Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 55/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 8. febrúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 55/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17100062

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. október 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. og 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á grundvelli 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun gert að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 14. september 2016. Þann 9. mars 2017 ákvað Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar í ljósi þess að ítölsk stjórnvöld höfnuðu ábyrgð á máli hans á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (Dyflinnarreglugerðin). Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 14. september 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 18. október 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sérstakra tengsla við Ísland. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 24. október 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 7. nóvember 2017. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd þann 11. janúar 2018. Viðbótargagn barst kærunefnd þann 18. janúar 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann væri í hættu í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana ásamt því að vera í hættu vegna deilna við ættingja vegna lands.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi verið búsettur í bænum [...] í Imo fylki í Nígeríu áður en hann hafi flúið landið. Kærandi hafi verið stuðningsmaður stjórnmálaflokksins [...] og hafi verið virkur í starfi flokksins um árabil fram að flótta sínum frá landinu. Kærandi hafi starfað við kosningabaráttu flokksins og hafi verið vel þekktur meðal andstæðinga flokksins. Kærandi kveðst hafa byrjað að fá hótanir vegna stjórnmálaþátttöku sinnar árið 2009. Hann hafi orðið fyrir alvarlegri líkamsárás sem hann beri enn merki eftir og hafi verið í lífshættu í heimaríki. Þá hafi verið kveikt í heimili kæranda og allar eigur hans hafi eyðilagst í brunanum. Lögreglan hafi handtekið einn gerendanna en honum hafi verið sleppt. Þá hafi kærandi tekið þátt í mótmælum til að mótmæla framgangi andstæðinga PDP þar sem mótmælendurnir hafi verið barðir og fjöldi þeirra handteknir. Kærandi telur sig ekki getað snúið aftur til heimaríkis vegna þessa auk þess sem hann kveðst ekki njóta lögregluverndar þar í landi nema gegn greiðslu hárra fjárhæða. Þá kveður kærandi sér stafa ógn af bræðrum föður síns og afkomendum þeirra. Í kjölfar deilu um erfðarétt landareignar í [...] hafi faðir hans verið myrtur af bræðrum sínum. Þá hafi móðir hans orðið fyrir misþyrmingum vegna deilnanna. Samkvæmt hefðum í heimaríki hafi kæranda borið að vera í forsvari fyrir sína fjölskyldu eftir andlát föður síns og upp frá því hafi honum borist hótanir frá þessum aðilum. Kærandi og faðir hans hafi margsinnis leitað til lögreglu vegna hótananna en án árangurs. Kærandi kveðst jafnframt óttast trúarleg samtök sem fari eftir svonefndum [...] hefðum en meðlimir þeirra gangi hart fram við að fá fólk til liðs við samtökin. Karlmenn sem samtökin vilji fá til liðs við sig séu látnir ganga í gegnum manndómsvígslu sem í sumum tilvikum endi með því að mennirnir séu brottnumdir eða myrtir. Kærandi kveðst vera berskjaldaður gagnvart samtökunum þar sem hann sé einstæðingur, hafi misst föður sinn og njóti þar af leiðandi ekki verndar.

Enn fremur er í greinargerð fjallað um almennt um ástand mannréttindamála í heimaríki kæranda. Samkvæmt alþjóðlegum skýrslum séu helstu mannréttindabrot sem framin séu í heimaríki kæranda. m.a. að lögregla kúgi fé út úr borgurunum, refsileysi vegna misbeitingar valds og brota í opinberu starfi sé algengt á öllum stigum stjórnsýslu og bæði lögregla og öryggissveitir starfi að jafnaði í skjóli refsileysis. Gróf spilling á öllum stigum stjórnsýslunnar sé einnig alvarlegt vandamál. Þá hefji stjórnvöld almennt ekki rannsókn á málum er varði spillingu lögreglunnar og gerendum sé sjaldan refsað. Stjórnvöld og tengdir aðilar fremji handahófskennd manndráp sem ekki séu rannsökuð og gerendur séu ekki látnir sæta ábyrgð. Jafnframt sé pyndingum og illri meðferð iðulega beitt gagnvart sakborningum við rannsókn sakamála í því skyni að þvinga fram játningu. Fram komi í heimildum breska innanríkisráðuneytisins frá ágúst 2016 að pyndingar hafi ekki verið gerðar refsiverðar samkvæmt lögum landsins. Þá hafi frjáls félagasamtök í heimaríki kæranda og alþjóðleg mannréttindasamtök sakað yfirvöld í heimaríki kæranda um frelsissviptingar og ómannúðlega meðferð á föngum.

Í greinargerð kæranda greinir kærandi frá forseta- og þingkosningum í heimaríki hans árið 2015. Í kosningunum hafi forsetaefni stjórnmálaflokksins APC komist til valda, en fram að því hafi Goodluck Jonathan verið forseti landsins fyrir PDP flokkinn. Vísar kærandi til skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2015, þar sem hafi verið greint frá því að tjáningarfrelsi hafi verið skert í aðdraganda kosninganna. Fjölmiðlamenn hafi orðið fyrir ofbeldi og verið myrtir hafi þeir fjallað um viðburði og átök á milli PDP og APC. Enginn hafi verið handtekinn vegna þessa. Þá hafi stjórnmálaleiðtogar áhrif á dómskerfi landsins, sérstaklega á vettvangi fylkja og sveitastjórna. Öryggissveitir handtaki og áreiti stundum fjölmiðlamenn fyrir að fjalla um viðkvæm mál á borð við spillingu stjórnmálamanna. Þá skerði yfirvöld fundafrelsi borgaranna með því að banna samkomur. Allt frá valdatöku ACP árið 2015 hafi meðlimir PDP kvartað undan því að meðlimir flokksins séu ofsóttir af hinum nýju valdhöfum og að leiðtogar flokksins hafi verið handteknir í pólitískum tilgangi.

Samkvæmt framangreindu sé kærandi flóttamaður skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og beri að veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi.

Til stuðnings varakröfu sinni vísar kærandi til þess að honum stafi ógn af hópi fólks sem tengist honum fjölskylduböndum og hafi hótað honum lífláti vegna erfðadeilu. Fólkið hafi myrt föður hans og misþyrmt móður hans. Þá hafi stjórnvöld í heimaríki hvorki vilja né getu til að veita honum vernd. Af framangreindu sé ljóst að aðstæður kæranda uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því geri kærandi þá kröfu að honum verði veitt viðbótarvernd.

Varðandi þrautavarakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er í greinargerð vísað til athugasemda með frumvarpi með sömu lögum. Með hliðsjón af framangreindri umfjöllun um aðstæður kæranda í heimaríki telur kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Til stuðnings þrautaþrautavarakröfu um að Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til meðferðar að nýju vísar kærandi til þess að stofnunin hafi að engu lagt til grundvallar stjórnmálaskoðanir kæranda sem ástæðu fyrir flótta frá heimaríki. Kærandi telur það fela í sér annmarka á ákvörðun Útlendingastofnunar og beri því að ógilda hina kærðu ákvörðun og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

Að lokum kemur fram í greinargerð kæranda að við mat á því hvort einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta upprunalands þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum viðkomandi og þeim aðstæðum sem séu í landinu. Kærandi ítrekar að hann eigi engar eignir í Nígeríu og eigi þar ekkert fjölskyldunet eða annað bakland. Kærandi kveður ekki mögulegt fyrir sig að flytjast um set innanlands enda geti það hvorki talist viðeigandi né sanngjörn krafa á hendur honum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað nígerísku vegabréfi. Útlendingastofnun lét kanna áreiðanleika ferðaskilríki kæranda hjá vegabréfarannsóknarstofu flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum og var niðurstaðan sú að enga fölsun væri að sjá. Á grundvelli þessa telur kærunefndin ljóst að kærandi sé nígerískur ríkisborgari.

 

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Nigeria 2016 Human Rights Report (U.S. Department of State, 3. mars 2017);
  • The World Factbook – Nigeria (Central Intelligence Agency, 5. desember 2017);
  • EASO Country of Origin Information Report: Nigeria Country Focus (European Asylum Support Office, júní 2017);
  • Amnesty International Report 2016/17 – Nigeria (Amnesty International, 21. febrúar 2017);
  • Freedom in the World 2017-Nigeria (UNHCR, 2017);
  • 2015 Country Reports on Human Rights Practices - Nigeria (U.S. Department of State, 13. apríl 2016);
  • 2016 Country Reports on Human Rights Practices - Nigeria (U.S. Department of State, 3. mars 2017);
  • Country Information and Guidance Nigeria: Nigeria: Fear of Boko Haram (UK Home Office, júní 2015);
  • Country Information and guidance Nigeria: Backround information, including actors of protection and internal relocation (UK Home Office, 17. ágúst 2016);
  • Nigeria 2015 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 2016);
  • Social protection in Nigeria: an overview of programmes and their effectiveness (Overseas Development Institute, september 2011);
  • Country Reports on Terrorism 2016 - Foreign Terrorist Organizations: Boko Haram (BH) (U.S. Department of State, 17. júlí 2017);
  • Country Reports on Terrorism 2016 – Nigeria ((U.S. Department of State, 19. júlí 2017);
  • Boko Haram on the Back Foot? (International Crisis Group (ICG), 4. maí 2016);
  • „Nigeria 2015 presidential election: Significance and challenges ahead“ (https://www.brookings.edu/blog/africa-in-focus/2015/03/31/nigeria-2015-presidential-election-significance-and-challenges-ahead/, sótt 4. desember 2017);
  • „Voting extended as Nigeria election marred by violence“ (http://www.aljazeera.com/news/2015/03/millions-nigerians-vote-crunch-poll-150328122844145.html, sótt 1. desember 2017);
  • [...]
  • [...]
  • Nigeria Situation: UNHCR Situational Update, 01 – 30 October 2017 (UNHCR, 31. október 2017).

Samkvæmt framangreindum gögnum er Nígería sambandslýðveldi með rúmlega 190 milljónir íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1985, en ríkið hefur hins vegar einungis undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Nígería fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi árið 2001 og sama ár var viðbótarbókun Sameinuðu þjóðanna um að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna fullgilt.

Ríkið samanstendur af 36 fylkjum og einu alríkissvæði. Í framangreindum gögnum kemur m.a. fram að íbúar landsins tilheyri meira en 250 mismunandi þjóðarbrotum, en þau fjölmennustu séu Hausa og Fulani (29%), Yoruba (21%) og Igbo (18%). Ríkjandi trúarbrögð séu íslam (50%), kristni (40%) og frumbyggjatrúarbrögð (10%). Trúfrelsi sé tryggt í stjórnarskrá landsins og það sé almennt virt, þótt dæmi séu um að kristnir og múslimar verði fyrir mismunun og ofbeldi á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta. Flestir íbúar svæða í norðurhluta Nígeríu séu múslimar og í suðurhluta landsins séu kristnir í meirihluta.

Í fyrrgreindum gögnum er ekkert sem bendir til þess að ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana tíðkist í Nígeríu. Af gögnunum má eigi að síður ráða að spilling sé mikið vandamál í Nígeríu, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Pyndingar, handahófskennd manndráp og frelsissviptingar eigi sér stað í landinu, bæði af hálfu hryðjuverkasamtakana Boko Haram og öryggissveita stjórnvalda. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu. Eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum og merki séu um að stjórnvöld hafi tekið harðar á brotum lögreglu og spillingu innan hennar, m.a. með því að koma á fót sérstakri deild sem taki við kvörtunum vegna misferlis lögreglu í starfi. Þá kemur fram að ýmsar takmarkanir séu á öðrum grundvallarmannréttindum borgaranna s.s. tjáningarfrelsinu, aðgangi að réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum og ofbeldi gegn konum og börnum sé útbreitt. Erfiðlega geti gengið fyrir einstakling að fá aðstoð lögreglu þar sem skortur á fjármagni hafi skert viðbragðshæfni lögreglu. Þó sé lögreglan viljug til að aðstoða þá sem til hennar leiti eftir getu. Í gögnum kemur m.a. fram að telji einstaklingur sig verða fyrir ofsóknum af hálfu annarra en stjórnvalda í Nígeríu eða aðila á þeirra vegum sé virk vernd yfirleitt fáanleg þrátt fyrir veikleika í kerfinu. Þó verði að meta sérstaklega aðstæður í hverju tilviki og persónulegar aðstæður einstaklingsins.

Þá kemur fram að árið 2015 hafi verið forsetakosningar í Nígeríu og hafi fyrrum hershöfðinginn Muhammadu Buhari betur gegn sitjandi forseta Goodluck Jonathan sem hafði verið við völd frá árinu 2010. Hafi þetta verið í fyrsta sinn í sögu Nígeríu sem sitjandi forseti hafi ekki hlotið endurkjör og hafi þessi valdaskipti verið talin sigur fyrir nígerískt lýðræði. Samkvæmt gögnum fóru valdaskiptin að mestu friðsamlega fram þrátt fyrir árásir Boko Haram í norðausturhluta landsins. Í kjölfar kosninganna hafi stjórnmálaflokkurinn All Progressives Congress (APC) tekið við stjórnartaumum af Peoples Democratic Party (PDP). Úrslitum kosninganna hafi verið fagnað þar sem Buhari sé talinn líklegri til þess að stöðva framgang Boko Haram en fyrirrennari hans.

Framangreind gögn kveða þá á um að meirihluti íbúa landsins búi við fátækt. Misskipting auðs sé mikil og fjárhagur íbúanna mismunandi eftir landshlutum og trúarbrögðum. Mikil óánægja tengd efnahag landsins ríki í landinu. Enn stafi þá ógn af Boko Haram í norðausturhluta Nígeríu, en samtökin beri ábyrgð á alvarlegustu mannréttindabrotunum sem framin hafi verið í Nígeríu á síðustu árum og átökin við samtökin hafi leitt til þess að 1,8 milljónir einstaklinga séu á flótta innanlands. Starfsemi samtakanna sé að mestu leyti staðbundin við norðausturhluta landsins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi kveðst óttast ofsóknir af hálfu pólitískra andstæðinga ásamt því að vera í hættu vegna deilna við ættingja vegna lands.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi kveðst óttast ofsóknir af hálfu pólitískra andstæðinga í flokki APC sem herji á meðlimi stjórnmálaflokksins PDP í heimaríki. Hefur kærandi einnig greint frá hótunum sem hann og fjölskyldumeðlimir hafi orðið fyrir vegna erfðadeilu um landareign. Kærandi telur sig ekki geta snúið aftur til heimaríkis vegna þessa og kveðst ekki njóta lögregluverndar þar í landi. Þá kveðst kærandi óttast samtökin [...] í heimaríki.

Kærunefnd telur að í frásögn kæranda af atvikum og atburðum í heimalandi hans gæti misræmis. Framburður kæranda hefur verið óstöðugur um ástæður flótta hans frá heimaríki og þá er tímalína atburða að nokkru leyti á reiki. Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali við kæranda hjá kærunefnd, afritum af tveimur viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Nokkurt ósamræmi er á milli lýsinga kæranda á tilteknum en mikilvægum atriðum í upphaflegu viðtali við Útlendingastofnun og því sem hann hefur haldið fram síðar. Kærandi sagði í viðtali hjá Útlendingastofnun í september 2017 að meðlimir stjórnmálaflokksins APC hefðu ráðist að sér vegna aðildar hans að PDP áður en hann flúði frá heimaríki árið 2009. Í viðtali hjá kærunefnd sagði kærandi á hinn bóginn að meðlimir PDP hefðu ráðist að sér. Nánar tiltekið hafi meðlimir PDP yfirgefið þann flokk til að ganga í flokk sem hét APC og þar af leiðandi ráðist á kæranda. Af gögnum má þó ráða að APC var ekki til á þeim tíma. Eftir að hafa ráðfært sig við talsmann sinn nefndi kærandi einnig aðra flokka sem hann taldi að þessir einstaklingar hafi einnig gengið í. Að mati kærunefndar færði kærandi ekki fram trúverðugar skýringar á þessu misræmi þegar hann var beðinn um það í viðtali hjá nefndinni. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn til stuðnings frásögn sinni um ofsóknir pólitískra andstæðinga. Það er mat kærunefndar að það óútskýrða misræmi sem er á frásögn kæranda leiði til þess að frásögnin sé ótrúverðug og því verður ekki byggt á henni í þessu máli.

Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar höfðu forsetakosningarnar árið 2015 í för með sér að nýr forseti tók við völdum og hafi þetta verið í fyrsta sinn í sögu Nígeríu sem valdaskipti hafi farið fram með friðsamlegum hætti. Hafi stjórnmálaflokkurinn APC, sem stofnaður var árið 2013, tekið við af flokki PDP, sem kærandi kveðst tilheyra, en síðarnefndi flokkurinn hafði verið við völd frá árinu 1999. Ekkert í gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur skoðað sem bendir til þess að ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana tíðkist nú í Nígeríu. Þá er einnig litið til þess að níu ár eru liðin frá því að atburðir þeir sem kærandi kveður að hafi átt sér stað í heimaríki hans.

Í greinargerð kveðst kærandi óttast trúarleg samtök sem fari eftir svonefndum [...] hefðum. Í viðtali hjá kærunefnd greindi kærandi frá því að þessar hefðarreglur væru útbreiddar og hann sé í hættu vegna þeirra. Heimildir bera með sér að í [...] fylki sem kærandi kveðst koma frá fari fram tveggja daga menningarhátíð á þriggja ára fresti sem heiti [...]. Hátíðin sé einskonar manndómsvígsla þar sem ungir drengir séu teknir í fullorðinna manna tölu. Hátíðin sé vel sótt af íbúum og ferðamönnum og sé einskonar skemmtihátíð. Á grundvelli þessa, framburðar kæranda og annarra gagna málsins er það mat kærunefndar að kæranda stafi ekki hætta af þessum samtökum.

Sem fyrr segir hefur kærandi greint frá hótunum sem hann kveður sig og og fjölskyldumeðlimi sína hafi orðið fyrir þar í landi vegna erfðadeilu um landareign. Í áðurnefndu viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að faðir hans hefði látist vegna þess að eitrað hefði verið fyrir honum í tengslum við þessar deilur. Í viðtalinu greindi kærandi ítarlega frá því hvernig dauða föður hans bar að og hvernig hann hefði látist. Í greinargerð til kærunefndar kvað kærandi föður sinn hafa verið myrtan af bræðrum sínum. Í viðtali kæranda hjá kærunefnd greindi kærandi hins vegar frá því að faðir hans hefði látist þegar kærandi var ungur og hann myndi ekkert eftir honum.

Kærandi hefur ekki stutt frásögn sína um ástæður flótta með gögnum. Kærandi hefur til að mynda ekki lagt fram gögn sem styðja frásögn hans um hótanir og áreiti af hálfu þeirra einstaklinga sem hann kveðst óttast. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn um landareign þá sem hann kveður að deilt hafi verið um. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn um að hann hafi leitað til lögreglu í heimaríki en kærandi kveður að á þeim tíma sem honum hafi verið hótað hafi hann leitað til lögreglu, en ekki fengið viðeigandi aðstoð. Kærandi hefur enn fremur ekki lagt fram nein gögn sem renna stoðum undir fullyrðingu hans um andlát föður síns. Engin dánarvottorð hafa til dæmis verið lögð fram né lögregluskýrslur. Þó að almennt séu ekki gerðar ríkar kröfur til framlagningu gagna til stuðnings umsóknum um alþjóðlega vernd telur kærunefnd frásögn kæranda og aðstæður hans vera þess eðlis að eðlilegt sé að gera þær kröfur til hans að hann leggi fram einhver trúverðug gögn til stuðnings frásögninni svo að hægt sé að leggja hana til grundvallar. Þá telur kærunefnd að brottför kæranda hafi ekki borið það brátt að ósanngjarnt sé að gera þá kröfu að hann leggi fram slík gögn. 

Kærunefnd telur að óútskýrt misræmi í frásögn kæranda, almennur óstöðugleiki frásagnar hans og skortur á gögnum henni til stuðnings leiði til þess, heildstætt metið, að frásögn hans af atburðum og ástæðum flótta sé að mestu ótrúverðug og verði því ekki lögð til grundvallar í málinu.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi verið búsettur í bænum [...] í Imo fylki í Nígeríu áður en hann hafi flúið landið. Imo fylki er í suðurhluta landsins þar sem Igbo, er meginþjóðarbrotið og meirihluti fólks er kristinnar trúar, og er svæðið talið með þeim öruggustu í Nígeríu. Verði kærandi fyrir áreiti í heimaríki sínu sýni gögn að hann eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda. Þó að fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla sé að nokkru leyti ábótavant og spilling sé talsverð í landinu er það mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér og að teknu tilliti til aðstæðna kæranda í Nígeríu og ástands þar í landi, að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki kæranda geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd gegn þeirri hættu sem hann telji sig vera í m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Þá hefur kærandi ekki borið fyrir sig ofsóknir stjórnvalda og ekkert bendir til þess að hann eigi þær á hættu.

Með vísan til þess sem að framan hefur komið fram telur kærunefnd að kærandi hafi ekki á nægilega skýran hátt sýnt fram á að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi laga um útlendinga.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi er [...] árs gamall einstæður karlmaður. Hann kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun vera við góða heilsu fyrir utan það að líða stundum illa andlega. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Í 5. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, þar sem fjallað er um framkvæmd ákvörðunar, kemur fram að ef útlendingur hefur gilda heimild til dvalar í öðru EES-eða EFTA-ríki skal hann fluttur þangað. Þar sem fyrir liggur að kærandi hefur haft heimild til dvalar á Ítalíu telur kærunefnd rétt að taka sérstaka afstöðu til þess hvort ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir því að kærandi verði fluttur til Ítalíu.

Við mat á aðstæðum á Ítalíu hefur kærunefnd tekið mið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um Ítalíu og skoðaðar hafa verið vegna fyrri úrskurða kærunefndar í tengslum við endursendinga einstaklinga til Ítalíu. Þá hefur kærunefnd litið til dóms Hæstaréttar frá 1. október 2015 í máli nr. 114/2015 þar sem fjallað var um málsmeðferð og skilyrði til móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu og til fordæma Mannréttindadómstóls Evrópu sem hefur ítrekað í dómum sínum og ákvörðunum, sbr. t.d. í dómi í máli A.S. gegn Sviss (nr. 39350/13) frá 30. júní 2015 og í ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, að ekki sé hægt að túlka 3. gr. mannréttindasáttmálans á þá vegu að krafa sé á aðildarríkjunum að sjá öllum einstaklingum innan lögsögu þeirra fyrir heimili.

Kærandi kveðst hafa komið til Ítalíu árið 2013. Hann hafi stundað þar nám en síðan átt erfitt með að fá vinnu þrátt fyrir að læra ítölsku. Hann hafi síðan fengið starf í stórmarkaði en síðan verið sakaður um [...] og setið í varðhaldi í nokkra mánuði. Málið hafi síðan verið látið niður falla. Kærandi kveðst ekki hafa fengið neina aðstoð frá yfirvöldum á Ítalíu og hafi þurft að vinna fyrir sér með svartri vinnu. Þá hafi hann upplifað kynþáttafordóma á Ítalíu. Kærunefndin dregur þennan þátt frásagnar kæranda ekki í efa. Hins vegar sé ljóst að kærandi sé með gilt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á Ítalíu, með gildistíma til 25. apríl 2018. Þegar aðstæður kæranda séu metnar í heild er það mat kærunefndar að gögn málsins gefi ekki ástæðu til að líta svo á að aðstæður kæranda séu slíkar að hann teljist vera í svo sérstaklega viðkvæmri stöðu að það standi í vegi endursendingar hans til Ítalíu.

Að mati kærunefndar eru aðstæður hans þar í landi ekki þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda til Ítalíu brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Brottvísun og endurkomubann

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, undir fyrirsögninni „frávísun og brottvísun“, kemur fram að kæranda sé vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr., sbr. 3. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna.

Í framhaldi af þessari niðurstöðu stofnunarinnar er í ákvörðuninni vísað til 6. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 þar sem komi fram að samhliða veitingu frests til sjálfviljugrar heimfarar skuli tekin afstaða til þess í ákvörðun hvort skilyrði til brottvísunar skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt yfirgefi umsækjandi ekki landið eða óski aðstoðar við sjálfviljuga heimför innan veitts frests. Þá er í ákvörðuninni fjallað með almennum hætti um skilyrði brottvísunar skv. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er gerð grein fyrir andmælum kæranda varðandi mat á því hvort brottvísun fæli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða öðrum aðstandendum hans og lýst því mati Útlendingastofnunar að ekki sé um að ræða ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga verði kæranda ákveðin brottvísun og endurkomubann.

Niðurstaðan í rökstuðningi Útlendingastofnunar varðandi þennan þátt málsins er að kæranda skuli gefinn 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Þá segir: „Fari hann ekki innan þess tíma skal honum vísað úr landi og skal hann sæta endurkomubanni í tvö ár. Lögreglu er því heimilt að færa umsækjanda úr landi, sbr. 5. mgr. 104. gr. útlendingalaga, að 15 dögum liðnum“.

Samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttar þurfa ákvarðanir stjórnvalda að byggja á viðhlítandi lagagrundvelli. Þegar lög mæla fyrir um skilyrði fyrir því að stjórnvald geti tekið ákvörðun verður sú ákvörðun ekki tekin nema fyrir liggi atvik sem leggja grundvöll að ályktun stjórnvalds um að skilyrðin séu fyrir hendi.

Ákvörðun um brottvísun samkvæmt 98. gr. laga um útlendinga verður ekki tekin nema fyrir liggi atvik sem verða heimfærð undir einhver af skilyrðum ákvæðisins. Kærunefnd hefur í úrskurði sínum frá 21. desember 2017 í máli nr. KNU17100067 komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 6. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 eigi sér ekki viðhlítandi stoð í lögum til að heimila ákvörðun um brottvísun áður en skilyrði 98. gr. séu uppfyllt og því geti ákvæðið ekki verið grundvöllur þeirrar framkvæmdar sem var viðhöfð í máli kæranda.

Eins og að framan greinir er í rökstuðningi í máli kæranda vísað til a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga en atvik í máli hans eru ekki heimfærð undir ákvæðið. Fyrir liggur að þegar ákvörðunin var tekin hafði kæranda verið veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar verður ekki litið svo á að skilyrði a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, um að hann sé án dvalarleyfis og hafi ekki yfirgefið landið innan veitts frests, séu uppfyllt á meðan hann hefur enn slíkan frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Liggur því fyrir að skilyrði brottvísunar voru ekki fyrir hendi í máli kæranda og verður sá þáttur ákvörðunar Útlendingastofnunar því felldur úr gildi.

Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til að kanna hvort brottvísun kæranda og endurkomubann kunni að vera í ósamræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið.

Kærandi kom hingað til lands og sótti um alþjóðlega vernd þann 14. september 2016. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Í samræmi við 1. og 2. málsl. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga er lagt fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kærandi hefur 15 daga frá birtingu úrskurðar þessa til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

Kæranda er leiðbeint um að samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga annast lögregla og Útlendingastofnun framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun. Í 5. málsl. 7. mgr. 104. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur skuli tilkynna Útlendingastofnun um fyrirhugaða brottför sína og leggja fram sönnun þess að hann hafi yfirgefið landið. Þar segir jafnframt að ef útlendingurinn fer ekki úr landi svo sem fyrir hann er lagt eða líkur eru á að hann muni ekki fara sjálfviljugur má lögregla færa hann úr landi. Athygli kæranda er jafnframt vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Felld er úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um brottvísun og endurkomubann. Ákvörðun um frávísun kæranda er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar að því er varðar umsókn um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og frávísun er staðfest. Felldur er úr gildi sá þáttur ákvörðunar stofnunarinnar er varðar brottvísun og endurkomubann. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection, residence permit on humanitarian grounds and refusal of entry is affirmed. The portion of the Directorate’s decision pertaining to expulsion and a re-entry ban is vacated. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                  Pétur Dam Leifsson

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum