Hoppa yfir valmynd
10. júlí 2020

Úrskurður nr. 87/2019 um kostnaðarhlutdeild fatlaðs einstaklings í fæðiskostnaði starfsmanns sveitarfélags

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar vekur athygli á nýlegum úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 87/2019 þar sem ákvörðun Akraneskaupstaðar var felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

Í málinu var kærð ákvörðun Akraneskaupstaðar um synjun á beiðni um að hækka viðmið endurgreiðslu vegna fæðiskostnaðar til kæranda. Byggði kærandi á því í málinu að sveitarfélaginu hafi ekki verið heimilt að krefjast kostnaðarhlutdeildar hans í fæðiskostnaði starfsmanna sveitarfélagsins og miða endurgreiðslur við fæðispeninga samkvæmt kjarasamningi.

Í niðurstöðukafla úrskurðarins segir m.a.:

Í ákvæðinu [8. gr. laga nr. 38/2018] er ekki kveðið á um að fatlaður einstaklingur skuli bera kostnað af þeirri stoðþjónustu sem sveitarfélag veitir.

Í 5. gr. laga nr. 38/2018 er kveðið á um að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, hvort sem hún er veitt af hálfu starfsmanna sveitarfélags eða af einkaaðilum samkvæmt samningi þar um, sbr. 7. gr., sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögunum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Lögmætisreglan er meginregla á sviði stjórnsýsluréttar og sækir stoð sína í 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Samkvæmt henni verða ákvarðanir stjórnvalda annars vegar að eiga sér stoð í lögum og hins vegar mega ákvarðanir stjórnvalda ekki fara í bága við lög. Með vísan til þess og framangreindra ákvæða laga nr. 38/2018 verður ekki séð að lagaheimild sé fyrir greiðsluþátttöku kæranda í fæðiskostnaði starfsmanna sveitarfélagsins, sé sá kostnaður hluti af stoðþjónustu sveitarfélagsins við kæranda í skilningi 8. gr. laganna. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar hefur vakið athygli allra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytisins á úrskurðinum og hvatt sveitarfélög til þess að breyta verklagi í samræmi við niðurstöðu úrskurðarins eftir því sem við á.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum