Hoppa yfir valmynd
14. september 2017 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Brugðist við athugasemdum varðandi lög um farþega- og farmflutninga á landi

Eftir gildistöku nýrra laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi 1. júní sl. hafa komið fram ábendingar frá Samgöngustofu og lögreglu um að kveða þyrfti skýrar á um tiltekin atriði í lögunum. Tilgangur þessa frumvarps er að bregðast við þeim athugasemdum.

Lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, kveða á um slíka flutninga á landi í atvinnuskyni. Rekstur bifreiða í þessum tilgangi er leyfisskyldur samkvæmt lögunum. Í 9. gr. laganna segir m.a. að Samgöngustofa veiti leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða og í 10. gr. segir að Samgöngustofu sé heimilt að veita sérstakt leyfi til farþegaflutninga í ferðaþjónustu. Skýrt er af greinargerð með lögunum og 4. og 5. tölul. 30. gr. um sektir að tilgangur þessara ákvæða var að leggja leyfisskyldu á þá sem stunda farþegaflutninga af því tagi sem ákvæðin taka til.

Hins vegar hefur sýnt sig við eftirlit lögreglu að orðalag þessara greina getur valdið misskilningi um hvort aðilum sem hyggjast stunda farþegaflutninga í skilningi ofangreindra ákvæða sé skylt að hafa undir höndum leyfi skv. 9. og 10. gr. laganna þar sem ákvæðið má skilja sem heimildarákvæði fyrir Samgöngustofu án þess að í því felist einhverjar kvaðir á rekstraraðila. Svo sem áður sagði er í 4. og 5. tölul. 30. gr. mælt fyrir um viðurlög við brotum á ákvæðum 9. og 10. gr. laganna um leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða og um ferðaþjónustuleyfi. Því þykir rétt í ljósi meginreglunnar um skýrleika refsiheimilda að taka af allan vafa um það hvaða leyfi mönnum er skylt að hafa hyggist þeir stunda farþegaflutninga með sérútbúnum bifreiðum fyrir færri en níu farþega eða farþegaflutninga í ferðaþjónustu með bifreiðum sem rúma færri en níu farþega.

Leyfin gjaldskyld

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna ber að greiða gjald fyrir leyfi og önnur vottorð og umsýslu og er í ákvæðinu að finna upptalningu á þeim leyfum sem greiða ber gjöld fyrir. Ákvæði 10. gr. um ferðaþjónustuleyfi er nýmæli. Ákvæðinu var bætt inn í frumvarp til laganna með breytingartillögu við meðferð frumvarpsins á síðasta þingi. Svo virðist vera sem láðst hafi að kveða á um í 1. mgr. 13. gr. að greiða beri gjald til Samgöngustofu fyrir ferðaþjónustuleyfi samkvæmt 10. gr. Ljóst er að til stóð að gera öll leyfi samkvæmt lögunum gjaldskyld og ætlunin var ekki að undanskilja ferðaþjónustuleyfi, enda hefur verið tekið gjald fyrir útgáfu ferðaþjónustuleyfis frá gildistöku laganna á grundvelli 6. tölul. sem heimilar gjaldtöku fyrir „annars konar vottorð og umsýslu.“ Engu að síður þykir rétt að auka skýrleika gjaldtökuheimildarinnar með því að kveða skýrt á um gjaldskylduna í ákvæðinu.
Ákvæði frumvarpsins og umfang þeirra breytinga sem lagðar eru til þóttu ekki þess eðlis að þau kölluðu á opið samráð á vef ráðuneytisins. Frumvarpið verður lagt fram í ríkisstjórn á morgun, 15. september. Frumvarpið hefur engin áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira