Hoppa yfir valmynd
11. júní 2001 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Iðjuþjálfaþing 2001

Ávarp heilbrigðisráðherra, Jóns Kristjánssonar, á ráðstefnunni
,,Iðja - heilsa - vellíðan, iðjuþjálfun í íslensku samfélagi "
haldin á Akureyri 7.- 8. júní 2001.



Ágætu ráðstefnugestir,

Ég býð ykkur öll velkomin til Akureyrar á ráðstefnu Iðjuþjálfafélags Íslands og Heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri sem ber yfirskriftina " Iðja- heilsa-vellíðan, iðjuþjálfun í íslensku samfélagi".

Dear congress guests from the Norwegian countries, the United states, Canada, Australia and the Netherlands. It is a special pleasure for me to welcome you to Akureyri to this first ergotherapeutic conference in Iceland. The conference is international and lectures will be presented both in icelandic and english. International cooperation is of utmost importance for such a small contry as Iceland. Sharing knowledge and experience in a conference like this will move us forward towards our goal for quality health care. I hope you will have enlightening and interesting days here in Iceland and a save journey back to your home.

Góðir gestir.

Í dag er merkur dagur í sögu iðjuþjálfunar á Íslandi. Hér er haldin fyrsta íslenska ráðstefnan í iðjuþjálfun . Það er ef til vill tímanna tákn að ráðstefnan er alþjóðleg og fer fram bæði á íslensku og ensku. Jafnframt lýsir það metnaði og stórhug stéttarinnar. Árið í ár er einnig tímamótaár því í vor útskrifast fyrstu nemendurnir í iðjuþjálfun og Iðjuþjálfafélag Íslands á 25 ára afmæli í ár.

Iðjuþjálfun er ung fræðigrein og aðeins eru liðin fjögur ár síðan nám hófst hér við Háskólann á Akureyri. Mér er minnisstætt þegar Snæfríður Egilsson ásamt meðfylgdarkonum komu til mín að máli, þegar ég var formaður fjárlaganefndar, fyrir allt að sex árum. Þarna voru á ferðinni metnaðarfullar og framsýnar konur að kynna áform sín um nám í iðjuþjálfun við háskóla á Íslandi. Upphaflega hugmyndin snérist um nám við Háskóla Íslands en niðurstaðan varð sú að námið fór af stað hér á Akureyri. Nú eru við nám um 60 einstaklingar og 15 útskrifast væntanlega á næstu dögum. Þótt þessar tölur séu ekki háar þá er hér um mikla aukningu í faginu að ræða, því nú eru alls um 100 iðjuþjálfar starfandi á landinu með menntun sem fengin er víða að úr heiminum. Vaxandi fjöldi sækir í framhaldsnám og þar sem grunnnámið er allt í háskóla á Íslandi er litið til Íslands sem fyrirmyndar meðal Norðurlandaþjóðanna.

Ég fagna því sérstaklega að iðjuþjálfun er kennd á Íslandi og hversu vel hefur tekist til við uppbyggingu námsins. Hér er um mikilvæga heilbrigðisstétt að ræða, einn af hlekkjunum í keðjunni þar sem engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Starfsvettvangur iðjuþjálfa er fjölbreytilegur og möguleikarnir til að hafa áhrif á þjónustuna miklir. Víða vantar í stöður hér á landi, þannig að sannarlega er beðið eftir þeim nemendum sem útskrifast frá Háskólanum á Akureyri. Mér er tjáð að flestir iðjuþjálfar starfi nú á stóru sjúkrahúsunum, þar sem þörfin var kannski brýnustu í byrjun, en að stefnan sé að færa starfið meira út í heimabyggð og nær fólkinu, í heilsugæsluna, félagsþjónustuna og á vinnustaði. Styttri dvalartími á stofnunum hefur einnig leitt til þess að aukin eftirspurn er eftir framlagi iðjuþjálfa úti í samfélaginu. Sóknarfærin eru mörg og nú eftir að Alþingi samþykkti Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 opnast enn fleiri möguleikar fyrir iðjuþjálfa í forvarnarstarfi og fleiru.

Starf iðjuþjálfa er sérhæft og byggir m.a. á því að efla færni fólks til vinnu. Við Íslendingar höfum alltaf haft tröllatrú á mætti vinnunnar eins og hið gamla máltæki "vinnan göfgar manninn" lýsir glögglega. Við trúum að vinnan styrki bæði sál og líkama. En ekki eru allir svo heppnir að geta stundað vinnu. Þá er markmiðið með starfi iðjuþjálfa allt annað en ekki síður mikilvægt, í þá veru að auka færni einstaklings til að lifa sjálfstæðu lífi eða búa og lifa við þá fötlun sem sjúkdómar eða slys hafa haft í för með sér.

Starf iðjuþjálfa hefur gjarna farið hljótt en þakklæti þeirra sem njóta oft á tíðum mikið. Eitt af markmiðunum með þessari ráðstefnu er að kynna fagið og námið og opna augu almennings fyrir því hvaða möguleika starf iðjuþjálfa býður upp á og fyrir hvað fagið stendur. Einnig eru hér gestir frá Norðurlöndunum, Ameríku og fleiri löndum en alþjóðlegt samstarf er afar mikilvægt fyrir allar heilbrigðisstéttir bæði til að miðla þekkingu og reynslu en ekki síður til að mynda sambönd, skiptast á skoðunum og reynslu. Ég vona og er reyndar sannfærður um að þessi ráðstefna færi okkur fram á veginn í átt að því markmiði að veita gæðaþjónustu í íslensku heilbrigðiskerfi .

Ráðstefnan er sett.
Talað orð gildir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum