Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 93/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. febrúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 93/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16110001

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestur og kæruheimild

Þann 1. nóvember 2016 barst kærunefnd útlendingamála tilkynning Útlendingastofnunar um kæru […], kt. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi) á ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. október 2016, um að fella niður rétt hans til dvalar hér á landi.

Kærunefnd telur að í kæru felist krafa um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði heimiluð áframhaldandi dvöl hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga.

Hinn 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með þeim hætti að kærandi var fyrst skráður á Íslandi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. þágildandi laga um útlendinga þann 14. apríl 2004, en skráður fluttur úr landi þann 1. janúar 2007. Kærandi var skráður hér á landi á ný þann 25. nóvember 2013 og hefur samkvæmt skráningu í Þjóðskrá verið búsettur hér á landi síðan.

Útlendingastofnun felldi niður rétt kæranda til dvalar hér á landi með ákvörðun sinni, dags. 19. október 2016. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 27. október 2016 en þann 1. nóvember s.á. barst kærunefnd tilkynning um það frá Útlendingastofnun. Kærunefnd bárust gögn málsins frá Útlendingastofnun samhliða tilkynningu stofnunarinnar. Þann 22. desember 2016 sendi kærunefnd kæranda bréf þar sem honum var veittur kostur á að leggja fram greinargerð vegna kærumálsins. Frekari gögn eða upplýsingar bárust ekki.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi komið fyrst hingað til lands árið 2004, en þann 1. janúar 2007 verið skráður fluttur úr landi samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Hann hafi verið skráður hér á landi á ný þann 25. nóvember 2013. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærandi þegið [...] síðan í desember 2014. Samkvæmt upplýsingum frá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar dvelji rétthafi [...] og nýti sér aðra þjónustu á vegum borgarinnar. Að mati stofnunarinnar hafi því verið ljóst að kærandi væri ekki að vinna eða greiða skatta hér á landi. Kærandi uppfyllti auk þess ekki c-lið 1. mgr. 36. gr. a þágildandi laga um útlendinga um næga framfærslu og var það mat stofnunarinnar að hann væri orðinn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar hér á landi.

Kærandi hafi þegið [...] aðstoð á vegum Reykjavíkurborgar í langan tíma og væri sú [...] hans eina framfærsla hérlendis sem skráð væri hjá stjórnvöldum. Væri því ekki að sjá að um tímabundið ástand væri að ræða og féllu aðstæður kæranda því ekki undir 4. mgr. 40. gr. þágildandi laga um útlendinga. Þar sem kærandi hafi verið skráður utan Íslands lengur en í tvö ár samfellt eftir að hann var skráður hér á landi 2004, hafi réttur hans til ótímabundinnar dvalar hér á landi, skv. 1. mgr. 38. gr. þágildandi laga um útlendinga, fallið niður þann 1. janúar 2009 og stæði ákvæðið því ekki í vegi fyrir niðurfellingu á rétti til dvalar. Kærandi skyldi því fullnægja skilyrðum 36. gr. a ofangreindra laga um dvöl hér á landi.

Það var mat stofnunarinnar að tilgangur dvalar hans hér á landi samræmdist ekki tilgangi og skilyrðum 1. mgr. 36. gr. a þágildandi laga um útlendinga, né ákvæðum tilskipunarinnar um frjálsa för, um dvöl EES ríkisborgara í öðru EES ríki. Ákvarðaði stofnunin því svo að réttur kæranda til dvalar hér á landi væri fallinn niður. Í ákvörðuninni var einnig tiltekið að kærandi skyldi yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunarinnar.

IV. Málsástæður kæranda

Greinargerð barst ekki frá kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið heimilt að fella niður rétt kæranda til dvalar hér á landi á grundvelli XI. kafla laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er byggð á 40. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, en sambærilegt ákvæði er nú að finna í 92. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Í ákvæðinu er fjallað um brottfall dvalarréttar samkvæmt ákvæðum XI. kafla laga um útlendinga en í kaflanum er að finna sérreglur um útlendinga sem falla undir Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Réttur til dvalar getur m.a. fallið niður ef dvöl er í öðrum tilgangi en þeim sem samrýmast ákvæðum 84. gr. laga um útlendinga. Ákvæði 1. mgr. 84. gr. er svohljóðandi:

EES- eða EFTA-borgari á rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir einhverju af eftirgreindum skilyrðum:

a. er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hér á landi,

b. ætlar að veita eða njóta þjónustu hér á landi og fullnægir jafnframt skilyrðum c-liðar, eftir því sem við á,

c. hefur nægilegt fé sér til handa og aðstandendum sínum til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á meðan á dvöl stendur og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir,

d. er innritaður hjá viðurkenndri námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun, fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir og getur sýnt fram á trygga framfærslu.

Í 3. mgr. 92. gr. laga um útlendinga kemur fram takmörkun á heimild Útlendingastofnunar til niðurfellingar á rétti til dvalar. Þar kemur fram að réttur til dvalar falli ekki niður vegna tímabundinna veikinda, slyss eða ef um sé að ræða þvingað atvinnuleysi EES- eða EFTA borgara eftir að hann hafi starfað hér á landi lengur en eitt ár.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kærandi fyrst skráður á Íslandi þann 14. apríl 2004 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. þágildandi laga um útlendinga, nr. 96/2002, en síðan skráður úr landi 1. janúar 2007. Kærandi var skráður hér á landi á ný 25. nóvember 2013 en samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra þáði kærandi laun frá janúar til október 2013. Kærandi þáði [...]. Kærandi er því ekki í vinnu hér á landi, greiðir ekki skatta og framfleytir sér með félagslegri aðstoð. Hann uppfyllir því ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga um að hafa nægilegt fé til framfærslu. Kærandi hefur jafnframt ekki rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi, skv. 1. gr. 87. gr. laga um útlendinga, í ljósi þess að kærandi dvaldi utan Íslands lengur en tvö ár samfellt og eiga undanþágur 2. og 3. mgr. ákvæðisins ekki við í máli kæranda. Þá er ljóst að undantekningaákvæði 3. mgr. 92. gr. laga um útlendinga eiga ekki við í máli hans.

Samkvæmt því sem að framan greinir er réttur kæranda til dvalar hér á landi á grundvelli 1. mgr. 84. gr. laga um útlendinga fallinn niður og er hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Árni Helgason                                                    Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum