Hoppa yfir valmynd
25. maí 2001 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 5/2000

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 5/2000:

A
gegn
Skólaskrifstofu Kópavogs

--------------------------------------------------

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 25. maí 2001 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I

Inngangur

Með bréfi, dags. 29. júní 2000, óskaði A eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort synjun Skólaskrifstofu Kópavogs um að greiða henni sömu laun og kennslufulltrúa og sérkennslufulltrúa bryti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991. Erindinu fylgdu ýmis gögn er varða menntun hennar og starfsferil.

Bréf kæranda var kynnt Skólaskrifstofu Kópavogs með bréfi, dags. 5. september 2000. Þar var m.a. með vísan í 3. mgr. 6. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, óskað upplýsinga um fjölda og kyn þeirra sem starfa sem sérfræðingar á Skólaskrifstofu Kópavogs, hvaða viðmið séu höfð til hliðsjónar þegar sérfræðingum er raðað í launaflokka og hvort stöður sérfræðinganna séu sambærilegar.

Með bréfi Skólaskrifstofu Kópavogs, dags. 3. október 2000, ásamt fylgiskjölum, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum Skólaskrifstofunnar við erindi kæranda.

Með bréfi, dags. 16. október 2000, var kæranda kynnt umsögn Skólaskrifstofu Kópavogs ásamt fylgiskjölum og óskað eftir frekari athugasemdum kæranda. Sú umsögn var veitt með bréfi, dags. 27. október 2000, þar sem athugasemdir voru gerðar við fyrrgreinda umsögn Skólaskrifstofu Kópavogs. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2000, var Skólaskrifstofu Kópavogs gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkomin sjónarmið kæranda en ekki voru gerðar frekari athugasemdir af hálfu kærða á því stigi.

Með bréfi, dags. 18. desember 2000, óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir nánari upplýsingum frá kærða, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og gáfu kærða jafnframt kost á að koma á fund nefndarinnar þann 19. janúar 2001. Umbeðnar upplýsingar bárust nefndinni með bréfi, dags. 8. janúar 2001. Kæranda var einnig með bréfi, dags. 18. desember 2000, gefinn kostur á að koma á fund nefndarinnar þann 19. janúar 2001.

Kærandi og kærði mættu á fund nefndarinnar þann 19. janúar 2001 og gerðu grein fyrir helstu rökum málsaðila. Af tilefni af upplýsingum sem fram komu á fundinum var ákveðið að kærði gerði nefndinni frekari grein fyrir máli sínu skriflega en sú greinargerð barst kærunefndinni með bréfi, dags. 22. febrúar 2001.

Með bréfi, dags. 23. janúar 2001, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkomin sjónarmið kærða. Athugasemdir kæranda bárust kærunefndinni með svarbréfi, dags. 5. febrúar 2001. Með bréfi, dags. 2. mars 2001, var óskað eftir frekari athugasemdum frá kæranda vegna greinargerðar kærða, dags. 22. febrúar 2001. Sú umsögn, ódags, barst kærunefndinni þann 15. mars 2001.

Með bréfi, dags. 25. apríl 2001, var kærða gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsagnir kæranda og bárust þær athugasemdir með bréfi, dags. 14. maí 2001.

Með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sem tóku gildi 22. maí 2000, féll umboð þáverandi kærunefndar jafnréttismála niður, sbr. ákvæði til bráðabirgða. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð hinn 25. júlí 2000 og tók hún við meðferð máls þessa.

Álit þetta er veitt á grundvelli laga nr. 28/1991 og laga nr. 96/2000.

 

II

Málavextir

Kærandi var ráðin sem sálfræðingur á Skólaskrifstofu Kópavogs árið 1997. Við ráðningu hennar varð samkomulag um að henni yrði í byrjun reiknuð laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags fyrir grunnskóla þar sem kjarasamningur við Stéttarfélag sálfræðinga lægi ekki fyrir. Ákvæði var því sett í ráðningarsamning hennar þess efnis að þetta fyrirkomulag skyldi gilda uns nýr kjarasamningur milli Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags sálfræðinga tæki gildi. Eftir gildistöku hans skyldu laun hennar reiknast samkvæmt honum og þau leiðrétt frá upphafi ráðningar til samræmis honum. Þann 27. maí 1998 var gerður nýr ráðningarsamningur við kæranda með ákvæðum um að hún fengi greitt samkvæmt hinum nýja kjarasamningi milli Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags sálfræðinga og fengi jafnframt greiddar 40 klst. í fasta yfirvinnu. Þann 1. júní 1998 fékk kærandi greiddan þann mismun sem reyndist vera milli þess kjarasamnings sem laun hennar í upphafi voru reiknuð eftir og þess sem síðar var miðað við.

Kærandi hefur óskað eftir því við yfirmenn sína að þeir hækkuðu grunnlaun hennar til samræmis við skyldur, ábyrgð og menntun, þannig að þau yrðu sambærileg við grunnlaun annarra starfsmanna á skólaskrifstofunni. Þar starfa m.a. kennslufulltrúi og sérkennslufulltrúi sem báðir eru karlmenn. Var ósk kæranda um launahækkun synjað.

 

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að synjun Skólaskrifstofu Kópavogs um að greiða henni sömu grunnlaun og kennslufulltrúa og sérkennslufulltrúa brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991. Í þessu sambandi vísar kærandi m.a. til þess að störfin falli öll undir reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla, nr. 386/1996, sbr. lög um grunnskóla, nr. 66/1995, og séu þess vegna fyllilega sambærileg og jafnverðmæt.

Kærandi er menntuð sem sálfræðingur og hefur leyfi menntamálaráðherra til að starfa sem sálfræðingur á Íslandi. Til að öðlast slíkt leyfi þurfi a.m.k. sex ára háskólanám sem ljúki með embættisprófi í faginu. Hún hefur jafnframt lokið námskeiðum hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands ásamt öðrum námskeiðum.

Leggur kærandi áherslu á að menntun hennar nýtist henni daglega í starfi sem sálfræðingur á skólaskrifstofunni en hún sé eini fastráðni sálfræðingurinn á skrifstofunni. Sálfræðingur komi oftast nær að máli nemenda sem þurfi á sérúrræði að halda innan skólakerfisins en ákvarðanir um nýtt skólaúrræði eða sérúrræði séu byggðar undantekningalaust á mati sálfræðinga. Enn fremur sé það í verkahring sálfræðinga að finna lausn á vanda nemenda og finna þeim viðeigandi aðstoð innan kerfisins. Þar undir falli einnig ýmis konar ágreiningsmál en sálfræðingar hafi faglegar forsendur til að koma að lausn slíkra mála. Þess vegna geti kennslufulltrúi og sérkennslufulltrúi ekki sinnt stórum hluta af starfi kæranda.

Það er álit kæranda að vinnuveitanda sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði enda þótt því sé greitt samkvæmt mismunandi kjarasamningum. Það hafi legið ljóst fyrir í upphafi að hún tæki laun samkvæmt samningi Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags sálfræðinga. Hún hafi ekki samið um launakjör sín heldur væru þau kjarasamningsbundin.

 

IV

Sjónarmið kærða

Sjónarmið kærða byggjast á því að kæranda ásamt kennslufulltrúa og sérkennslufulltrúa sé raðað í launaflokka samkvæmt viðeigandi kjarasamningum. Kæranda sé greitt samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags sálfræðinga en kennslufulltrúa og sérkennslufulltrúa sé greitt samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla.

Störfin séu sambærileg að hluta í merkingu 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, en ekki að öllu leyti. Þau felist í því að veita starfsfólki skólanna og foreldrum ráðgjöf við lausn vandamála sem upp koma í skólastarfi, sbr. reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla. Kennslufulltrúinn og sérkennslufulltrúinn vinni jafnframt að því að finna nemendum með sérþarfir úrræði, veita skólunum ráðgjöf og aðstoð vegna þróunar- og nýbreytnistarfa ásamt því að vinna að lausn ágreiningsmála. Auk þess sjái þessir aðilar um sérverkefni, svo sem sérdeild einhverfra, nýbúadeild og heildagsskóla.

Kennslufulltrúa og sérkennslufulltrúa hafi upphaflega verið greidd laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Kennarasamband Íslands og Hins íslenska kennarafélags fyrir grunnskóla. Síðar hafi Launanefnd sveitarfélaga tekið við samningsumboði fyrir sveitarfélögin og hafi laun þeirra breyst í samræmi við kjarasamninga hennar og Kennarasambands Íslands.

Þegar kærandi var ráðin hafi orðið samkomulag um að henni yrðu reiknuð laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Kennarasambands Íslands og Hins íslenska kennarafélags fyrir grunnskóla fram til þess tíma að kjarasamningur Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags sálfræðinga tæki gildi. Nýr ráðningarsamningur var gerður við kæranda þann 27. maí 1998.

Kærði vísar til þess að umræddur munur á grunnlaunum grundvallist ekki á kyni þeirra sem hlut eiga að máli heldur ólíkum kjarasamningum. Mánaðarlaun séu samkvæmt gildandi kjarasamningum og föst yfirvinna væri hin sama hjá öllum sérfræðingum Skólaskrifstofu Kópavogs við upphaf ráðningar kæranda. Hins vegar hafi orðið breytingar á kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands þess eðlis að hluti fastrar yfirvinnu hafi verið reiknaður inn í grunnlaunin þannig að hlutfall dagvinnu og yfirvinnu í heildarlaunum hafi breyst hjá kennslufulltrúanum og sérkennslufulltrúanum. Eftir breytinguna fái þeir greiddar 20 klst. í yfirvinnu en kærandi fái greiddar 40 klst. sem endranær.

Enn fremur beri að líta til mismunandi kjara í þessum tveimur kjarasamningum. Í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags sálfræðinga séu ákvæði um að starfsmaður skuli eiga kost á handleiðslu en slíkt ákvæði sé ekki að finna í Kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands. Auk þess sé kjarasamningsbundið launaskrið, til dæmis vegna doktorsprófs og þátttöku í námskeiðum, meira í kjarasamningi kæranda heldur en þeim kjarasamningi sem kennslufulltrúi og sérkennslufulltrúi taki laun eftir.

Kærði leggur áherslu á að kjarasamningsaðild sé ákveðin í ráðningarsamningi starfsmanns og launagreiðanda og gildi þar til sá kjarasamningur sem ráðningarsamningurinn er grundvallaður á renni út. Enn fremur bendir kærði á að kærandi sé ekki komin í hæsta launaþrep og ekki með hæstu orlofsprósentu. Þegar hún verði komin í hæsta þrep og með hæstu orlofsprósentu hækki laun hennar þannig að munurinn á heildarlaunum þessara sérfræðinga verði í raun ekki mikill.

 

V

Niðurstaða

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, jafnréttislaga, hafi verið að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnun tækifæra kvenna og karla. Í því skyni þurfti að bæta sérstaklega stöðu kvenna og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Kveðið var á um í 4. gr. laganna að konum og körlum skyldu greidd jöfn laun og skyldu þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Launamunur fól í sér misrétti væru störf talin jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga, nr. 28/1991, enda yrði launamunurinn ekki skýrður með þáttum sem væru óháðir kynferði starfsmanna.

Lögunum var ætlað að tryggja að konur og karlar nytu sömu launa og sömu kjara fyrir sömu störf og fyrir mismunandi störf sem metin voru jafnverðmæt og sambærileg. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. var með jöfnum launum karla og kvenna fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf átt við launataxta sem samið var um án þess að gerður væri greinarmunur á kynjum. Lögin skylduðu vinnuveitanda að ákvarða laun þannig að þau viðmið sem lögð voru til grundvallar launum fælu ekki í sér kynjamismunun.

Nú er kveðið á um launajafnrétti í 14. gr. laga nr. 96/2000, en greinin er að mestu efnislega samhljóða 4. gr. eldri jafnréttislaga nr. 28/1991.

Viðurkennt er að við úrlausn þess hvort störf teljist jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga verði að byggja á heildstæðu mati. Geti þannig verið um slík störf að ræða þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og að þau krefjist til dæmis mismunandi menntunar. Enn fremur er það álit kærunefndar jafnréttismála að markmið jafnréttislaga um sömu launakjör kvenna og karla fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf náist ekki ef launajöfnuðurinn eigi einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar.

Samkvæmt gögnum málsins heyra sérfræðistörf kæranda og þeirra starfsmanna sem hún ber sig saman við undir fræðslustjóra á Skólaskrifstofu Kópavogsbæjar. Í drögum að skipulagi og starfslýsingum hjá skólaskrifstofunni sem samin voru eftir að sveitarfélagið tók við rekstri grunnskóla árið 1996 kemur fram að störfin fela öll í sér einhvers konar ráðgjöf og stuðning vegna almenns skólastarfs í sveitarfélaginu auk nýbreytni-, þróunar- og forvarnastarfa. Kennslufulltrúi sinnir almennri kennslufræðilegri þjónustu við skólana, annast þróunar- og nýbreytnistörf, stefnumótun og mat á skólastarfi. Sérkennslufulltrúi ber ábyrgð á framkvæmd sérkennslu í grunnskólum sveitarfélagsins sem meðal annars felur í sér að veita faglega aðstoð og leiðbeiningar til kennara í tengslum við sértækar þarfir einstakra nemenda eða nemendahópa. Auk þessa skipuleggur hann nýbúafræðslu og hefur umsjón með henni. Sálfræðingur á skólaskrifstofu aðstoðar foreldra og starfsmenn skóla við að sinna þörfum nemenda sem eiga í sálrænum, félagslegum og námslegum erfiðleikum. Þegar þurfa þykir er það hlutverk sálfræðingsins að beina nemendum til meðferðar til viðeigandi aðila og fylgjast með þeim úrræðum sem þar verða valin. Þá skal hann enn fremur vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum og veita starfsfólki leikskóla faglega ráðgjöf. Í starfslýsingunni kemur einnig fram að sálfræðingurinn skuli vinna í nánu samstarfi við aðra starfsmenn sérfræðiþjónustu að sálfræði-, uppeldis- og kennslumálum. Upplýst er af hálfu kærða að í megindráttum hafi verið unnið eftir því skipulagi sem hér er lýst.

Af framansögðu virðist sem markmið þessara starfa sé að stuðla að því að kennslufræðileg og sálfræðileg þekking nýtist sem best í skólastarfi í samræmi við 43. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995. Starfsmönnum er ætlað að vinna saman að þessu markmiði án þess að einn þeirra sé gerður sérstaklega ábyrgur fyrir utan þá faglegu ábyrgð sem hvert þeirra ber í samræmi við menntun. Verður því að líta svo á að þau beri sambærilega ábyrgð á því að nemendur og fjölskyldur þeirra njóti viðeigandi úrræða innan skólakerfisins, hvort sem þau eru almenn eða sértæk. Breytir þar engu um þótt starfsmenn taki að sér einstök sérverkefni, svo sem sérdeild einhverfra, nýbúadeild eða heildagsskóla, enda ekki annað séð en að slík verkefni tengist með nánum hætti umræddum störfum. Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir og þeirra sjónarmiða sem hafa komið fram í skriflegum gögnum málsaðila til nefndarinnar að öðru leyti er það álit kærunefndar að kærði í máli þessu hafi ekki nægjanlega sýnt fram á að umrædd störf teldust ekki sambærileg störf í skilningi jafnréttislaga.

Kærandi lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskólanum í Gautaborg, Svíþjóð, árið 1989 og MA-prófi frá sama skóla árið 1993. Þann 18. mars 1994 veitti menntamálaráðherra kæranda leyfisbréf til að starfa sem sálfræðingur hér á landi. Kærandi hóf störf á Fræðsluskrifstofu Reykjaness árið 1994, starfaði síðan hjá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur og hóf loks störf á Skólaskrifstofu Kópavogsbæjar árið 1997. Sérkennslufulltrúinn lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni árið 1982, lauk sérkennaraprófi frá Háskólanum í Osló árið 1992 og embættisprófi í sérkennslufræðum frá sama skóla árið 1994. Hann hefur stundað ýmis störf tengd kennslu, m.a. var hann sérkennari við Haug sérskóla í Bærum, Noregi, og hóf störf hjá Skólaskrifstofu Kópavogsbæjar árið 1996. Kennslufulltrúinn lauk kennaraprófi frá Frederiksberg Seminarium árið 1975, Exam.pæd frá Danmarks Lærerhöjskole árið 1993 og Can.pæd. frá sama skóla árið 1999. Hann hefur aðallega starfað við kennslu og vann á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur frá árinu 1993 áður en hann hóf störf hjá Skólaskrifstofu Kópavogsbæjar árið 1997.

Starfsmennirnir þrír völdu þá kjarasamninga sem samrýmdust menntun þeirra með hliðsjón af launakjörum. Kennslufulltrúi og sérkennslufulltrúi taka báðir laun samkvæmt Kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla. Kærandi tók í fyrstu laun samkvæmt þeim kjarasamningi þar sem kjarasamningur milli Launanefndar sveitarfélaga og Stéttarfélags sálfræðinga lá ekki fyrir. Var um það samið við ráðningu hennar að þegar sá samningur tæki gildi skyldu laun hennar reiknast samkvæmt honum og laun hennar leiðrétt frá upphafi ráðningar til samræmis. Þessi leiðrétting var gerð 1. júní 1998. Eftir þann tíma hefur kærandi tekið laun eftir áðurgreindum kjarasamningi Stéttarfélags sálfræðinga.

Sú lagaskylda hvílir á vinnuveitendum að sjá til þess að konur og karlar njóti sömu launa og kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Þar sem um sambærileg störf er að ræða bar kærða að tryggja það að kærandi njóti sambærilegra ráðningarkjara og kennslufulltrúi og sérkennslufulltrúi. Fram er komið að grunnlaun hennar eru lægri en þeirra sem og heildarlaun hennar. Í þessu sambandi skal sérstaklega bent á að kærði hefur ekki byggt á því að mismunandi líf- og starfsaldur hafi þýðingu við mat á störfum þremenninganna enda virðist reynsla þeirra af umræddum störfum svipuð. Tilvísun kærða til mismunandi persónulegra eiginleika hefur ekki verið rökstudd sérstaklega.

Af hálfu kærða hefur sá launamismunur sem um er að ræða verið m.a. rakinn til ólíkra kjarasamninga. Ekki hefur verið skýrt í málinu hvernig ákvörðun launa hafi ráðist af túlkun kjarasamninganna sem hafa ekki bein ákvæði um þau störf sem hér eru til umfjöllunar. Þá hafa launakjör umræddra starfsmanna ekki verið borin saman heildstætt enda þótt kærði hafi tilgreint atriði sem sérstaklega er fjallað um í kjarasamningi kæranda, einkum varðandi svokallaða handleiðslu.

Samkvæmt almennum sönnunarreglum stendur kærða nær að sýna fram á það að hlutlægar ástæður hafi ráðið launamuninum enda verður að telja að kærði hafi verið í betri aðstöðu til að bera saman kjör kjarasamninganna tveggja. Það hefur hann ekki gert en viðurkennt er að kjarasamningar einir sér geta ekki réttlætt launamun kvenna og karla.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að Skólaskrifstofu Kópavogsbæjar hafi hvorki lánast að sýna fram á að sá munur sem var á launum kæranda annars vegar og sérkennslufulltrúans og kennslufulltrúans hins vegar skýrist af því að störf þeirra hafi ekki verið sambærileg og jafnverðmæt, né að þeir karlar sem gegndu stöðu sérkennslufulltrúans og kennslufulltrúans hafi verið verðmætari starfsmenn en kærandi. Verður því lögum samkvæmt að líta svo á að kynferði hafi ráðið þessum mun. Skólaskrifstofa Kópavogsbæjar telst þannig ekki hafa fylgt 1. tl. 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. gr. jafnréttislaga, nr. 28/1991, við umræddar launaákvarðanir, sbr. nú 14. gr. laga nr. 96/2000.

Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Skólaskrifstofu Kópavogsbæjar að kæranda verði bættur sá munur sem var á launum hennar og kennslufulltrúans og sérkennslufulltrúans frá 1. september 1998 eða að fundin verði önnur lausn sem kærandi sættir sig við.

 

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Stefán Ólafsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira