Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2002 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 3/2002

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 3/2002:


A

gegn

Leikfélagi Akureyrar

--------------------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 1. júlí 2002 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 6. mars 2002, sem barst kærunefnd jafnréttismála 7. mars sama ár, óskaði D hrl. eftir því f.h. A, að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning leikhússtjóra hjá Leikfélagi Akureyrar bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Leikfélagi Akureyrar með bréfi dags. 2. apríl 2002. Var þar með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 óskað eftir upplýsingum um fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna, upplýsingum um hvaða kröfur hafi verið gerðar til umsækjanda varðandi menntun og starfsreynslu, starfslýsingu leikhússtjóra, kyn og fjölda í stjórnunarstöðum hjá leikfélaginu, hæfnisröð umsækjenda, hafi þeim verið raðað í hæfnisröð, menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans, afrit af  umsókn hans og fylgigögnum, svo og hvað hafi ráðið valinu.

Með bréfi, dags. 15. maí 2002, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum við erindi kæranda.

Með bréfi, dags. 21. maí 2002, var kæranda kynnt umsögn kærða og óskað eftir frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi dags. 29. maí 2002.

Kærandi og lögmaður hennar og lögmaður kærða mættu á fund kærunefndar jafnréttismála 26. júní 2002 og gerðu grein fyrir helstu sjónarmiðum málsaðila.

 

II.

Málavextir

Starf leikhússtjóra hjá Leikfélagi Akureyrar var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 9. desember 2001. Umsóknarfrestur var til 9. janúar 2002. Fram kom í auglýsingu að óskað væri eftir upplýsingum um menntun og reynslu umsækjenda, svo og hugmyndum um listræn stefnumið.

Umsækjendur um starfið voru tólf, ellefu karlar og ein kona. Þrír umsækjendur voru valdir til þess að koma í viðtal hjá leikhúsráði, þar á meðal kærandi og sá sem ráðinn var. Samkvæmt lögum Leikfélags Akureyrar er það leikhúsráð sem ræður leikhússtjóra hjá Leikfélagi Akureyrar og setur honum erindisbréf, sbr. 8.-10. gr.

Kærandi var kölluð í viðtal vegna umsóknarinnar þann 29. janúar 2002. Með bréfi, dags. 8. febrúar, fékk kærandi tilkynningu frá Leikfélagi Akureyrar um það hver hefði verið ráðinn leikhússtjóri.

Leikhússtjóri er ráðinn til þriggja ára. Helstu verkefni leikhússtjóra eru skilgreind í erindisbréfi. Samkvæmt erindisbréfi frá 1998 eru þau eftirfarandi: Val á verkefnum, ráðning leikstjóra og annarra starfsmanna, gæsla hagsmuna félagsins út á við, samráð við fjárreiðustjóra um mannaráðningar og aðrar fjármálaskuldbindingar svo og ritstjórn leikskrár.

Með bréfi, dags. 13. febrúar 2002, óskaði kærandi eftir rökstuðningi vegna ráðningar leikhússtjóra. Eftir að kærandi kærði málið til kærunefndar jafnréttismála barst rökstuðningur með bréfi formanns Leikfélags Akureyrar, sem einnig er formaður leikhúsráðs, dags. 4. mars 2002.

Upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem ráðinn var, svo og önnur gögn sem fylgdu umsóknum þeirra, liggja fyrir.


III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Leikfélag Akureyrar hafi brotið gegn lög nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að ráða karlmann sem leikhússtjóra hjá Leikfélagi Akureyrar. Sérstaklega er vísað til 23.-25. gr. laganna þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildi það m.a. um ráðningar og vinnuskilyrði. Kærandi telur að gengið hafi verið framhjá sér við ráðningu í starfið. Hún hafi haft víðtækari menntun og reynslu af leikhúsi, auk þess sem hún hafi mikið unnið við leikhús, bæði sem framkvæmdastjóri, leikstjóri og sem þátttakandi í leiksýningum. Kærandi kvað þann sem ráðinn var hafa haft mun minni menntun og takmarkaðri reynslu hans, þar sem hann hafi aðallega fengist við leik.

Samkvæmt umsókn kæranda er námsferill hennar svofelldur: Stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1987, franska við Háskóla Íslands 1989-1990, BA próf í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands 1997, með áherslu á leikhúsbókmenntir, meistarapróf kennara frá Háskóla Íslands 1999, MA gráða í Contemporary Theatre Practice, við University of Essex í Englandi 2000, með aðaláherslu á "praktíska þætti" leikhúss. Fram kom að hún valdi leikstjórn sem lokaáfanga, fékk góða umsögn og tók þátt í að skrifa verkefnið með höfundi. Þá tók kærandi þátt í sumarnámskeið í Physical Theatre í School of Physical Theatre í London 2001. Kærandi kvaðst hafa leitast við að setja saman leikhúsfræðinám við val sitt á áföngum í námi sínu við Háskóla Íslands, en það hafi komið henni til góða við námið í Englandi.

Í umsókn tilgreinir kærandi m.a. vinnu við eftirtalin störf í leikhúsi:

1997: Glæpur og refsing: Strindberg, Leyndir draumar. Aðstoðarleikstjóri.

1998: Ávaxtakarfan: Kristlaug María Sigurðardóttir, Draumasmiðjan. Framkvæmdastjóri og aðstoðarleikstjóri.

2000: Quelques Fleures: Adrian Pagan. University of Essex. Leikstjóri.

2001: Ávaxtakarfan: Kristlaug María Sigurðardóttir. Gerð 40 mínútna útgáfu af leikritinu. Nemendur 10. bekkjar Lundarskóla á Akureyri. Leikstjóri.

2001: Fimmtán mínútna Hamlet: Tom Stoppard. Leikfélag Menntaskólans á Akureyri. Leikstjóri.

2001: Hver er Valdimar? Stuttmynd eftir handriti Hinriks Hoe Haraldssonar. Leikfélag Menntaskólans á Akureyri. Leikstjóri.

2001: Ek em maðr íslenskr: Stefán Þór Sæmundsson, leikþáttur fluttur á árshátíð Menntaskólans á Akureyri. Leikstjóri.

2002: Saga um pandabirni sögð af saxafónleikara sem á kærustu í Frankfurt. Leikfélag Akureyrar. Aðstoðarleikstjóri.

2002: Hárið. Leikfélag Menntaskólans á Akureyri. Leikstjóri.

Í umsókn eru m.a. tilgreindar eftirfarandi uppfærslur sem kærandi hefur komið að, tekið beinan þátt í eða veitt aðstoð við:

1983: My Fair Lady: B. Shaw. Leikfélag Akureyrar.

1984: Kardimommubærinn: T. Egner. Leikfélag Akureyrar.

1985: Jólaævintýri: Charles Dickens. Leikfélag Akureyrar.

1988: Sólarferð: Guðmundur Steinsson. Leikfélag Akureyrar.

1988: Hver er hræddur við Virginu Woolf. Leikfélag Akureyrar.

1989: Emil í Kattholti. A. Lindgren. Leikfélag Akureyrar.

1996: Safnarinn: J. Fowles. Draumasmiðjan.

1996: Trójudætur: Evripídes. Hvunndagsleikhúsið.

1999: Frú Klein: N. Wright. Hvunndagsleikhúsið.

1999: Hinn fullkomni jafningi: Felix Bergsson. Framkvæmdastjóri.

2001: Febrúar. Leiklistarnámskeið Menntaskólinn á Akureyri.

2001: Október. Leiklistarnámskeið Menntaskólinn á Akureyri.

Fram kemur að auk þess hefur kærandi unnið nokkur verk á sviði myndbandagerðar svo og ýmis störf við sjónvarpsþáttagerð, við auglýsinga- og tónlistarmyndbandagerð með innlendum og erlendum kvikmyndaleikstjórum og við gerð stuttmynda, m.a. leikstýrt einni slíkri mynd. Einnig hafi hún annast námsefnisgerð og kennslu í leiklistarfræðum. Kærandi hafi setið eitt ár í stjórn Gilfélagsins og húsnefnd Ketilshúss, sem sé fjölnota listhús.

Í umsókninni tilgreinir kærandi reynslu af stjórnun, m.a. að hún hafi verið framkvæmdastjóri tveggja leiksýninga sem báðar hafi hlotið mikið lof og gengið vonum framar, þ.e. "Ávaxtakarfan" og "Hinn fullkomni jafningi". Þar hafi hún séð um fjáröflun og kynningu á verkunum með góðum árangri. Einnig hafi hún starfað við hótelrekstur, sem aðstoðarmaður hótelstjóra Hótel Búða í þrjú sumur. Undanfarin misseri hefur kærandi kennt íslensku við Menntaskólann á Akureyri.

Kærandi telur forsendu þess að jafnréttislög nái tilgangi sínum sé að tryggja jöfn áhrif kvenna og karla og brjóta upp þá kynjaskiptingu sem sé í starfsgreinum á vinnumarkaði. Við val milli umsækjenda, sem telja verður nokkuð jafn hæfa, skuli horfa til skiptinga milli kynja í viðkomandi starfsgrein. Fyrir liggi að engin kona gegni starfi leikhússtjóra hjá atvinnuleikhúsi hér á landi.


IV.

Sjónarmið kærða

Í greinargerð kærða, dags. 15. maí 2002, er á því byggt að kærandi hafi verið minna hæf en sá sem ráðinn var. Sá hafi verið með meiri og fjölbreyttari menntun á sviði leiklistar og mun meiri reynslu af starfi að leikhúsmálum. Það var jafnframt álit kærða að sá sem ráðinn var hafi haft "skýrustu, framsæknustu, víðsýnustu og raunhæfustu hugmyndirnar um rekstur leikhússins". Fram kom hjá kærða að ef kærandi hefði verið ráðinn leikhússtjóri hefði það verið brot á jafnréttislögum.

Kærði taldi kynjasamsetningu umsækjendahópsins hafa valdið kærða vonbrigðum, enda hafi það verið kappsmál kærða að auka hlut kvenna í leikhúsinu. Allar umsóknir hefðu verið skoðaðar af gagnrýni og áhuga, styrkur og veikleikar umsækjenda skoðaðir, bæði hvað varðar formlega hæfni og kynni af þeim. Ákveðið var að kalla til viðtals, þau þrjú sem formlega þóttu hæfust. Menntun kæranda vó þungt, þar sem menntunin þótti mikil og breið, þótt hún hafi ekki nema að litlu leyti verið á sviði leiklistar. Einnig taldi kærði það vega þungt að kærandi var kona, en kærði kveðst hafa verið meðvitaður um að reynsla kæranda væri lítil eftir nám og takmörkuð á sviði stjórnunar á sviði leiklistar.

Samkvæmt gögnum málsins var námsferill þess sem ráðinn var svofelldur: Stúdentspróf frá máladeild Verzlunarskóla Íslands 1985, leiklistarnám í Stanford College, Orlando, Bandaríkjunum 1985-1986, Leiklistarskóli Helga Skúlasonar, kvöldskóli 1986-1987, Leiklistarskóli Íslands 1991, Kvikmyndaskóli Íslands, ein önn 1992.

Þá liggur fyrir að sá sem ráðinn var hefur komið m.a. að eftirtöldum störfum í leikhúsi:

1986: Skipulagði, leikstýrði og bjó til grímur fyrir grímuleikhússýningu sem fóru um landið yfir sumartímann.

1986: Setti upp og þýddi leikritið Breakfast club í Verzlunarskóla Íslands.

1991: Börn Mánans, Verzlunarskóli Íslands, leikstjóri.

1992: Framkvæmdastjórn og aðstoðarleikstjórn á finnsk-íslensku sjónvarpsmyndinni Malbik.

1992: Hvenær kemurðu aftur Rauðhærði riddari?, Verzlunarskóli Íslands, leikstjóri.

1993: Hreinn umfram allt, Fjölbrautarskóli Suðurnesja, leikstjóri.

1993: Leikstýrði og þýddi annan af tveimur einþáttungum eftir Jason Milligan, sem settir voru upp í Naustkjallaranum, og lék í hinum.

1994: Morgunverðarklúbburinn, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði, leikstjóri.

1994: Söngleikurinn Jesus Christ Superstar, Verzlunarskóli Íslands, leikstjóri.

1994: Hobbit, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, leikstjórn og leikgerð.

1994: Barnaóperan Hnetu-Jón, Tónlistarskólinn í Garðabæ, leikstjóri.

1995: Pink Floyd, The Wall eða Múrinn, Verzlunarskóli Íslands, leikstjóri.

1995: The Spinal Tap eða Mænustunga, Fjölbrautaskóli Hafnarfjarðar, leikstjóri.

1996: Gaukshreiðrið, Framhaldsskóli Vestfjarða á Ísafirði, leikstjóri.

1996: Sá um námskeið og leikstýrði og vann handrit að stuttmyndinni Örlög Læmingjans fyrir meðferðarstöð ríkisins, Tinda.

1996: Aðstoðarleikstjórn og framkvæmdastjórn á heimildamyndinni Glímu sem 20 Geitur sf. framleiddu.

1997: Skrifaði og setti upp leikverkið Hver djöfullinn er í gangi?, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði.

1998: Gaukshreiðrið, Leikfélag Keflavíkur, leikstjóri.

1999: Stofnaði Tilraunaleikhúsið, áhugamannafélag sem setti upp sýninguna, Á að njúka pleisið, sýnt í Tjarnarbíói.

2001: Ærsladraugurinn, Leikfélag Reyðfirðinga, leikstjóri.

2001: Fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Akureyrar. Hóf störf í ágústlok.

Einnig liggur fyrir að sá sem ráðinn var hefur m.a komið að neðangreindum leikverkum:

1986: Gekk til liðs við leikhópinn "Veit mamma hvað ég vil?" sem sá m.a. um götuleikhús Reykjavíkur fyrir 17. júní.

1986-1987: Var í listahópi sem m.a. hélt spunanámskeið í Kramhúsinu.

1990-1991: Nemendaleikhús: Dauði Dantons, Leiksoppar, Dampskipið Ísland.

1991: Undirleikur við morð, Alþýðuleikhúsið, leikari.

1993: Standandi pína, Frjálsi leikhópurinn, leikari.

1993: Kjartanssaga, kvikmynd Micheal Chapman, leikari.

1995: Djúp daganna, Íslenska leikhúsið, leikari.

1997: Vefarinn mikli frá Kasmír, Leikfélag Akureyrar, leikari.

1997: Draumsólir vekja mig: Hafnarfjarðarleikhúsið, leikari.

1998: Barnaleikritið Dimmalimm, með leikhópnum Augnabliki, í Iðnó, leikari.

1999: Búasaga, Borgarleikhúsið, leikari.

1999: Lék í kvikmyndinni Íslenski draumurinn eftir Róbert Douglas.

1999: Lék í sjónvarpsmyndinni Úr öskunni í eldinn, sem Óskar Jónasson gerði fyrir Sjónvarpið.

2001: Ball í Gúttó, Leikfélag Akureyrar, leikari.

Önnur störf þess sem ráðinn var eru tilgreind:

1986-1987: Umsjónarmaður tónlistarþáttarins Poppkorns hjá Sjónvarpinu.

1992-1993: Var í hálfu starfi við að lesa inn á teiknimyndir hjá Stöð 2, leikstýrði einnig þáttunum Falleg húð og frískleg sem Stöð 2 framleiddi á sama tíma.

1996: Kynning og forvinnsla heimildamyndanna Valli á mótorhjóli, Lúðrasveit og Brú.

1996: Endurvakti ásamt öðrum Kvikmyndaskóla Íslands.

1998: Sá um námskeið í grímugerð og grímuleik fyrir 8-12 ára börn í sumarbúðunum Ævintýralandi í Hrútafirði.

1999: Kenndi leiktúlkun við Leiklistarskóla Íslands og vann þar sýningu á gríska harmleiknum Elektru með annars árs nemendum við skólann 1999.

2000: Vann að gerð heimildarmyndar um gerð myndverksins Planet Rock.

2000: Hélt sjálfstætt leiklistarnámskeið í dansstúdíói á Manhattan-eyju.

2000: Annaðist fjáröflun fyrir barnasýninguna Bangsímon.

2001: Kenndi leiklist í grunnskóla Akureyrar.

Þá kom fram að sá sem ráðinn var hafi starfað að undirbúningi uppfærslu á Rocky Horror Picture Show fyrir Verkmenntaskólann á Akureyri. Hann hefur tekið að sér kennslu við Menntasmiðjuna á Akureyri. Þá er ótalinn leiklestur fjölda útvarpsleikrita, teiknimynda og auglýsinga, nokkrar uppsetningar fyrir árshátíðir og leikur í farandsýningunum. Einnig hefur hann unnið við gerð auglýsinga og haldið fjölda námskeiða á sviði leiklistar.

Kærði taldi eftir nákvæman samanburð á þessum umsækjendum, hvað varðar formlega hæfni, menntun og reynslu á sviði leiklistar, uppbyggingar- og samfélagsstarfs og stjórnunar, hafi sá sem starfið fékk verið talinn formlega hæfari en kærandi. Hann hafi fengist mikið við leikstjórn og alls kyns verkstjórn í leikhúsi og tengdum störfum. Kærandi hafi hins vegar mun minni starfsreynslu af störfum tengdum leikhúsi. Það sé því ekki hægt að fallast á að um brot á jafnréttislögum sé að ræða, með vísan til 22. gr. jafnréttislaga. Mat kærða var það að hefði kærandi verið ráðinn hefði það talist brot á jafnréttislögum.

 

V.

Niðurstaða

Markmið jafnréttislaga er að koma á og viðhalda jafnrétti. Með hliðsjón af því skal stuðlað að því að jafna tækifæri kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins, sbr. 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Atvinnurekendur gegna afar þýðingarmiklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra. Þeir skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, einnig skulu þeir vinna sérstaklega að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 13. gr. laga nr. 96/2000.

Kærandi byggir kæru sína á því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis þegar ráðið var í starf leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar í febrúar 2002. Telur kærandi að með því að ganga framhjá henni og ráða karl í starfið hafi jafnréttislög verið brotin á sér, þar sem karlinn sem ráðinn var hafi haft mun minni menntun en kærandi, auk þess sem reynsla hans hafi verið takmarkaðri. Vísar kærandi í þessu sambandi til 23.-25. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en í 3. mgr. 24. gr. segir að ef leiddar séu líkur að beinni eða óbeinni mismunun við ráðningu í starf skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.

Í auglýsingu um starf leikhússtjóra hjá Leikfélagi Akureyrar var þess óskað að umsækjendur gerðu grein fyrir menntun, reynslu og hugmyndum um listræn stefnumið. Líta verður svo á að í auglýsingunni hafi komið fram þau atriði sem fyrst og fremst yrðu lögð til grundvallar við ráðningu í stöðuna. Á þetta sér m.a. stoð í bréfi formanns Leikfélags Akureyrar, dags. 4. mars 2002.

Kærandi gerði í umsókn sinni ítarlega grein fyrir menntun sinni, reynslu á sviði leikhússtarfa og reynslu sinni á öðrum vettvangi, auk þess sem hún lagði fram sérstaka greinargerð um listræn stefnumið. Óumdeilt er að kærandi hafði, auk stúdentsprófs, BA próf í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands, með áherslu á leikbókmenntir og meistarapróf kennara frá sama skóla. Að auki hafði hún lokið MA prófi í leikhúsfræðum frá háskóla í Englandi. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 26. júní 2002, gerði kærandi grein fyrir inntaki MA námsins, en kærandi kveður sig á sama hátt hafa gert grein fyrir eðli þess í starfsviðtali hjá kærða. Viðurkennt er af hálfu kærða að menntun kæranda hafi talist viðamikil og hafi getað nýst vel í starfi leikhússtjóra, sbr. áður tilvísað bréf formanns Leikfélags Akureyrar, dags. 4. mars 2002.

Samkvæmt umsókn þess sem ráðinn var hafði hann fyrst og fremst, auk stúdentsprófs, próf í leiklist frá Leiklistarskóla Íslands.

Með vísan til þess sem að framan er rakið um menntun kæranda og með vísan til starfslýsingar í erindisbréfi leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar frá janúar 1998, verður að telja hafið yfir vafa að kærandi hafi á grundvelli háskólamenntunar sinnar haft meiri menntun en sá sem ráðinn var, á því sviði sem um ræðir.

Af þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu kemur fram að bæði kærandi og sá sem ráðinn var höfðu nokkra reynslu í leikstjórn og uppsetningu leikrita, einkum skólaleikrita og annarra minni leiksýninga, auk reynslu af öðrum störfum tengdum leiksýningum. Verður því að telja að kærandi og sá sem ráðinn var hafi að þessu leyti haft nokkuð jafna stöðu. Að því er önnur störf varðar verður að telja, með sama hætti, að reynslu þeirra hafi að meginstefnu til mátt leggja að jöfnu. Hvorki kærandi né sá sem ráðinn var höfðu hins vegar sérstaka reynslu af leikhússtjórn eða af störfum sem öldungis má jafna til slíkra starfa.

Með vísan til þessa verður ekki fallist á það með kærða að sá sem ráðinn var hafi haft formlega meiri menntun og reynslu en kærandi. Er þá sérstaklega haft í huga að kærandi telst hafa haft meiri menntun en sá sem ráðinn var og er óumdeilt að sú menntun hafi getað nýst í umræddu starfi.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 er óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef máli er vísað til kærunefndar og leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun við ráðningu í starf, skal atvinnurekandi sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr.

Með vísan til þess sem að framan greinir varðandi menntun og reynslu kæranda og þess sem ráðinn var, verður að telja að kærða beri að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í þessu felst að kærði geri á hlutrænan og málefnalegan hátt grein fyrir því hvaða aðrar ástæður lágu að baki ákvörðun um ráðningu í starf.

Kærandi og sá sem ráðinn var gerðu grein fyrir listrænum stefnumiðum í umsóknum sínum til kærða. Í báðum tilfellum var fyrst og fremst um að ræða almenna lýsingu á viðhorfum til listræns og menningarlegs gildis leikhúsa og með hvaða hætti leikhúsið þjónaði best samfélagslegum markmiðum og þörfum. Ekki verður séð að í skriflegum greinargerðum umræddra umsækjenda felist umtalsverður munur á áherslum að þessu leyti, þó svo að nálgun þeirra hafi verið með nokkuð ólíku móti. Í auglýsingu um starfið kom ekki fram að óskað væri eftir ráðagerðum umsækjenda um fjárhagslegan rekstur, markaðssetningu eða almennt innra starf leikhússins.

Af hálfu kærða var á því byggt að í starfsviðtali hafi sá sem ráðinn var sýnt þekkingu sína á innviðum leikhússins á Akureyri, en hann hafði þá starfað þar um fimm mánaða skeið. Listræn sjónarmið hans hafi fallið best að hugmyndum leikhúsráðs. Þá hafi sá sem ráðinn var haft "skýrustu, framsæknustu, víðsýnustu og raunhæfustu hugmyndirnar um rekstur leikhússins", sbr. bréf formanns Leikfélags Akureyrar, dags. 4. mars 2002.

Ekki liggur alls kostar fyrir hvaða hugmyndir lágu þarna að baki, enda eru þær ekki skýrðar með afdráttarlausum hætti í skriflegum gögnum málsins. Þegar svo stendur á verður ekki talið að þær geti réttlætt að gengið hafi verið framhjá kæranda, sem telja verður að hafi haft meiri menntun, og að því leyti talist hæfari, en sá sem ráðinn var.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, er það álit kærunefndar jafnréttismála að Leikfélag Akureyrar hafi við ráðningu í stöðu leikhússtjóra hjá Leikfélagi Akureyrar brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Leikfélags Akureyrar að viðunandi lausn verði fundin á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

 


Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Stefán Ólafsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira