Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2001 Heilbrigðisráðuneytið

3. - 9. nóv. 2001

Fréttapistill vikunnar
3. - 9. nóv. 2001



Hlutur sjúklinga sem hlutfall af heildarkostnaði við læknisþjónustu hefur lækkað á liðnum árum

Hlutur sjúklinga sem hlutfall af árlegum heildarkostnaði vegna læknisþjónustu hefur lækkað sl. fimm ár. Heildarkostnaður við þessa þjónustu hefur aftur á móti vaxið með hverju ári. Á það jafnt við um sérfræðilæknisþjónustu, heilsugæsluþjónustu og röntgen- og rannsóknarþjónustu. Á sama tíma og heildarkostnaður við komu til sérfræðilækna hækkaði að meðaltali um tæplega 40% árin 1997 - 2000, á föstu verðlagi, lækkaði hlutur sjúklings um rúmlega fimm af hundraði. Hundraðshluti sjúklings í heildarkostnaði við komu til sérfræðilæknis var 44,1% árið 1997, en hafði lækkað í 29,9% árið 2000. Þetta er meðal upplýsinga sem fram koma í skriflegu svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi frá 7. nóv. sl.
SKRIFLEGT SVAR RÁÐHERRA...

Kostar um 60 milljónir króna að eyða biðlistum eftir heyrnartækjum hjá HTÍ
Rúmlega 1.000 manns eru á biðlista eftir heyrnartækjum hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Flestir þurfa á tveimur heyrnartækjum að halda og samtals vantar því 1.700 tæki til að svara þörf þeirra sem bíða. Í skriflegu svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á Alþingi í vikunni kemur fram að kostnaðurinn við að eyða þessum biðlista er um 60 milljónir króna. Til að koma í veg fyrir að biðlistar myndist í framtíðinni þarf til viðbótar 45 milljónir króna í aukið rekstrarfé á ári, vegna aukinnar starfsemi HTÍ og aukins hluts ríkisins í heyrnartækjakaupum til að sinna árlegri eftirspurn. Í svari ráðherra kemur einnig fram að í byrjun október sl. var um þriggja mánaða bið eftir heyrnarmælingu og læknisskoðun og bið eftir heyrnartæki er u.þ.b. eitt ár. Börn eru ekki látin bíða eftir þjónustu, hvorki heyrnarmælingum né heyrnartækjum. Hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni hefur verið skoðað hvaða leiðir eru vænlegastar til að stytta biðlista sem allra fyrst. M.a. hefur verið skipulögð eftirvinna við sölu/úthlutun heyrnartækja tvo daga í viku og hefur sú ráðstöfun þegar skilað árangri. Fyrirhugað er að endurskoða skráningar- og móttökukerfi þannig að hægt verði að veita fleirum þjónustu á hverjum degi. Þá er nefnd sú leið að endurskoða sumarleyfi starfsfólks og loks að efla læknisþjónustu og fjölga heyrnar- og talmeinafræðingum.
SKRIFLEGT SVAR RÁÐHERRA...

Styrktarsjóður stofnaður við Barnaspítala Hringsins
Stofnaður hefur verið styrktarsjóður við Barnaspítala hringsins ætlaður til að styðja starfsemi hans með gjöfum til tækjakaupa eða á annan hátt sem sjóðstjórn ákveður. Stofnandi sjóðsins er Friðrik Elías Sigtryggsson og er stofnféð 2,5 milljónir króna. Friðrik hefur áður styrkt Barnaspítala Hringsins. Jafnframt hefur hann gert erfðaskrá um að allar eigur hans muni renna í sjóðinn að honum látnum. Friðrik fæddist 21. október árið 1916 að Ytri-Brekkum í Sauðaneshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu. Úthlutað verður árlega úr sjóðnum á afmælisdegi Friðriks.
MEIRA...

Athygli vakin á skaðsemi munntóbaks
Athygli er vakin á ýmsum óþægilegum staðreyndum um skaðsemi munntóbaks í bæklingi sem Landlæknisembættið, Krabbameinsfélagið, Hjartavernd, Tannlæknafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Tóbaksvarnarráð hafa gefið út. Notkun munntóbaks hefur aukist undanfarin ár, ekki síst meðal íþróttamanna.
MEIRA...



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
09. nóvember 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum