Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2013 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðstefna Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna og veitti verðlaun til ungs og efnilegs vísindamanns.

Ráðherra ásamt verðlaunahöfum
Ráðstefna Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði sextándu ráðstefnu Heilbrigðisvísindasviðs um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands á Háskólatorgi 4. janúar sl. og afhenti verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytisins til ungs og efnilegs vísindamanns.

Í ávarpi sínu fjallaði ráðherra m.a. um þá miklu grósku sem ætti sér stað á þessu rannsóknasviði í Háskóla Íslands. Hún minnti á að í nýsamþykktum fjárlögum fyrir árið 2013 væri fylgt eftir stefnu Vísinda – og tækniráðs um eflingu rannsóknasjóða og að framlög í Rannsóknasjóð, Tækniþróunarsjóð og Markáætlun á sviði vísinda og tækni hækki um 1,3 milljarða króna. Hér væri vissulega stigið mjög mikilvægt skref sem muni án efa auka þekkingu og verðmætasköpun í íslensku samfélagi. Hún minnti jafnframt á að íslenskir vísindamenn eru í alþjóðlegri samkeppni og að helstu sóknarfæri fyrir styrkfé væru á alþjóðlegum vettvangi.

Þá veitti Katrín Jakobsdóttir verðlaun mennta- og menningarmálaráðuneytis til ungs og efnilegs vísindamanns á sviði líf- og heilbrigðisvísinda.

Sérstök dómnefnd undir formennsku Sigurðar Guðmundssonar komst að þeirri niðurstöðu að rannsóknir Margrétar H. Ögmundsdóttur nýdoktors við lífefna- og sameindalíffræðistofu HÍ sköruðu fram úr.  Verkefnið hennar ber heitið „Þrívíddarbygging umritunarþáttarins MITF varpar ljósi tvenndarmyndun og DNA sértækni“.

Auk Margrétar voru þrjár ungar vísindakonur verðlaunaðar fyrir rannsóknarverkefni sín.

  • Birna Þórisdóttir, MSc í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild, hlaut verðlaun velferðarráðuneytisins til ungs og efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði forvarna eða heilsueflingar.
  • Bylgja Hilmarsdóttir, doktorsnemi við Rannsóknarstofu í stofnfrumufræðum við Lífvísindasetur HÍ, hlaut hvatningarverðlaun Jóhanns Axelssonar, sem veitt eru af Félagi íslenskra lífeðlisfræðinga, til ungs og efnilegs vísindamanns fyrir verkefni á sviði lífeðlisfræði eða skyldra greina.
  • Berglind Eva Benediktsdóttir, doktor við Lyfjafræðideild, hlaut verðlaun úr Þorkelssjóði til ungs námsmanns fyrir verkefni á sviði lyfja- og eiturefnafræði.
Ráðherra ásamt verðlaunahöfum
Ráðherra afhendir Margréti H. Ögmundsdóttur verðlaun


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum