Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Námskeiði á vegum Talþjálfunar Reykjavíkur 14. september, 2001

Ávarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
á námskeiði á vegum Talþjálfunar Reykjavíkur 14. september, 2001
haldið í RúgbrauðsgerðinniÁgætu gestir.

Það er mér mikil ánægja að setja námkeið það sem hér er að hefjast undir yfirskriftinni "Mál barnsins - okkar mál".

Á námskeiðinu, sem haldið er á vegum talmeinafræðinga hjá Talþjálfun Reykjavíkur, verður fjallað um helstu mál- og talraskanir og ýmsar leiðir til að vinna með slíkan vanda. Fjölmargar fagstéttir takast á við verkefni á þessu sviði en þekkingin sem liggur að baki slíkri vinnu er afar sérhæfð og þróuð. Það er því fagnaðarefni að unnt sé að bjóða upp á námskeið af þessu tagi hér á Íslandi.

Dagskráin endurspeglar faglega þekkingu og metnað þeirra sem standa að námskeiðinu. Þátttakan sýnir einnig glögglega hversu mikil þörf er á að fjalla um þetta málefni á fræðandi og upplýsandi hátt. Það er brýnt að strax á forskólaaldri sé unnt að greina og takast á við ýmsar mál- og talraskanir, því málþroski hefur áhrif á framtíð barnsins, getu í skóla, sjálfsmynd og líðan.

Nú er í undirbúningi lagasetning um málefni þeirra sem eiga við talmein, heyrnarskort eða heyrnarleysi að glíma. Frumvarpsdrög liggja fyrir og er nú verið að leita umsagna um þau. Ég hyggst leggja frumvarpið fram á Alþingi nú á haustþingi og vænti þess að samstaða náist um að afgreiða það sem fyrst. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir víðtæku samstarfi þeirra fjölmörgu sem koma að þessum málum, því það er ljóst að mikilvægt er að stilla betur saman strengi allra hlutaðeigandi.

Ég vil nota hér tækifærið og þakka talmeinafræðingum á Íslandi fyrir mikilsvert frumkvöðlastarf í heilbrigðisþjónustunni á umliðnum árum, en störf þeirra fara fram bæði inni á sjúkrahúsum og úti í samfélaginu. Mér er kunnugt um að talmeinafræðingar hafa verið afar duglegir við að tileinka sér nýjungar og fylgjast með nýjustu rannsóknum á þessu sviði. Starfið fer ekki alltaf hátt en gildi þess er mikið fyrir þá sem sérþekkingarinnar njóta.

Ég vil að lokum þakka fyrir það frumkvæði sem talmeinafræðingar hjá Talþjálfun Reykjavíkur hafa sýnt með því að standa fyrir þessu námsskeiði og veit að þátttakendur verða ekki sviknir af því efni sem hér verður boðið upp á.


Talað orð gildir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira