Hoppa yfir valmynd
25. júní 2001 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Aukaallsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um HIV/alnæmi

Ræða Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra,
á Aukaallsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um HIV/alnæmiNew York, 25. júní 2001

Herra forseti
Góðir þingfulltrúar

Þótt Ísland teljist til hátekjuþjóða, þjóðin sé vel menntuð, landið sé eyja og hafi engin landamæri við aðrar þjóðir, hafa Íslendingar ekki farið varhluta af alnæmisfaraldrinum. Vandi Íslendinga er þó hverfandi í samanburði við vanda margra annarra þjóða, einkum í Afríku. Á einungis 20 árum hefur faraldurinn breiðst út um heim allan. Yfir 20 milljónir manna hafa þegar látist af völdum alnæmis. Hátt í 40 milljónir karla, kvenna og barna eru haldin þessum sjúkdómi um þessar mundir. Á annan tug milljóna barna eru orðin munaðarlaus af völdum þessa faraldurs. Vandinn er því gífurlegur, sérstaklega í Afríku sunnan Sahara. Þar búa 70% fullorðinna og 80% allra barna sem haldin eru sjúkdómnum. Eins og aðalritari Sameinuðu þjóðanna gat um í upphafi þessa aukaallsherjarþings og margir aðrir ræðumenn hafa þegar sagt, þá er þetta sérstaka þing um HIV/alnæmi fyllilega réttlætanlegt og ég vil þakka og óska aðalritara Sameinuðu þjóðanna til hamingju með þetta mikilvæga frumkvæði. Þetta aukaallsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um HIV/alnæmi á því fullan rétt á sér.

Dreifing sjúkdómsins í heiminum er ekki jöfn. Verst sett eru mörg af fátækari ríkjum heims. Afleiðingar sjúkdómsins eru skelfilegar. Heilu kynslóðirnar af ungu fólki falla frá í ótímabærum dauðdaga. Stofnanir samfélaga riðlast. Fátækt eykst. Hagvexti og stöðugleika er stefnt í voða. Í sumum af fjölmennustu ríkjum heimsins er faraldurinn enn á byrjunarstigi. Nái faraldurinn að breiðast út þar mun hann valda meiri þjáningum en orð fá lýst.

Hvað er til ráða? Það þarf að horfast í augu við vandann. Fyrst og fremst þarf að efla forvarnir og koma í veg fyrir að þeir sem ekki eru smitaðir sýkist. Lyfjameðferð, sem bjargar mannslífum, og ummönnun þarf að vera aðgengileg öllum þeim sem á þurfa að halda. Þetta vitum við en það dugar ekki til. Til þess að ná þessum markmiðum þarf að efla mannréttindi og bæta stöðu kvenna. Það þarf að halda áfram baráttunni gegn fordómum gegn þeim sem sýktir eru. Það þarf að fræða fólk og mennta. Það þarfa að hafa áhrif á siði og venjur. Öðru vísi komumst við ekki áleiðis.

Þær þjóðir sem betur eru settar þurfa að aðstoða þær sem eru í neyð. Það getum við gert með því að aðstoða alþjóðlegar hjálparstofnanir. Við getum unnið með lyfjaiðnaðinum við að lækka verð lyfja og styrkt fátækar þjóðir til lyfjakaupa.

Þótt lyf gegn HIV sýkingum bjargi mannslífum og geti dregið úr líkum á því að sýkt móðir smiti barn sitt, gagnast lyfin ekki nema að þau komist til þeirra sem á þeim þurfa að halda. Það verður einungis gert með því að heilbrigðisþjónustan í þjáðum löndum sé starfshæf. Lyfjameðferð gegn HIV sýkingu er ekki einföld. Lyfin þarf að taka á hverjum degi alla daga. Aukaverkanir lyfja eru ekki fátíðar. Og það þarf að vera hægt að fylgjast með veirumagni þess sem tekur lyfin. Að öðrum kosti er hætta á að ónæmir veirustofnar taki völdin. Þá erum við í sömu sporum og áður. Heilbrigðisþjónustuna verður að efla. Öðru vísi komumst við ekki áleiðis.

Það hefur náðst árangur í baráttunni gegn útbreiðslu alnæmis. Það hefur gerst með því að bæta stöðu kvenna. Það hefur gerst með því að fræða um smitleiðir og hvernig megi rjúfa þær. Það hefur gerst með því að virkja ungt fólk í baráttunni gegn alnæmi. Það hefur gerst með því að lyfjameðferð verði þeim aðgengileg sem á þurfa að halda. Það hefur gerst með virkri þátttöku þeirra sem eru smitaðir í baráttunni gegn alnæmi. Og það hefur gerst þegar stjórnvöld vísa veginn og styðja við forvarnir og meðferð með öflugum hætti.

Þrátt fyrir allt þetta þá við vitum öll að HIV sýking er komin til að vera svo lengi sem lækning er ekki til og við höfum ekki virkt bóluefni gegn þessum sjúkdómi. Baráttan stendur um það að halda faraldrinum í skefjum og draga úr honum eftir mætti. HIV sýking er viðvarandi sjúkdómur sem krefst ævilangrar meðferðar. Stjórnvöld allra ríkja þurfa því að hafa forgöngu um langtímaáætlanir sem miða að því að draga úr félagslegum og fjárhagslegum áhrifum faraldursins. Þau þurfa að sjá til þess að rétta hlut þeirra þjóðfélagshópa sem misrétti eru beittir og eru því í aukinni áhættu fyrir smiti. Þau þurfa að stuðla að því að þeim markmiðum sem sett eru til að draga úr faraldrinum verði náð. Þau þurfa að sjá til þess að meðferð og ummönnun verði aðgengileg öllum þeim sem á þurfa að halda. Þau þurfa að hvetja til þróunar lyfja og bóluefna gegn HIV sýkingu. Og þau þurfa að tryggja nægilega fjármuni til baráttunnar gegn alnæmisfaraldrinum.

Og að lokum hr. forseti, þá vil ég geta þess að Ísland styrkir um þessar mundir átak ríkja Eystrasaltsráðsins um sóttvarnis á Eystrasaltssvæðinu með bæði fjármunum og læknisfræðilegri þekkingu en þar er baráttan gegn alnæmi, berklum og öðrum alvarlegum smitsjúkdómum ofarlega á blaði.

Íslensk stjórnvöld eru einnig reiðubúin reiðubúin að styðja eflingu baráttunnar gegn alnæmisfaraldrinum í samræmi við samþykkt aukaallsherjaþings Sameinuðu þjóðanna dagana 25. – 27 júní 2001.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég einnig lýsa því yfir að ríkisstjórn Íslands hefur í hyggju að styðja fjárhagslega sérstakan alheimssjóð Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn alnæmi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira