Hoppa yfir valmynd
19. september 2012 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 7/2012

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

Samtök meðlagsgreiðenda

gegn

innanríkisráðuneytinu

 

Aðild. Óbein mismunun.

Kærandi óskaði eftir úrskurði kærunefndar jafnréttismála um hvort lagaheimildir til að úrskurða um meðlag umfram einfalt meðlag, sbr. 57. gr. laga nr. 76/2003, brytu í bága við lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Kæra til nefndarinnar var lögð fram af félagasamtökum án þess að um væri að ræða mál tiltekins einstaklings sem hefði einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Var því málinu vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 19. september 2012 er tekið fyrir mál nr. 7/2012 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Samtök meðlagsgreiðenda, kt. 510512-1110,lögðu fram kæru til kærunefndar jafnréttismála, dagsetta 5. september 2012. Í kærunni er óskað eftir úrskurði nefndarinnar um hvort lagaheimildir til að úrskurða umfram einfalt meðlag, sbr. 57. gr. laga nr. 76/2003, brjóti í bága við lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, á grundvelli óbeinnar mismununar.

  MÁLAVEXTIR
 3. Í 1. mgr. 57. gr. barnalaga, nr. 76/2003, er kveðið á um úrskurð sýslumanns um greiðslu meðlags sem skal skv. 2. mgr. taka mið af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Samkvæmt 3. mgr. má í úrskurði hvorki ákveða lægri meðlagsgreiðslu en einfalt meðlag né heldur takmarka meðlagsskyldu foreldris við lægri aldur barns en 18 ár. Innanríkisráðuneytið lætur sýslumönnum í té viðmiðunarfjárhæðir sem hafðar skuli til leiðbeiningar við ákvarðanatöku í hverju máli. Samtök meðlagsgreiðenda óska eftir úrskurði kærunefndar jafnréttismála um hvort lagaheimild þessi brjóti í bága við lög nr. 10/2008 á grundvelli óbeinnar mismununar.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA
 4. Kærandi byggir á því að í áliti norsku jafnréttisnefndarinnar (Likestillings- og diskrimineringsnemda) frá 15. mars 2012 í máli nr. 9/2011 komi fram að fráskilinn faðir taldi sér vera mismunað þar sem hann hafi þurft að greiða aukið meðlag með börnum sínum en barnsmóðirin hafi verið í fæðingarorlofi með nýfætt barn sem hún eignaðist með nýjum maka. Jafnréttisnefndin hafi úrskurðað að um væri að ræða óbeina mismunun skv. 3. gr. laga um jafnrétti (Lov om likestilling mellom kjønnene).
 5. Kærandi greinir frá því að í málinu sem um ræði hafi konan verið í 60% starfi áður en hún eignaðist barnið. Í fæðingarorlofi hafi hún fengið greitt sem samsvari 80% af launum sínum. Konan hafi farið fram á aukið meðlag frá fyrri barnsföður vegna þess að tekjur hennar höfðu lækkað. Manninum hafi verið gert að greiða henni aukið meðlag.
 6. Frá því er greint af hálfu kæranda að umræddur meðlagsgreiðandi hafi haldið því fram að honum hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis með því að gera honum að greiða aukið meðlag meðan barnsmóðir hans hafi verið í fæðingarorlofi. Umboðsmaður jafnréttismála hafi tekið málið til umfjöllunar og bent á að meðlagsmál væru í eðli sínu kynbundin og talið að norsku meðlagsreglurnar mismunuðu karlmönnum við þessar aðstæður. Það væri fyrst og fremst á ábyrgð barnsmóðurinnar og nýs maka að taka á sig þær auknu fjárhagslegu byrðar sem fylgdu því að vera í fæðingarorlofi vegna barns þeirra. Málið hafi einnig komið til kasta jafnréttisnefndar sem hafi staðfest niðurstöðu umboðsmanns með sömu rökum.
 7. Kærandi byggir á því að norska lagaákvæðið sem þarlend jafnréttisnefnd hafi talið að brotið væri gegn sé mjög svipað 2. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem kveði á um að óbein mismunun sé fyrir hendi þegar hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun komi hlutfallslega verr við annað kynið nema slíkt sé viðeigandi, nauðsynlegt eða réttlætanlegt vegna hlutlægra þátta, óháð kyni.
 8. Kærandi vill fá úr því skorið hvort það sé óbein mismunun þegar meðlagsgreiðandi er skyldaður til að greiða aukið meðlag þegar barnsmóðir er komin í nýja sambúð eða hjúskap, eignast fleiri börn og minnkar við sig vinnu eða fer í fæðingarorlof. Spurt er hvort slíkt brjóti í bága við lög nr. 10/2008 og eins hvort lagaheimildir til úrskurðar aukinna meðlaga, sbr. 57. gr. laga nr. 76/2003, fari í bága við lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  NIÐURSTAÐA
 9. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
 10. Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna, sem telja að ákvæði laganna hafi verið brotin á sér, geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Aðild félagasamtaka að málum fyrir nefndinni er þannig bundin því skilyrði að  málið sé rekið fyrir hönd tiltekins félagsmanns sem hafi einstaklingsbundinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn ágreiningsefnisins. 
 11. Mál þetta er ekki rekið fyrir hönd tiltekins einstaklings heldur er óskað almenns álits á lögmæti tiltekinna lagaákvæða. Verður því að vísa málinu frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. ÞórðardóttirEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira