Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2017 Innviðaráðuneytið

Illugi Gunnarsson verður formaður stjórnar Byggðastofnunar

Frá ársfundi Byggðastofnunar. Frá vinstri: Herdís Á. Sæmundardóttir, Illugi Gunnarsson og Ragnhildur Hjaltadóttir. - mynd

Ársfundur Byggðastofnunar er haldinn í dag í Skagafirði og var tilkynnt um nýja stjórn stofnunarinnar á fundinum. Formaður hennar er Illugi Gunnarsson. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, flutti ávarp í upphafi fundar í fjarveru Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Ársfundur Byggðastofnunar er  haldinn í dag í Skagafirði og var tilkynnt um nýja stjórn stofnunarinnar á fundinum. Formaður hennar er Illugi Gunnarsson. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, flutti ávarp í upphafi fundar í fjarveru Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Herdís Á. Sæmundardóttir, fráfarandi formaður stjórnar Byggðastofnunar, flutti ræðu í upphafi fundar og Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar greindi frá starfseminni. Fjallað var síðan um margs konar efni á fundinum, meðal annars um samfélagslega nýsköpun í dreifbýli, stöðu útlendinga á Norðurlandi og hún borin saman milli Akureyrar, Dalvíkur og Húsavíkur og gerð var grein fyrir ýmsum þáttum í starfi Byggðastofnunar.

Í ávarpi sínu flutti Ragnhildur Hjaltadóttir í upphafi kveðju frá ráðherra sem ekki gat setið fundinn og sagði fulltrúum ráðuneytisins heiður að því að taka nú þátt í ársfundi Byggðastofnunar í fyrsta sinn. Hún minnti á að 1. maí næstkomandi tæki til starfa nýtt ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála og að með flutningi byggðamála í ráðuneytið heyrðu sveitarstjórnarmál og byggðamál því undir eitt og sama ráðuneyti sem væri fagnarðarefni. Hefðu ýmsir aðilar hvatt til sameiningar þessara málaflokka, meðal annars landshlutasamtök sveitarfélaga og einstök sveitarfélög. „Í fyrsta lagi standa sveitarfélög landsins vörð um íbúana og velferð þeirra – þau eru samfélagið í nærmynd. Sveitarstjórnarmenn um allt land láta byggðamál sig varða og eru best til þess fallnir að meta hagsmuni sína. Þeir gegna því lykilhlutverki við mótun framtíðar íbúanna,“ sagði ráðuneytisstjórinn meðal annars. „Þegar af þessari ástæðu er farsælt að tengja byggðamálin við sveitarstjórnarmálin. Verkefnið Sóknaráætlun landshluta, þar sem bæði stefnumótun og ákvarðanataka er færð nær heimamönnum er gott dæmi um árangur sem hefur náðst.“

Þá sagði hún samgöngukerfi landsins tengja byggðarlög og að vegir, hafnir og flugvellir væru forsenda búsetu og á sama hátt myndu fjarskipti og upplýsingahraðbrautin tengja þjóðina saman. Nú gæfist einstakt tækifæri til að tengja saman markmið og áherslur í byggðamálum við samgönguáætlun.

Ráðuneytisstjórinn sagði drög að nýrri byggðaáætlun áranna 2018 til 2024 hafa verið unnin og væri sú breyting gerð nú að hún næði til sjö ára í stað fjögurra áður. Hún næði nú einnig til landsins alls og væri unnin í samstarfi Byggðastofnunar og stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál. Sagði hún drögin nú verða unnin frekar og að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra gerði ráð fyrir að leggja fram á næsta þingi tillögu til þingsályktunar um nýja byggðaáætlun.

Sem fyrr segir tók ný stjórn við á fundinum og er hún nú þannig skipuð:

  • Illugi Gunnarsson, Reykjavík
  • Rakel Óskarsdóttir, Akranesi
  • Róbert Guðfinnsson, Siglufirði
  • Sigríður Jóhannesdóttir, Gunnarsstöðum
  • Karl Björnsson, Reykjavík
  • Einar E. Einarsson, Syðra-Skörðugili
  • Ingunn Guðmundsdóttir, Selfossi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum