Hoppa yfir valmynd
21. september 2023

Viðburður í tilefni af alþjóðlega jafnlaunadeginum

Í tilefni af alþjóðlega jafnlaunadeginum 18. september stóð sendiráð Íslands í París og fastanefnd Íslands gagnvart OECD, í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina OECD, fyrir sérstökum jafnlaunadags viðburði í gær. 

Markmiðið með alþjóðlega jafnlaunadeginum er að vekja athygli á aðgerðum sem stuðla að launajafnrétti og hvetja til frekari aðgerða til að markmið um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf nái fram að ganga. Ísland átti frumkvæði að því að koma jafnlaunadeginum á laggirnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 2019 og er þetta þriðja árið í röð sem sendiráðið skipuleggur viðburð að þessu tilefni í samstarfi við OECD.

Í ár var áhersla lögð á að fjalla um þann launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði en rannsóknir hafa sýnt fram á að kynskiptur vinnumarkaður er meginorsök kynbundins launamunar á Íslandi. Samkvæmt úttektum OECD mælist kynbundinn launamunur 12% að meðaltali á meðal OECD-ríkja. Stofnunin hefur nýverið gefið út jafnréttisstefnu og hefur m.a. lagt aukna áherslu á að greina áhrif kynjaskiptingar vinnumarkaðarins, en stefnumótunarvinna og aðgerðir sem vinna að því að leiðrétta vanmat kvennastarfa eru stutt á veg komin hjá aðildarríkjum stofnunarinnar.

Sendiherra Íslands og fastafulltrúi gagnvart OECD, Unnur Orradóttir Ramette, opnaði viðburðinn og framkvæmdastjóri OECD, Mathias Cormann, flutti opnunarávarp. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, flutti einnig myndbandsávarp og lagði áherslu á mikilvægi þess að útrýma launamun kynjanna. Forsætisráðherra tók fram að á Íslandi væri nú lögð áhersla á að greina og vinna að lausnum til að leiðrétta launamun sem stafar af kynbundinni skiptingu vinnumarkaðar. Sérstakur aðgerðarhópur stjórnvalda um launajafnrétti hafi verið settur á laggirnar til að greina vandann, þróa verkfæri og auka þekkingu. Umræðunum stýrði Monika Queisser deildarstjóri félags- og vinnumarkaðsmála hjá OECD en aðrir þátttakendur í pallborði voru Dr. Jennifer Curtin, prófessor og forstöðumaður hjá Auckland háskóla á Nýja Sjálandi, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Maartje Wagemans, frá vinnumálasamtökum Belgíu. Viðburðurinn var haldinn með stuðningi vinahóps jafnréttismála hjá OECD (FOGE+) og tóku formenn hópsins þau Madeleine Chenette, fastafulltrúi Kanada og Gerard Keown, fastafulltrúi Írlands, einnig til máls.

Viðburðurinn var haldinn í þéttsetnum ráðstefnusal OECD í París en einnig stóð til boða að fylgjast með viðburðinum rafrænt.

Upptöku frá viðburðinum má nálgast hér að neðan.

https://youtu.be/K4Zu1Ho8boM

  • Viðburður í tilefni af alþjóðlega jafnlaunadeginum - mynd úr myndasafni númer 1
  • Viðburður í tilefni af alþjóðlega jafnlaunadeginum - mynd úr myndasafni númer 2
  • Viðburður í tilefni af alþjóðlega jafnlaunadeginum - mynd úr myndasafni númer 3
  • Viðburður í tilefni af alþjóðlega jafnlaunadeginum - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum