Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2011 Utanríkisráðuneytið

Rýnifundi um fjárhags- og framlagamál lokið

Rýnifundi um 33. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, fjárhags- og framlagamál, lauk í Brussel í gær. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Maríanna Jónasdóttir, formaður samningahópsins.

Kafli 33 fjallar um fjárlög ESB og þau fjárframlög sem einstök aðildarríki þurfa að reiða af hendi til sambandsins til að standa straum af útgjöldum þess. Flestum þeim gerðum sem hér falla undir er ætlað að tryggja að fyrir hendi sé stjórnsýsla og regluverk þannig að útreikningar og reikningsskil sem fjárframlög til ESB byggja á séu réttir og að samræmi sé á milli aðildarríkjanna.

Fjárframlög aðildarríkjanna eða eigin tekjur sambandsins eru þríþættar. Í fyrsta lagi er um að ræða tolla og aðflutningsgjöld af innflutningi frá ríkjum utan ESB. Í öðru lagi fær ESB fjárframlag sem reiknast sem tiltekið hlutfall af virðisaukaskattsstofni aðildarríkis. Í þriðja lagi er fjárframlag sem reiknast sem tiltekið hlutfall af vergum þjóðartekjum hvers aðildarríkis.

Ýmsum vandkvæðum er bundið að meta raunkostnað við aðild að ESB, enda verður niðurstaða varðandi marga þætti á tekjuhlið ekki ljós fyrr en að loknum samningum.

Greinargerð um 33. kafla, fjárhags- og framlagamál má finna hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira