Hoppa yfir valmynd
5. desember 2001 Heilbrigðisráðuneytið

1. - 7. desember 2001

Fréttapistill vikunnar
1. - 7. desember 2001



Framlög til heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu hafa meira en tvöfaldast á fimm árum

Framlög til rekstrar heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu voru 820 milljónir króna árið 1997. Þessi tala var komin í 960 milljónir króna árið 1998 og árið 1999 var hún 1630 milljónir króna, en á þeim tíma var hluti kostnaðar fluttur frá Tryggingastofnun ríkisins yfir til heilsugæslunnar. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, eins og það liggur fyrir núna, verða framlög til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu 2,2 milljarðar króna. Að teknu tilliti til breytingarinnar sem varð við flutning kostnaðar frá Tryggingastofnun ríkisins til heilsugæslunnar hafa framlögin meira en tvöfaldast á fimm árum. Þessi mikla aukning á framlögum segir ekki alla söguna, því þar fyrir utan er allur byggingakostnaður. Kostnaður við nýjar heilsugsælustöðvar í Efstaleiti og við Smáralind er ekki meðtalinn. Þetta kom fram í ræðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ráðstefnu sem haldin var í vikunni þar sem fjallað var um stefnumótun í heilsugæslunni.
RÆÐA RÁÐHERRA...

Brýnast að setja forvarnir og lýðheilsu í brennipunkt - starfsemi Forvarnarmiðstöðvar skiptir máli, ekki staðsetning
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, segir ekkert sjálfgefið að Forvarnamiðstöð þurfi að staðsetja í miðborg Reykjavíkur. Brýnast sé að setja forvarnir og lýðheilsu í brennipunkt. Lét ráðherra þessi orð falla á stofnfundi félags áhugamanna um lýðheilsu í Reykjavík sl. mánudag. Ráðherra fagnaði félagsstofnuninni og sagði meðal annars á fundinum: "Það hefur oft verið sagt um okkur Íslendinga að það lægi betur fyrir okkur að vinna með efni en afstrakt hugmyndir. Ég veit svo sem ekkert um hvort þetta er rétt, en hins vegar hafa húsnæðismál oftsinnis verið rædd í tengslum við forvarnir og lýðheilsu. Og sennilega hefur væntumþykja manna og áhugi á lýðheilsu ráðið því að menn vildu helst hafa öfluga lýðheilsustofnun í þessu merkilega húsi sem þið völdum sem fundarstað fyrir stofnfund ykkar ágæta félags. Byggingin, eða húsið sjálft, eða staðsetningin að öðru leyti getur aldrei orðið ráðandi í þessum efnum. Er í þessu sambandi mikilvægast að skilgreina þarfir borgaranna, og samfélagsins, fyrir tiltekna þjónustu, meta síðan hvernig þjónustunni verður best fyrirkomið, hver á að sjá um hana og hvar höfuðstöðvarnar verða. Á tækniöld er það raunar léttast og fljótlegast. Það er meira að segja þannig að með samskiptaháttum nútímans erum við ekki bundin af því að setja höfuðstöðvar svona stofnunar niður í miðborg Reykjavíkur. Lýðheilsustofnun er svolítið eins og félagið sem þið eruð að stofna, það er starfsemin sjálf sem skiptir mestu máli, en ekki hvar félagið hefur aðsetur. Von mín er sú að Félag um lýðheilsu verði jafn öflugt og málstaðurinn er góður."

HIV-smit og alnæmi - uggvænlegar staðreyndir
Á síðasta ári sýktust 5,3 milljónir manna í heiminum og 3 milljónir létust vegna alnæmis. Aldrei hafa jafn margir látist á einu ári vegna sjúkdómsins. Í ársbyrjun 2001 voru meira en 36 milljónir manna með HIV-smit eða alnæmi. Þessar og fleiri uggvænlegar staðreyndir um þá ógn sem heimsbyggðinni stafar af HIV-veirunni er að finna í samantekt á heimasíðu landlæknisembættisins. Þar kemur einnig fram að samkvæmt skráningum hér á landi höðfu þann 30. nóvember s.l. verið tilkynnt samtals 154 tilfelli HIV-sýkingar frá upphafi. Þar af hafa 52 sjúklingar greinst með alnæmi og 35 látist af völdum sjúkdómsins. Á þessu ári hafa níu karlar og tvær konur greinst með HIV-smit. Einn sjúklingur hefur greinst með alnæmi og einn sjúklingur hefur látist á árinu. Dregið hefur úr nýgengi alnæmis og dánartala lækkað, einkum frá árinu 1996. Flestir þeirra sem greinst hafa á undanförnum árum eru gagnkynhneigðir. Þetta er gagnstætt því sem var í upphafi alnæmisfaraldursins en þá voru flestir samkynhneigðir sem talið var að hefðu smitast við kynmök.
NÁNAR Á VEF LANDLÆKNIS...

Endurskoðun laga um geislavarnir
Heilbrigðis og tryggingamálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um geislavarnir. Gildandi lög um geislavarnir eru frá árinu 1986. Markmið með endurskoðun laga um geislavarnir er fyrst og fremst aðlögun íslenskrar löggjafar og framkvæmd hennar að tilskipunum Evrópusambandsins um geislavarnir og framkvæmd þeirra auk þess að taka mið af breyttum áherslum við framkvæmd geislavarna.
FRUMVARPIÐ...



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
7. desember 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum