Hoppa yfir valmynd
18. maí 2001 Heilbrigðisráðuneytið

Ræður ráðherra - Ávarp á málþingi um stöðu kvenna í læknastétt - 17. maí 2001

Ávarp heilbrigðisráðherra á málþingi um stöðu kvenna í læknastétt á Íslandi 17. maí 2001 undir
yfirskriftinni ,,Skref til framtíðar. Hvert stefnum við í jafnréttismálum? "


Ágætu málþingsgestir

Ég vil byrja á að óska ykkur til hamingju með tveggja ára afmæli Félags kvenna í læknastétt á Íslandi en afmælisdagurinn mun vera á morgun 18. maí.

Það er eðlilegt að slíkt félag sé starfandi á Íslandi en hliðstæð félög hafa verið lengi til í Evrópu og munu alþjóðasamtök kvenna í læknastétt hafa verið stofnuð þegar árið 1919. Konum fjölgar ört í læknastétt á Íslandi og stefnir í enn hraðari fjölgun á komandi árum. Á síðustu tíu árum hefur Háskóli Íslands þrisvar sinnum útskrifað fleiri konur en karla úr læknadeild og á sl. fjórum árum hafa innritast fleiri konur í deildina en karlar. Þó eru konur enn í miklum minni hluta í stéttinni og í nýjum tölum frá Landspítala - háskólasjúkrahúsi kemur fram að 27% starfandi lækna eru konur.

Víst er að fjölgun kvenna í læknastétt muni hafa töluverð áhrif bæði inn á við í starfi læknastéttarinnar en einnig á þá þjónustu sem veitt er. Ég tel að svo sé vel, það er æskilegt að reynsla, áherslur og forgangsröðun beggja kynja endurspeglist í þjónustunni og fræðigreininni sjálfri, í rannsóknum og kennslu.

Mig langar að greina hér örstutt frá framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna en áætlunin byggir á þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 1998. Þessi framkvæmdaáætlun gildir til ársloka 2001 og endurspeglar áherslur ríkisstjórnarinnar á jafnrétti kynjanna.

Í framkvæmdaáætluninni er haft að leiðarljósi að sjónarmið jafnréttis verði fléttað inn í alla þætti stefnumörkunar, ákvarðanatöku og aðgerða á vegum ríkisins. Sérstök áhersla er lögð á að hlutur kvenna í opinberum nefndum og ráðum verði aukinn.

Í áætluninni leggur sérhvert ráðuneyti áherslu á ákveðin verkefni og af hálfu heilbrigðismálaráðuneytisins má m.a. nefna skýrslu sem ber heitið Heilsufar kvenna en sú skýrsla mun einmitt hafa verið kynnt á vegum ykkar félags. Ráðuneytið hefur jafnframt styrkt, ásamt félagsmálaráðuneytinu, verkefni sem nefnist "Karlar til ábyrgðar", en daglegur rekstur þess er í höndum Rauða kross Íslands. Það verkefni felst í því að körlum sem beitt hafa ofbeldi á heimilum er boðin einstaklings- og hópmeðferð hjá sálfræðingum og mun þetta hafa gefið góða raun.

Heilbrigðismálaráðuneytið tók einnig virkan þátt í vinnu í tengslum við ný lög um fæðingar- og foreldraorlof sem tóku gildi 1. janúar sl. , en sú löggjöf er afrakstur af vinnu í tengslum við framkvæmdaáætlun ríkisins. Einnig má hér nefna ný lög um jafna stöðu og jöfn réttindi kvenna og karla sem samþykkt voru í maí árið 2000.

Í framkvæmdaáætluninni er lögð áhersla á að kyngreina alla tölfræði á vegum ríkisins en mikilvæg forsenda jafnréttis innan heilbrigðiskerfisins er að ákvarðanir, forgangsröðun og framkvæmd séu byggðar á þekkingu á heilsu kvenna jafnt sem karla. Tryggingastofnun ríkisins hefur m.a. gert átak í þessa veru og birtist það í staðaltölum almannatrygginga sem nýlega komu út.

Til að tryggja framgang framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna skal þess getið að starfandi hefur verið stýrihópur til að fylgja áætluninni eftir og í honum sitja fimm konur og einn karl. Formaður er Sigríður Lillý Baldursdóttir.

Ég held að þó að hér hafi aðeins verið drepið á örfáa þætti í stefnu ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og áhersluverkefni heilbrigðismálaráðuneytisins sé ljóst að nokkuð vel hefur gengið að vinna að framgangi áætlunarinnar.

Það verður þó sífellt að halda vöku sinni og alltaf má gera betur.

Nýlega voru teknar saman tölur um fjölda kvenna í stjórnum á vegum heilbrigðisráðuneytisins sem kosnar eru af Alþingi og nefndum, stjórnum eða ráðum sem skipuð eru af ráðherra. Þar kom í ljós að hlutfalla kvenna er 37%. Í þessum stjórnum, nefndum og ráðum eru 65 formenn og þar af 18 konur, eða 28%.
Í stjórnum sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðva og stjórnum heilsugæslustöðva sjúkrahúsa og sjálfseignarstofnana, er hlutfall kvenna 49%. Af 37 formönnum þessara stjórna eru 13 konur eða 35%.

Það er því ljóst, að þó að heilbrigðisráðuneytið komi nokkuð vel út miðað við önnur ráðuneyti, að hér þarf að bæta um betur, en eins og þið þekkið öll er meirihluti starfsmanna heilbrigðiskerfisins konur og ætti það að endurspeglast enn betur í þessum tölum. Á Landspítala - háskólasjúkrahúsi eru t.d. 79% starfsmanna konur.

Ef litið er til starfsmanna heilbrigðismálaráðuneytisins, sem eru 41 talsins, þá er meirihluti þeirra konur eða 58%. Í stjórnunarstöðum eru hlutföllin þannig að af sjö skrifstofustjórum eru fjórar konur, eða 57% og þar af er kona staðgengill ráðuneytisstjóra. Í hópi deildarstjóra er hlutfall kvenna 40%.

Ég vil ljúka orðum mínum hér með því að skýra frá því að í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu er nú verið að undirbúa skipan verkefnisstjórnar sem fær það hlutverk að fylgja eftir ákveðnum tillögum úr skýrslunni Heilsufar kvenna og ég nefndi hér í upphafi. Ég tel eðlilegt að sú reynsla og þekking sem félagar í Félagi kvenna í læknastétt á Íslandi búa yfir verði nýtt og mun ráðuneytið innan skamms leita eftir liðsinni ykkar til að taka þátt í þeirri verkefnisstjórn.

Talað orð gildir





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum