Hoppa yfir valmynd
12. júní 2001 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: 20 ára afmæli Fél. stjórnenda í öldrunarþjónustu 2001

Ávarp ráðherra
á 20 ára afmæli Félags stjórnenda í öldrunarþjónustu
Hótel Örk, þriðjudaginn 22. maí 2001, kl. 19:30




Ágætu stjórnendur í öldrunarþjónustu og aðrir gestir.

Það er mér mikið ánægjuefni að vera með ykkur hér í kvöld og fyrir hönd ráðuneytisins þakka ég boðið. Það er afar mikilvægt að geta hist og átt ánægjuleg samskipti á léttu nótunum líka af því lífið er nú einu sinni meira en eintómt þref.

Fróður maður í heilbrigðisráðuneytinu segir mér, að félagsskapur ykkar sé tæplega tvítugur, ef svo má að orði komast og lætur þá nærri, að ég sé jafnaldri samtaka ykkar sem þingmaður.

Tuttugu ár er ekki langur tími í sögu öldrunarþjónustunnar, þegar horft er til þess að fyrstu dvalarheimilin eru um einnar aldar gömul, en lögin um málefni aldraðra gengu fyrst í gildi í ársbyrjun 1983 og með þeim var lagður grunnur að öldrunarþjónustu í þeirri merkingu sem við viðljum bjóða upp á.

Mér segir svo hugur, að félagar ykkar og jafnvel einhverjir ykkar sem hér eruð hafið þrýst á um að lögin komu fram svona stuttu eftir að samtök ykkar urðu til. Um það eru sagnir, að oft hafi mönnum verið heitt í hamsi á fundum félagsins á fyrstu árum þess, en í seinni tíð virðist sem meiri samheldni og eindrægni hafi ríkt hjá félögunum og nú eru kröfurnar sem menn setja fram marvissari og að sumu leyti faglegri en áður.

Ekki verður sagt annað en að mikil bylting hafi orðið í þjónustu við aldraða á tilvistartíma félags ykkar. Vistunarmat aldraðra hefur stytt biðlistana um leið og vistrýmaþörfin hefur aukist, þannig að enn höfum við ekki náð því markmiði, að stytta biðtíma fyrir fólk í brýnni þörf niðrí 90 dagar. Ég vona að sú stund renni upp.

Þá væntum við mikils af hjúkrunarmælingum á hjúkrunarheimilum ykkar. Verið er að koma þeim á rafrænt form og unnið er að því að stilla mælitækið, þannig að samvinna okkar á næstu missurum mun verða auðveldari og vinnubrögð marvissari.

Félagsskapur eins og ykkar er mikilvægur fyrir okkur sem förum með stjórn heilbrigðismála. Það er afar mikilvægt að geta átt samskipti við þá fulltrúa sem hvað gerst þekkja til á sviði öldrunarmála og ég fagna því sérstaklega, að þið skulið leggja það á ykkur að halda uppi þessum félagsskap stjórnenda í öldrunarþjónustunni. Hann er vettvangur samráðs og hann er líka vettvangur þar sem menn geta glaðst á góðri stund eins og við gerum nú.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum til hamingju með tvítugsafmælið og óska ykkur alls góðs í framtíðinni. Von mín er sú að við getum áfram átt gott samstarf, að við getum áfram skipst á skoðunum og haft það sameiginlega markmið í bráð og lengd, að efla og bæta öldrunarþjónustuna.

Talað orð gildir





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum