Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2022 Innviðaráðuneytið

Grænbók í málaflokki sveitarfélaga í samráðsgátt

Drög að grænbók um stöðumat og valkosti íslenskra sveitarfélaga til framtíðar hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Drögin eru liður í stefnumótun stjórnvalda í málaflokki sveitarfélaga en þetta í annað skiptið sem stefna og aðgerðaáætlun er sett fyrir málaflokkinn. Hægt er að senda inn umsögn eða ábendingar til og með 16. desember nk.

Skýrslan byggist meðal annars á fyrirliggjandi gögnum, upplýsingum frá hagsmunaaðilum og innsendum svörum frá 35 sveitarfélögum af 64 um stöðu, áskoranir og tækifæri sveitarfélaganna og sveitarfélagastigsins í heild sinni. Þá var stefnumörkun stjórnvalda höfð til hliðsjónar og leitað í smiðju sérfræðinga á ýmsum sviðum hjá ráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. 

Grænbókarvinnan hefur í senn leitt í ljós knýjandi áskoranir og spennandi tækifæri á sveitarstjórnarstiginu. Sem dæmi um áskorun má nefna viðfangsefni á sviði fjármála, viðbragða við lýðfræðiþróun og loftslagsvá. Af tækifærum má nefna framfarir á sviði stafrænnar umbreytingar og íbúalýðræðis. Síðast en ekki síst fela ýmis viðfangsefni hvort tveggja í sér tækifæri og knýjandi áskoranir. Í því sambandi má nefna fjölgun innflytjenda með hliðsjón af framlagi þeirra til vinnumarkaðarins og þörf þeirra fyrir þjónustu og stuðning við að aðlagast samfélaginu. 

Almenningur er hvattur til að kynna sér efni grænbókarinnar og senda umsögn sína inn í samráðsgáttina. Eftir að unnið hefur verið upp úr umsögnum í gáttinni verður endanlega útgáfa grænbókarinnar birt almenningi. Í kjölfarið mun starfshópur á vegum innviðaráðherra vinna úr skýrslunni og frekara samráði stefnuskjal eða svokallaða hvítbók.

Stefnt er að því að þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í málaflokki sveitarfélaga verði lögð fram á fyrsta fjórðungi næsta árs. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum