Hoppa yfir valmynd
22. mars 2021 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Þórdís Kolbrún undirritaði samevrópska ráðherrayfirlýsingu um nýsköpun og sprotafyrirtæki

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur undirritað samevrópska ráðherrayfirlýsingu um Evrópusambandið sem öflugt samfélag frumkvöðla og sprotafyrirtækja (e. The EU Startup Nations Standard of Excellence). Yfirlýsingin er hluti af fundi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og EES-þjóðanna um stafræna þróun (e. Digital Day). 

Markmiðið með yfirlýsingunni er að fjölga frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum í Evrópu og styðja við vöxt þeirra, enda geta fyrirtækin þá lagt sitt að mörkum til aukinnar samkeppnishæfni og verðmætasköpunar innan Evrópu. Nauðsynlegt er að búa frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum víðsvegar um Evrópu hagstæðari rekstrarskilyrði til vaxtar og þróunar.   

„Það er ánægjulegt að sjá áherslur og viðmið Evrópusambandsins í þessari yfirlýsingu falla vel að nýsköpunarstefnu íslenskra stjórnvalda og þeim aðgerðum sem við höfum verið að innleiða á undanförnum árum. Það styrkir okkur í trúnni um að við séum á réttri leið í uppbyggingu sprotaumhverfis og nýsköpunar hér á landi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra. 
 
Aðilar yfirlýsingarinnar hafa komið sér saman um tiltekin viðmið sem eru til vitnis um hagstætt umhverfi og vaxtarskilyrði fyrir sprotafyrirtæki í Evrópu, svo sem:  

- Einfalt og skilvirkt regluverk fyrir stofnun og rekstur fyrirtækja. 

- Áherslur á að laða sérfræðiþekkingu  til Evrópu. 

- Rekstur stafrænna gátta með upplýsingum fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki.  

- Öflugt umhverfi fjárfestinga gegnum fjárfestingasjóði. 

- Áhersla á nýsköpun í opinberum innkaupum.  

- Áhersla á lýðræðisleg og samfélagsleg gildi í uppbyggingu sprotaumhverfis og nýsköpunar í Evrópu.  


Hér má nálgast ráðherrayfirlýsingu um mikilvægi öflugra gagnatenginga (e. The EU Startup Nations Standard of Excellence) 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum