Hoppa yfir valmynd
11. júní 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 66/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. júní 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 66/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15020024


Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála þann 20. febrúar 2015, kærði […], fd. […], ríkisborgari […], ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. febrúar 2015, að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

 Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt heimild til dvalar á Íslandi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga vegna sérstakra tengsla hans við Ísland.

 Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

  

II.         Málsatvik og málsmeðferð

 Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik með þeim hætti að kærandi sótti fyrst um dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar, sbr. 12. gr. útlendingalaga þann 3. október 2013.  Þeirri umsókn var umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. október 2014. Í þeirri sömu ákvörðun var kæranda jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. útlendingalaga. Kærandi sótti þann 14. nóvember 2014 um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga. Var þeirri umsókn synjað af Útlendingastofnun þann 9. febrúar 2015.

 Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála með tölvupósti, dags. 20. febrúar 2015, og barst kærunefndinni greinargerð kæranda þann 13. mars 2015. Kærunefndin óskaði eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærumálsins þann 24. febrúar. Stofnunin hafði engar athugasemdir fram að færa vegna málsins.

 Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

 III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda byggir á því að tengsl kæranda við landið séu ekki með þeim hætti að það réttlæti útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Kærandi hafi ekki haft dvalarleyfi hér á landi áður og hann hafi eingöngu dvalist hér í skemmri tíma á grundvelli vegabréfsáritunar. Ekki séu uppi umönnunarsjónarmið í máli kæranda og hann sé yngri en 67 ára. Þá byggir stofnunin á því að eiginkonu kæranda hafi nýverið verið synjað um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Kærandi kveður tilgang dvalar sinnar hér á landi vera þann að aðstoða dóttur sína við umönnun barna hennar. Dóttir kæranda hafi nýverið […]. […] og hann hafi því ákveðið að flytjast hingað til lands til að geta aðstoðað hana og eytt meiri tíma með barnabörnum sínum og eiginkonu sem dvalist hefur hér á landi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. útlendingalaga í rúmlega tvö ár. Dóttir kæranda sé í fullri vinnu og henni gæti reynst erfitt fjárhagslega að fá pössun fyrir börnin. […]verði kæranda og eiginkonu. Kærandi sé […]og ferðalög um langa vegu gætu reynst honum erfið auk þess sem þau eru kostnaðarsöm. Þá hefur kærandi einnig átt við heilsufarsvanda að stríða […]. Það er einlæg ósk þeirra hjóna að fá að dveljast hér á landi með dóttur sinni og þremur barnabörnum sem öll eru íslenskir ríkisborgarar. Tengsl þeirra hjóna við […] séu ekki mikil þar sem tvö af þremur börnum þeirra búi utan landsins.

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

 Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga og 12. gr. f sömu laga.

 Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr., laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt.

 Í 12. gr. f útlendingalaga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr. sömu laga, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Í þessu máli ber því að líta til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði greinarinnar um sérstök tengsl við landið. Í ákvæðinu sjálfu eru ekki veittar neinar leiðbeiningar um hvað teljist vera sérstök tengsl við landið en ákvæðið felur í sér að stjórnvöldum er falið að meta í einstökum tilvikum hvort tengsl útlendings séu svo sérstök í því tilviki að þau réttlæti veitingu dvalarleyfis á þessum grundvelli. Við mat á sérstökum tengslum hefur verið litið til þess hvort útlendingur hafi búið eða unnið hér og þá hve lengi, eða hvort hann eigi hér ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu nánasti aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Fær það stoð í greinargerð með ákvæði 2. mgr. 11. gr. útlendingalaga sem nú er að finna í 12. gr. f útlendingalaga, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008.

 Fjölskylduaðstæðum kæranda er svo háttað að dóttir hans og […] barnabörn búa öll hér og hafa […]. Kærandi hefur aðstoðað dóttur sína við að annast börn hennar. Þá fékk eiginkona kæranda útgefið dvalarleyfi á grundvelli […]. Í umsókn kæranda um dvalarleyfi kemur fram að ástæða dvalar sé að vera dóttur sinni til aðstoðar við heimilishald og umönnun barnanna. Dóttir kæranda hafi nýverið […]. Í greinargerð er því haldið fram að kærandi sé í mestum tengslum við dóttur sína á Íslandi og að tengsl hennar við önnur börn sín séu ekki mikil þar sem þau búi og starfi utan heimalands þeirra […]. Fjölskylduhagir dóttur kæranda séu með þeim hætti að hana munar mikið um þá aðstoð sem foreldrar hennar geta veitt henni.

 Við mat á því hvort kærandi hafi sérstök tengsl við Ísland í því tilviki sem hér um ræðir lítur kærunefndin til þess að eiginkona kæranda hefur fengið útgefið dvalarleyfi hér á landi, auk þess sem kærandi á hér náin skyldmenni sem eru íslenskir ríkisborgarar. Telur kærunefndin einnig mikilvægt að líta til hagsmuna barnanna þannig að þau verði ekki fyrir röskun umfram það sem nauðsynlegt er en þau eru ung að aldri og hafa notið samvista við móðurforeldra sína í hátt á þriðja ár.

 Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið og með vísan til gagna málsins þá er það álit kærunefndar útlendingamála að kærandi uppfylli lagaskilyrði dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Þykir því rétt að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar frá 9. febrúar 2015 og veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

 

  ÚRSKURÐARORÐ

 Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. febrúar 2015, í máli […], fd. […], ríkisborgari […], um synjun á útgáfu dvalarleyfis er felld úr gildi og lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla við landið sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

  The decision of the Directorate of Immigration, of 9 February 2015, in the case of […], DOB […], citizen of […], regarding the denial of residence permit is vacated and the Directorate of immigration instructed to grant the applicant residence permit in accordance with article 12. f of the Act on Foreigners, No. 96/2002.

 

  Hjörtur Bragi Sverrisson

   

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                          Oddný Mjöll Arnardóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum