Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2001 Heilbrigðisráðuneytið

17-23. nóv. 2001

Fréttapistill vikunnar
17. - 23. nóvember 2001



Notkun Íslendinga á geðdeyfðarlyfjum var á síðasta ári 50% meiri en meðal Svía og 270% meiri en meðal Færeyinga

Notkun geðdeyfðarlyfja hér á landi heldur áfram að aukast eins og meðfylgjandi línurit sýna. Aðeins virðist þó draga úr vextinum hjá okkur á yfirstandandi ári, en óvíst er hvort framhald verður á því. Nokkur árstíðasveifla er greinilega til staðar þegar ársfjórðungstölur eru skoðaðar. Það sem mest sker í augu er hinn gífurlegi munur á notkun Íslendinga á geðdeyfðarlyfjum í samanburði við notkunina meðal annarra Norðurlandaþjóða. Á síðasta ári var notkun okkar 50% meiri en Svía sem næstir okkur koma og 270% meiri en Færeyinga sem eru með minnsta notkun. Það virðist vera verðugt rannsóknarefni að finna hver er leyndardómur Færeyinga í þessu efni.
SKOÐA LÍNURIT (pdf.skrá)...

Stofnfundur Félags um lýðheilsu
Undanfarna mánuði hefur hópur fólks unnið að því að undirbúa stofnun félags um lýðheilsu. Hugmyndin að slíkum félagsskap kviknaði á námskeiði um lýðheilsu í apríl síðast liðnum. Á fundi sem haldinn var í maí komu fulltrúar margra faghópa, félaga og stofnana og lýstu fundarmenn sig reiðubúna til að vinna að stofnun slíks félags. Fundarmenn litu á félagið sem tækifæri til að stilla saman strengi og vinna að nýjum verkefnum á sviði forvarna og heilsueflingar. Félaginu er ætlað að verða nokkurs konar regnhlífarsamtök áhugafólks um lýðheilsu. Sambærileg félög eru starfandi í nágrannalöndum okkar og einnig eru til alþjóðasamtök sem leitað verður eftir samstarfi við. Lýðheilsa varðar félagslega og heilsufarslega þætti þjóða og hópa. Lýðheilsa miðar að því að bæta heilbrigði, lengja líf og bæta lífsgæði þjóða og hópa með almennri heilsuvernd, heilsueflingu, sjúkdómavörnum og annarri heilbrigðisþjónustu. Stofnfundur Félags um lýðheilsu verður haldinn mánudaginn 3. desember kl. 17 í fundasal Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun ávarpa fundinn. Sigurður Guðmundsson, landlæknir fjallar um lýðheilsu og að því loknu verða kynnt drög að lögum félagsins og kosin stjórn þess.

Efla þarf starfsendurhæfingu, bæta skipulag hennar og auka framboð
Á fjórða hundrað manns tóku þátt í málþingi um starfsendurhæfingu sem haldið var á Grand Hótel nýlega. Að málþinginu stóðu Alþýðusamband Íslands, Landssamtök lífeyrissjóða, Samstarfsráð um endurhæfingu, Samtök atvinnulífsins, Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun. Það voru endurhæfingarlæknar sem óskuðu eftir því að hreyft yrði við þessum málum en að þeirra mati er starfsendurhæfing hér á landi ekki nógu vel skipulögð og úrræði standa langt að baki því sem býðst hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Í fundarboði segir að þegar fólk hafi verið óvinnufært vegna sjúkdóms eða slyss, eða atvinnulaust lengur en í nokkra mánuði sé mun erfiðara að stuðla að því að það geti hafið störf að nýju, en ef gripið sé fljótt til aðgerða. Að hverfa af vinnumarkaði við þessar aðstæður geti haft mjög neikvæð áhrif á líf fólks og lífsgæði, sjálfsöryggi og sjálfsbjargarviðleitni. Því sé afar brýnt að mögulegt sé að grípa fljótt inn í þennan vítahring með starfsendurhæfingu, þannig að viðkomandi verði ekki að óþörfu öryrki fyrir lífstíð. Slíkt verði bæði einstaklingnum og samfélaginu dýrkeypt. Í lok málþingsins var samþykkt ályktun þess efnis að nauðsynlegt sé að efla styrk og fjölbreytni starfsendurhæfingar á komandi árum. Til þess þurfi þeir sem koma að endurhæfingu að samhæfa krafta sína, fjármuni og framtíðarsýn. Lagt er til að stofnaður verði starfshópur um þetta verkefni sem geri tillögur um bætta þjónustu á sviði starfsendurhæfingar sem hafi að leiðarljósi þarfir þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda auk samfélagslegra og þjóðhagslegra sjónarmiða. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ávarpaði málþingið. Hann benti m.a. á að starfsendurhæfing hafi hingað til fyrst og fremst verið verkefni Tryggingastofnunar ríkisins og fjármögnuð af ríkissjóði. Þegar litið væri til þess að yfir 57% öryrkja fái lífeyri úr lífeyrissjóðum hlyti það að vera áhugavert fyrir lífeyrissjóðina að taka þátt í þessu starfi. Ráðherra sagði það því sérstakt ánægjuefni að Landssamtök lífeyrissjóða ættu aðild að málþinginu og sýndu málefninu þannig lifandi áhuga.
ÁVARP RÁÐHERRA...

Hækkun gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra
Samþykkt hafa verið lög frá Alþingi um breytingu á lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999 um hækkun gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra. Gjaldið hækkar úr 4.578 kr. í 4.826 kr. Lögin öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2002 vegna tekna á þessu ári.
LÖGIN...

Stjórnunarupplýsingar Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrir janúar - október 2001
"Óhagstæð verðlags- og gengisþróun á árinu er aðalástæðan fyrir umframkeyrslu á spítalanum og er áríðandi að fjármálayfirvöld leiðrétti þann mismun," segir í greinargerð með nýjum stjórnunarupplýsingum Landspítala - háskólasjúkrahúss. Stjórnunarupplýsingarnar og greinargerð með þeim er aðgengileg á heimasíðu LSH.
NÁNAR...

Samingur við Delta hf. um neyðarbirgðir af sýklalyfjum
Lyfjafyrirtækið Delta hefur tekið að sér að tryggja að ætíð séu fyrirliggjandi sýklalyf á Íslandi í varnarskyni vegna hugsanlegs sýklahernaðar. Heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið og Delta hf. undirrituðu samning þessa efnis nýlega. Samkomulagið er gert í ljósi atburða sem átt hafa sér stað í Bandaríkjunum að undanförnu enda talið nauðsynlegt af öryggisástæðum að tryggja að hér á landi séu ávallt til neyðarbirgðir af sýklalyfjum.
MEIRA...

Þverfagleg siðanefnd um gagnagrunn á heilbrigðissviði
Jón Kristjánsson, heilbrigðis og tryggingamálaráðherra, hefur skipað þriggja manna þverfaglega siðnefnd sem hefur það hlutverk að meta rannsóknir sem gerðar eru innan fyrirtækis rekstrarleyfishafa gagnagrunns á heilbrigðissviði og að meta fyrirspurnir sem berast í gagnagrunninn.
MEIRA...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
23. nóvember 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum