Hoppa yfir valmynd
18. maí 2022 Forsætisráðuneytið

Mál 21/2021 Úrskurður

 

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B

 

Kynbundin og kynferðisleg áreitni. Áreitni vegna trúarskoðana. Ekki fallist á brot.

A kærði endurtekna kynbundna og kynferðislega áreitni og áreitni vegna trúarskoðana af hendi yfirmanns í starfi hjá B Tekið var fram að gögn sem lágu fyrir í málinu bentu ekki til annars en að kærði hefði bætt vinnuaðstæður og vinnuskilyrði kæranda eftir að málið kom upp. Var því ekki talið að sýnt hefði verið fram á að B hefði mismunað kæranda í starfi og því hvorki fallist á að kærði hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 né lög nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 18. maí 2022 er tekið fyrir mál nr. 21/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 22. desember 2021, kærði A endurtekna kynbundna og kynferðislega áreitni og áreitni vegna trúarskoðana af hendi yfirmanns í starfi hjá kærða. Telur kærandi að háttsemi yfirmannsins hafi farið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Í ljósi þess að kærði ber ábyrgð sem atvinnurekandi á að starfsemin sé í samræmi við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði verður litið svo á að kærunni sé beint að kærða.
  4. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 26. janúar 2022. Greinar­gerð kærða barst með bréfi, dags. 17. febrúar 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 4. mars 2022.

    MÁLAVEXTIR

     

  5. Kærandi hóf störf hjá kærða í september 2018. Hún kveðst hafa orðið fyrir endurtekinni kynbundinni og kynferðislegri áreitni og áreitni vegna trúarskoðana af hálfu yfirmanns síns, starfsmanns kærða, sem hafi varað í að minnsta kosti þrjú ár. Fram­kvæmda­stjóri fyrirtækisins boðaði kæranda á fund í lok nóvember 2021 þar sem kærandi upplýsti um áreitni yfirmannsins í sinn garð. Í framhaldinu mun fram­kvæmda­stjórinn hafa ákveðið að vinnufyrirkomulag kæranda og yfirmannsins yrði þannig að þau væru ekki að vinna á sömu starfsstöð á sama tíma.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  6. Í kæru kveðst kærandi hafa orðið fyrir endurtekinni kynbundinni og kynferðislegri áreitni og áreitni vegna trúarskoðana í starfi af hálfu yfirmanns síns frá því að hún hóf þar störf í september 2018. Yfirmaðurinn hafi verið ruddalegur og dónalegur gagnvart kæranda og gert lítið úr trúarskoðunum hennar.
  7. Kærandi kveðst nýlega hafa spurt yfirmanninn hvers vegna hann hafi kosið að veita karli sem sé fremur nýr hjá fyrirtækinu stöðuhækkun en ekki konu sem hafi unnið þar lengur, en meirihluti starfsfólksins sé konur. Hafi yfirmaðurinn þá farið í vörn og verið ógnandi. Á endanum hafi hann kvartað yfir kæranda við framkvæmdastjóra fyrir­tækisins. Þegar kærandi hafi fundað með framkvæmdastjóra kærða hafi hún áttað sig á því að yfirmaðurinn hefði kvartað undan henni um allnokkurt skeið. Telur hún að yfirmaðurinn vilji að henni verði sagt upp störfum.
  8. Kærandi telur að yfirmaðurinn hafi byrjað að kvarta undan sér við framkvæmdastjóra kærða í janúar 2020 eða þegar hún hafi byrjað að standa á sínu. Eftir nokkrar kvartanir yfirmannsins hafi framkvæmdastjórinn beðið kæranda um að funda með sér. Hafi kærandi útskýrt málið fyrir framkvæmdastjóranum og óskað eftir því að hún þyrfti ekki að vinna áfram með starfsmanninum.
  9. Kærandi tekur fram að hún hafi fengið strangt trúarlegt uppeldi sem meðal annars hafi falist í því að halda ekki upp á jól eða afmæli. Hafi yfirmaðurinn gert lítið úr henni vegna þessa, m.a. fyrir framan viðskiptavini, og sett hana í erfiða stöðu gagnvart sam­starfs­mönnum hennar. Kærandi kveðst hafa upplifað mikið virðingarleysi.
  10. Bendir kærandi á að yfirmaðurinn hafi verið ókurteis og dónalegur bæði við hana og annað samstarfsfólk hennar, jafnvel fyrir framan viðskiptavini. Kærandi hafi ávallt reynt að vera almennileg við yfirmanninn líkt og við alla aðra. Hafi hún alltaf reynt að leiða hjá sér athugasemdir hans en hún hafi ekki getað það þegar hegðun hans var farin að hafa áhrif á orðspor hennar og atvinnuöryggi.
  11. Kærandi áréttar að henni líki vel við starf sitt og framkvæmdastjóra fyrirtækisins en hann hafi alltaf verið almennilegur við kæranda. Kæran beinist eingöngu að ósæmilegri hegðun yfirmanns hennar.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  12. Kærði tekur fram að kærandi hafi upphaflega hafið störf hjá fyrirtækinu í september 2018 í verslunum á Laugaveginum og í Kringlunni. Sá starfsmaður sem kærandi hefur kvartað yfir hafi starfað hjá fyrirtækinu í rúm tíu ár. Í lok nóvember 2021 hafi fram­kvæmdastjóri fyrirtækisins fengið símtal frá fyrrnefndum samstarfsmanni kæranda þar sem hann upplýsti kærða um að kærandi væri afar ósátt við sig og nefndi hann tvö tilvik í því sambandi.
  13. Í framhaldinu hafi framkvæmdastjóri kærða boðað kæranda á sinn fund til þess að ræða málin. Á þeim fundi hafi kærandi upplýst um meinta áreitni í sinn garð sem sé að mestu leyti samhljóða lýsingum kæranda í kæru. Kærði tekur fram að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem framkvæmdastjórinn hafi heyrt af áreitni í garð kæranda og í fyrsta sinn sem kvörtun hafi borist vegna starfa samstarfsmannsins.
  14. Kærði tekur fram að framkvæmdastjóri kærða hafi tekið lýsingar kæranda alvarlega. Hann hafi ráðfært sig við VR og Vinnueftirlitið, án tilgreiningar á málsaðilum, í þeim tilgangi að fá leiðbeiningar og aðstoð við úrlausn málsins. Þá hafi hann talið rétt að fá fram sjónarmið samstarfsmannsins. Í því samtali kom fram að samstarfsmaðurinn hafnaði því eindregið að hafa viðhaft háttsemi sem fæli í sér kynferðislega og kynbundna áreitni sem og áreitni vegna trúarskoðana. Samstarfsmaðurinn hafi hins vegar upplýst að hann hefði að eigin frumkvæði fært kæranda jólagjöf og rætt við hana um trúmál á góðum nótum.
  15. Tekur kærði fram að í framhaldinu og í samræmi við þá ráðgjöf sem framkvæmdastjórinn fékk frá bæði VR og Vinnueftirlitinu hafi hann stungið upp á við báða aðila að hann myndi funda með þeim í þeim tilgangi að reyna að finna lausn á því ósætti sem virtist vera uppi. Kærandi hafi fallist á það en dregið síðan samþykki sitt fyrir slíkum fundi til baka í tölvuskeyti og lýst því yfir að hún myndi setja fram kvörtun vegna framferðis starfsmannsins.
  16. Kærði tekur fram að framkvæmdastjóri kærða hafi talið ljóst miðað við þær upplýsingar sem hann fékk hjá kæranda og starfsmanninum að um væri að ræða verulegan samskipta­vanda á milli þeirra. Þar sem kærandi hefði lýst því yfir að hún myndi setja fram kvörtun vegna framferðis starfsmannsins og ljóst var að ekki yrði af sáttafundi hafi framkvæmdastjórinn ákveðið að haga vinnutilhögun þessara starfsmanna þannig að þau myndu ekki vinna á sömu starfsstöð á sama tíma. Þannig taldi hann réttast og málefnalegast að takast á við vandann. Hafi báðir aðilar frá þeim tíma starfað í samræmi við þá vinnutilhögun.
  17. Að mati kærða hefur engin mismunun átt sér stað á vettvangi fyrirtækisins. Þannig hafi enginn starfsmaður fengið framgang á kostnað kæranda. Tekur kærði fram að umræddur starfsmaður sem kærandi hafi kvartað yfir fari hvorki með launamál hjá kærða né ráðningar eða starfsmannahald. Heyri öll málefni sem varða starfsmenn undir framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Þá bendir kærði á að með því að koma vinnutilhögun þannig fyrir að umræddur starfsmaður sem kærandi hefur kvartað yfir og kærandi vinni ekki á sömu starfsstöð sé ljóst að tekið sé mið af þeim sjónarmiðum sem liggja að baki 2. mgr. 14. gr. laga nr. 150/2020.
  18. Kærði bendir á að þau tilvik sem kærandi vísi til í kæru sinni hafi átt að eiga sér stað á árunum 2018-2021. Telur kærði að kærufrestur sé liðinn vegna ætlaðra tilvika sem gerðust fyrir sex mánaða kærufrestinn samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála.
  19. Kærði tekur fram að hann hafi ekki undir höndum önnur gögn og/eða samskipti sem málið varða en þau sem kærandi hafi þegar lagt fram með kæru sinni.

    NIÐURSTAÐA

     

  20. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði með því að yfirmaður kæranda og starfsmaður kærða hafi í starfi beitt kæranda endurtekinni kynbundinni og kynferðislegri áreitni og áreitni vegna trúarskoðana.
  21. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði og innan síns fyrir­tækis, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 segir að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð m.a. trú og lífsskoðun. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 86/2018 er markmið laganna að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna.
  22. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þá gilda lögin um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020 tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  23. Vegna athugasemda kæranda við að kærufrestur sé liðinn í málinu er rétt að taka fram að samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 skulu erindi berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot á lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Samkvæmt því sem og einnig því að umræddu ástandi, sem er að mati kæranda brot á lögum nr. 150/2020 og lögum nr. 86/2018, var ekki lokið innan sex mánaða þegar kæra barst nefndinni verður kæran tekin til efnismeðferðar.
  24. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 150/2020 hvíla ákveðnar skyldur á atvinnurekanda til að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi eða kynferðislegri áreitni á vinnustað. Þá er lagt bann við mismunun á vinnuaðstæðum og vinnuskilyrðum starfsfólks á grundvelli kyns í 1. mgr. 19. gr. laganna. Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018 er tekið fram að atvinnurekendur, stéttarfélög og samtök þeirra skuli vinna markvisst að jafnri meðferð á vinnumarkaði í samræmi við markmið laganna. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að jafnri meðferð starfsmanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og koma í veg fyrir mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna.
  25. Samkvæmt sönnunarreglu 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 kemur það í hlut þess sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns við vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar þeirri meðferð sem hann fékk. Sams konar sönnunarregla kemur fram í 15. gr. laga nr. 86/2018. Samkvæmt henni kemur það í hlut þess sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli trúar eða lífsskoðunar. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en trú eða lífsskoðun hafi legið til grund­vallar þeirri meðferð sem hann fékk. Kemur það því í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á vinnuaðstæður eða vinnuskilyrði hennar og/eða að trú eða lífsskoðun hafi haft áhrif á þá meðferð sem hún fékk.
  26. Af kæru er ljóst að kærandi var ósátt við háttsemi yfirmanns sem hún telur að hafi falist í endurtekinni kynbundinni og kynferðislegri áreitni og áreitni vegna trúarskoð­ana gagnvart sér. Ljóst er að slík háttsemi telst mismunun í skilningi laga nr. 150/2020 og laga nr. 86/2018.
  27. Kærandi hefur hins vegar lagt á það áherslu að hún sé ekki ósátt við framkvæmdastjóra kærða. Fram kemur í skýringum kærða að framkvæmdastjórinn hafi brugðist við kvörtunum kæranda þegar hann var upplýstur um háttsemi yfirmannsins með því að reyna sættir en þar sem það gekk ekki eftir hafi hann ákveðið að kærandi og yfirmaður hennar sinntu ekki starfsskyldum sínum á sömu starfsstöðinni. Ekki verður séð að kærandi hafi gert athugasemdir við framangreind viðbrögð kærða.
  28. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki betur séð en að kærði hafi brugðist við kvörtunum kæranda með málefnalegum hætti eins og hér stóð á í samræmi við 14. gr. laga nr. 150/2020 og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018 með því að gera breytingar á vinnuaðstæðum og vinnuskilyrðum kæranda eftir að málið kom upp. Verður því ekki talið eins og mál þetta liggur fyrir nefndinni að sýnt hafi verið fram á að kærði hafi mismunað kæranda í starfi vegna endurtekinnar kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og/eða áreitni vegna trúarskoðana af hálfu yfirmanns kæranda og starfsmanns kærða, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, sbr. 1. mgr. 16. gr. sömu laga og 15. gr. laga nr. 86/2018, sbr. 1. mgr. 7. gr. sömu laga. Að því virtu verður hvorki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 né lög nr. 86/2018.
  29. Rétt er að árétta að samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 skal atvinnurekandi gæta þess að starfsfólk verði ekki beitt órétti í starfi, svo sem með tilliti til starfsöryggis, starfskjara eða mats á árangri, á grundvelli þess að hafa kært eða veitt upplýsingar um kynbundna eða kynferðislega áreitni. Að sama skapi er atvinnurekanda óheimilt sam­kvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 86/2018 að segja starfsmönnum upp störfum sökum þess að þeir hafi kvartað undan eða kært mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. eða krafist leiðréttingar á grundvelli laganna. Jafnframt skal atvinnurekandi gæta þess að starfsmenn verði ekki látnir gjalda þess í starfi að kvartað hafi verið undan eða kærð mismunun eða krafist leiðréttingar á grundvelli laganna.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, B, braut hvorki gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna né lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði vegna endurtekinnar kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og áreitni vegna trúarskoðana af hálfu yfirmanns hjá kærða sem beint var að kæranda.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum