Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2013 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra heimsótti Rauða krossinn

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra heimsótti höfuðstöðvar Rauða krossins í Reykjavík í gær og kynnti sér starfsemina. Kastljósinu var beint að verkefnum Rauða krossins innan lands og utan og samstarfsverkefnum innanríkisráðuneytisins og Rauða krossins.
Hermann Ottósson framkvæmdastjóri Rauða krossins, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi.
Hermann Ottósson framkvæmdastjóri Rauða krossins, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi.
Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða krossins, Hermann Ottósson framkvæmdastjóri, Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri hjálparstarfs, Guðný Björnsdóttir, sviðsstjóri félagssviðs og Sólveig Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi kynntu hina umfangsmiklu starfsemi félagsins fyrir ráðherra og fulltrúum ráðuneytisins.
 
Innanríkisráðherra færði starfsmönnum Rauða krossins þakkir fyrir hið mikilvæga starf félagsins sem hún sagði njóta mikils trausts. „Við gerum aldrei nóg af því að þakka það sem vel er gert og hið mikla og góða starf Rauða krossins verður seint fullþakkað,“ sagði hún og vísaði einnig sérstaklega til starfs Rauða krossins við erfiðar aðstæður á vettvangi hörmulegra slysa hér á landi á síðustu dögum.
 
Á fundinum voru rædd þau samstarfsverkefni sem Rauði krossinn tekur þátt í með innanríkisráðuneytinu, s.s. aðkoma að málefnum hælisleitenda en Rauði krossinn á Íslandi vinnur að þeim málum í samvinnu við stjórnvöld. Hlutverk Rauða krossins er að gæta þess að hælisleitendur fái réttláta málsmeðferð, mannúðlega meðferð og að aðbúnaður sé fullnægjandi meðan á hælismeðferð stendur. Innanríkisráðherra kynnti það starf sem er í gangi í ráðuneytinu í þessum málaflokki þar sem meginmarkmiðið er að stytta málsmeðferðartíma hælisumsókna með mannúð að leiðarljósi. Sérstaklega yrði óskað eftir aðkomu Rauða krossins að þessu verkefni.
Heimsókn í höfuðstöðvar Rauða krossins á Íslandi.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Rauði krossinn heimsóttur; f.v. Gísli Freyr Valdórsson aðstoðarmaður ráðherra, Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri, Hermann Ottósson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða krossins, Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri hjálparstarfssviðs, Sólveig Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi og Guðný Björnsdóttir, sviðsstjóri félagssviðs Rauða krossins.
 
Rauði krossinn á Íslandi starfar í 44 deildum með um 3500 sjálfboðaliðum. Stærsta verkefni Rauða krossins á landsvísu er neyðarvarnir en um 750 sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land eru til taks ef hamfarir eða önnur áföll dynja yfir. Þessir sjálfboðaliðar hafa verið þjálfaðir í að setja upp fjöldahjálparstöðvar og veita sálrænan stuðning og skyndihjálp þegar mikið liggur við. 
 
Rauði krossinn á Íslandi, sem fagnar 90 ára afmæli á næsta ári, er félag sjálfboðaliða sem stendur vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga og vinnur að verkefnum sem snúa að félagslegu öryggi og neyðarvörnum vegna áfalla og hamfara.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum