Tekið er fram að samkvæmt 35. gr. laganna eigi tilboðstími að vera nægilega langur til að bjóðendur geti undirbúið tilboð. Hafi kærandi upplýsingar um að útboðið hafi á einhverjum tíma verið birt í Ted bankanum, en síðan horfið þaðan. Haldi kærði því fram vísar kærandi til 1. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 94/2001 um jafnræði bjóðenda. Eftir samskipti kæranda og kærða hafi birst í Ted bankanum 15. júní tilkynning nr. 119113-2006 með birtingardagsetninguna 15. júní 2006 og lokadagsetninguna 10. júlí 2006.

III.

            Kærði vísar til þess að ákveðið hafi verið að afturkalla hið kærða útboð og auglýsa það að nýju. Við nánari skoðun á útboðstilkynningu sem send var til birtingar í Ted bankanum 26. apríl 2006 hafi komið í ljós að tilgreindur var fimmtán daga tilboðsfrestur í stað 52 daga, þ.e. í stað þess að tilgreina dagsetningu opnunarfundar sem var 20. júní 2006 eins og eyðublað geri ráð fyrir. Á öllum öðrum stöðum í útboðstilkynningunni hafi verið tilgreind dagsetning opnunarfundar 20. júní 2006. Af þessum ástæðum virðist auglýsingin aðeins hafa verið í fimmtán daga í bankanum, en síðan hafa farið í hliðarhólf sem beri nafnið ,,Arkiv“. Vegna þessa hafi kærði ákveðið að bjóða kaupin út að nýju og afturkalla hið kærða útboð. Kærði mótmælir því að hann beri skaðabótaábyrgð þar sem kærandi hafi ekki sýnt fram á neitt fjárhagslegt tjón. Kröfu kæranda um kostnað við að hafa kæruna uppi er jafnframt mótmælt þar sem kærði hafi boðist til að fresta opnunarfundi, en kærandi ekki fallist á það. Áréttað er að þrír aðilar hafi sótt útboðsgögn vegna hins kærða útboðs. Nánar tiltekið hafi Lyfjaver ehf. sótt útboðsgögn 29. maí 2006, kærandi hinn 1. júní 2006 og Vistor hinn 30. maí 2006. Hafi allir þessir aðilar sótt gögnin strax eftir að auglýsing hafi verið birt í Morgunblaðinu 28. maí 2006.

IV.

Kærandi hefur í máli þessu krafist stöðvunar samningsgerðar, sbr. heimildir kærunefndar útboðsmála samkvæmt 80. gr. laga nr. 94/2001.

Fyrir liggur að kærði hefur að eigin frumkvæði ákveðið að stöðva hið kærða útboð og bjóða kaupin út að nýju. Hefur kærandi í ljósi þessa ekki lögvarða hagsmuni af því að nefndin taki ákvörðun um stöðvun samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001. Verður því að hafna þeirri kröfu kæranda.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Félags íslenskra stórkaupmanna fyrir hönd Icepharma hf., um stöðvun samningsgerðar vegna útboðs kærða, Ríkiskaupa, auðkennt sem ,,Ýmis lyf 10 fyrir sjúkrahús. Storkuþáttur VIII“, er hafnað.

 

                                                               Reykjavík, 29. júní 2006.

                                                                           Páll Sigurðsson

                                                                           Stanley Pálsson

                                                                           Sigfús Jónsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 29. júní 2006.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum