Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 31/2009. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. febrúar 2010

í máli nr. 31/2009:

Omnis ehf.

gegn

Akraneskaupstað

Með bréfi, dags. 29. september 2009, kærir Omnis ehf. ákvörðun bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar 22. september 2009 um framlengingu á samningi við Tölvuþjónustuna SecurStore ehf. um kaup á tölvuþjónustu fyrir sveitarfélagið til næstu 18 mánaða.

Kærandi krefst þess aðallega að stöðvuð verði gerð fyrirhugaðs samnings kærða og Tölvuþjónustunnar SecurStore ehf. og innkaup samkvæmt honum á grundvelli ákvörðunar bæjarstjórnar 22. september 2009. Þá krefst kærandi þess að lagt verði fyrir kærða að bjóða út innkaup á tölvuþjónustu. Jafnframt er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

Hafi samningur þegar verið gerður samkvæmt ofangreindri ákvörðun krefst kærandi þess til vara að sá samningur verði úrskurðaður ólögmætur og kærunefnd útboðsmála láti uppi álit á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda.

      Kærði, Akraneskaupstaður, skilaði athugasemdum í tilefni af stöðvunarkröfu kæranda 12. október 2009. Þá barst greinargerð kærða, dags. 5. nóvember 2009, kærunefnd útboðsmála 9. sama mánaðar. Kærði krefst sýknu af kröfum kæranda.

Með ákvörðun 15. október 2009 tók kærunefnd útboðsmála afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis kærða og var henni hafnað.

Kærandi gerði kröfu um aðgang að öllum gögnum málsins með bréfi 27. nóvember 2009. Kærða var ítrekað gefinn frestur til að svara beiðni kæranda um aðgang að gögnum en ekkert svar barst.

Kærunefnd útboðsmála telur rétt að taka afstöðu til framangreindrar kröfu kæranda um afhendingu gagna þegar í stað. Úrlausn um kröfur kæranda að öðru leyti bíður hins vegar endanlegs úrskurðar.

 

I.

Í  bréfi kæranda 27. nóvember 2009 kemur fram að í greinargerð kærða frá 5. nóvember 2009 sé vísað til kostnaðartalna vegna kaupa kærða á þjónustu Tölvuþjónustunnar SecureStore ehf. á árunum 2008 og 2009. Telur kærandi óljóst hvað felist í framangreindum tölum og einnig að þær stangist á við þær tölur sem fram hafi komið á bæjarstjórnarfundum og í gögnum sem afhent hafi verið kjörnum fulltrúum í bæjarstjórn. Fer kærandi því fram á að kærunefnd útboðsmála afli og afhendi fylgiskjöl nr. 18 og 19 með greinargerð kærða. Leggur kærandi áherslu á að vegna útreikninga um hugsanlegan kostnað kærða vegna kaupa á tölvuþjónustu í framtíðinni sé nauðsynlegt að fyrir liggi með óyggjandi hætti hverjar hafi verið greiðslur kærða til Tölvuþjónustunnar SecureStore ehf. á árinu 2009 fyrir einstaka þætti veittrar tölvuþjónustu. Telur kærandi að ekki sé nauðsynlegt að einingaverð komi fram í þessum upplýsingum.

         

II.

Kærði svaraði ekki fyrirspurn kæranda um aðgang að fylgiskjölum nr. 18 og 19. Í greinargerð kærða 5. nóvember 2009 er hins vegar óskað trúnaðar um yfirlit yfir greiðslur til Tölvuþjónustunnar SecureStore ehf., fjárhæðir samninga og aðrar upplýsingar með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Kærði fer þess á leit að viðkvæmar upplýsingar verði afmáðar telji kærunefnd útboðsmála nauðsynlegt að senda einhver þau gögn sem kærði leggur fram.

 

III.

Almennt afhendir kærunefnd útboðsmála ekki gögn sem merkt eru trúnaðargögn nema að fram hafi komið sérstakar óskir um aðgang að þeim gögnum frá öðrum hvorum málsaðila. Óskar nefndin þá eftir röksemdum frá gagnaðila hvers vegna nauðsyn sé að gæta trúnaðar um tiltekin atriði í skjölum eða um skjöl í heild. Svar gagnaðila er þá metið sjálfstætt. Miðað við vinnuhefðir nefndarinnar hefur ekki verið látið ráða úrslitum hvort gögn séu stimpluð sem trúnaðarmál, heldur metur nefndin það hverju sinni. Kjósi gagnaðili að svara ekki fyrirspurn nefndarinnar sem hér um ræðir áskilur nefndin sér rétt til að afhenda umrædd gögn nema þau hafi að mati nefndarinnar að geyma upplýsingar sem bersýnilega hljóta að vera trúnaðarmál.

Eins og fram hefur komið var kærða ítrekað gefinn kostur á að svara fyrirspurn nefndarinnar um afstöðu til afhendingar umræddra gagna, en hann kaus að svara ekki þeirri málaleitan. Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið telur nefndin því rétt að afhenda kæranda fylgiskjöl nr. 18 og 19.

 

Ákvörðunarorð:

Afhenda skal kæranda, Omnis ehf., fylgiskjöl nr. 18 og 19, sem fylgdu greinargerð kærða, Akraneskaupstaðar, dags. 5. nóvember 2009.

         

                      Reykjavík, 18. febrúar 2010.

 

Páll Sigurðsson

 Stanley Pálsson

         Auður Finnbogadóttir

 

 

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 18. febrúar 2010.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum