Hoppa yfir valmynd
9. desember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 648/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. desember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 648/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100013

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 5. október 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Gíneu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. september 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 16. júlí 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. hinn 30. ágúst 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 17. september 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 5. október 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 20. október 2021. Í ljósi frásagnar kæranda og skýrslna um heimaríki taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna ótryggs ástands, fátæktar og handahófskennds ofbeldis.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til greinargerðar hans til Útlendingastofnunar hvað varðar málavexti. Þar kemur fram að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að vera fæddur í Conakry í Gíneu og tali bæði tungumálin pular og frönsku. Hann hafi búið í Gíneu allt til ársins 2018 þegar hann hafi yfirgefið landið og farið til Senegal vegna stjórnmálaástandsins í Gíneu. Hann hafi farið til Senegal og þaðan til Íslands því hann hafi misst foreldra sína, auk þess sem mikið hafi verið um verkföll og enga atvinnu að fá. Kærandi hafi alist upp í […] og sé af Peul ættbálknum, en öðrum ættbálkum í landinu líki ekki við Peul fólkið. Þá hafi kærandi greint frá því að í Gíneu ríki ekki friður og að lögreglan starfi ekki eins og hún eigi að gera. Foreldrar kæranda hafi tekið hann úr skóla þar sem pólitískur órói hafi ríkt í landinu og ofbeldi sé algengt. Mótmæli og verkföll séu jafnframt algeng og þegar þau standi yfir loki fólk sig inni. Fólk sé jafnvel ekki öruggt heima hjá sér þar sem lögreglan noti skotvopn og hætta sé á að lögreglan skjóti á hús þess. Þá séu almennir borgarar sem ekki taki þátt í verkfallsaðgerðum eða mótmælum stundum skotnir. Þá hafi kærandi greint frá því að forsetinn og stuðningsmenn hans ættu í deilum við stjórnarandstöðuna og milli þessara fylkinga blossi reglulega upp óeirðir og bardagar.

Í greinargerð kæranda er fjallað um aðstæður í Gíneu. Þar er m.a. gerð grein fyrir ástandi mannréttindamála í landinu með vísan til skýrslna alþjóðlegra stofnana og mannréttindasamtaka. Meðal þess sem fjallað er um er valdarán gíneska hersins hinn 5. september 2021 og þeirri óvissu sem því fylgir, spillingu innan stjórnvalda, stöðu þjóðernishópa í landinu, mannréttindabrot af hálfu stjórnvalda og stöðu heilbrigðiskerfisins og efnahags í landinu.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í heimaríki sínu vegna aðstæðna þar í landi. Frásögn kæranda sé stutt, einföld, skýr, trúverðug og samræmis gæti í henni. Jafnframt fái frásögn hans stuðning í almennum heimildum varðandi aðstæður í Gíneu og vangetu stjórnvalda til að vernda borgara landsins. Þá sé almennt ástand í Gíneu slæmt, en meðal þess sem einkennt hafi landið í langan tíma sé órói og öryggisleysi. Foreldrar kæranda hafi tekið hann snemma úr skóla vegna óöryggis í landinu. Þá væru mótmæli og lögregluofbeldi daglegt brauð. Ástandið hafi versnað síðan kærandi hafi yfirgefið Gíneu og nú ríki óvissa um framtíð landsins í kjölfar nýlegs valdaráns. Átök milli þjóðernis- og trúarhópa séu jafnframt algeng í Gíneu. Malinké þjóðernishópurinn hafi mikil áhrif við stjórn landsins og í öryggissveitum þess miðað við stærð hans og virðist sem þeir þjóðernishópar sem séu í minnihluta á hverju svæði búi við mismunun, þá einkum Peul þjóðarbrotið sem hafi átt undir högg að sækja í þjóðernisátökum. Staða kæranda í Gíneu yrði því bæði ómannúðleg og vanvirðandi.

Kærandi gerir athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, m.a. við mat stofnunarinnar á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og að þær bendi ekki til þess að hann eigi á hættu ofsóknir. Stofnunin hafi ekki tekið nægilegt tillit til persónulegra aðstæðna kæranda sem og síðustu sviptinga í stjórn Gíneu.  

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna. Í Gíneu myndi kærandi ekki njóta stuðnings fjölskyldu heldur þyrfti hann líklega að styðja fjölskyldu sína sem lifi við sárafátækt. Félagslegt kerfi landsins byggi á því að fólki standi til boða aðstoð fjölskyldu. Vegna þjóðernis- og trúarátaka yrði erfitt fyrir kæranda að hefja nýtt líf í Gíneu eða flytja sig um set. Þá sé spilling viðvarandi í Gíneu, mannréttindabrot viðgangist í skjóli refsileysis og glæpir séu algengir. Stjórnvöld í Gíneu hafi sýnt fram á getuleysi til að vernda almenna borgara. Þá verði að líta til þess hvaða áhrif Covid-19 faraldurinn, og það ástand sem hann hafi skapað, hafi á stöðu kæranda. Kærandi, sem einstaklingur á flótta, kunni að vera í hópi þeirra sem verði fyrir hvað verstum áhrifum vegna faraldursins.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til að sanna á sér deili. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti og var því leyst úr auðkenni hans á grundvelli mats á trúverðugleika. Útlendingastofnun komst að þeirri niðurstöðu að kærandi væri frá Gíneu. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að hnekkja framangreindu mati Útlendingastofnunar og verður því lagt til grundvallar að kærandi sé gíneskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Gíneu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2020 Country Report on Human Rights Practices: Guinea (U.S. Department of State, 30. mars 2021);
  • 2020 Report On International Religious Freedom (U.S. Department of State, 12. maí 2021);
  • Amnesty International Report 2020/21 – Guinea (Amnesty International, 7. apríl 2021);
  • BTI 2020 Country Report – Guinea (Bertelsmann Stiftung, 2020);
  • Conflicts between the Malinke and Peul in Conakry (EASO, 27. september 2018);
  • Country Cooperation Strategy at a glance: Guinea (World Health Organization, maí 2015);
  • Freedom in the World 2021 – Guinea (Freedom House, 3. mars 2021);
  • Guinea 2020 Crime & Safety Report (OSAC, 13. mars 2020);
  • Guinea’s junta releases transition charter toward elections (vefsíða AP News, 28. september 2021);
  • Guinea: Can Doumbouya lead the country in a peaceful transition? (https://www.theafricareport.com/129133/guinea-can-doumbouya-lead-the-country-in-a-peaceful-transition/, 22. september 2021);
  • Guinea – Covid-19 Overview (https://coronavirus.jhu.edu/region/guinea, skoðað 9. desember 2021);
  • Guinea: Ethnic composition of police and military forces; treatment of Peul by authorities, including police and military, and in cases where a Peul individual requires state protection; information on Camp Makambo, including location and purpose (2009-May 2014) (Immigration and Refugee Board of Canada, 7. maí 2014);
  • Guineans could come out better only if they face up to, and slay ogre of ethnicity (https://www.theeastafrican.co.ke/tea/rest-of-africa/guineans-could-come-out-better-if-they-slay-ogre-of-ethnicity-3556296, 20. september 2021);
  • Human Rights in Africa: Review of 2019 – Guinea (Amnesty International, 8. apríl 2020);
  • Situation of human rights in Guinea (United Nations High Commissioner for Human Rights, 17. janúar 2017);
  • The World Factbook – Guinea (CIA, uppfært 16. nóvember 2021);
  • Upplýsingasíða Armed Conflict Location & Event Data Project Guinea 2021 (https://acleddata.com/dashboard/#/dashboard, skoðað 9. desember 2021);
  • World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Guinea (Minority Rights Group International, uppfært í janúar 2018) og
  • World Report 2021: Guinea (Human Rights Watch, 13. janúar 2021).

Gínea er stjórnarskrárbundið lýðveldi með um 13 milljónir íbúa. Árið 2010 komst ríkið undir borgaraleg yfirráð, í kjölfar valdaráns eftir áratugalöng völd einræðisstjórna að loknu nýlendutímabili Frakka, en Gínea varð sjálfstætt ríki árið 1958. Ríkið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum hinn 12. desember 1958. Árið 1989 gerðist ríkið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá gerðist ríkið aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1978 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2013.

Samkvæmt The World Factbook var breyting á stjórnarskrá Gíneu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu í mars 2020. Sú breyting hafi lengt kjörtímabil forseta og gert sitjandi forseta, Alpha Condé, kleift að hefja kjörtímabil sín upp á nýtt. Síðar sama ár hafi Condé sigrað forsetakosningar í landinu og hafið sitt þriðja kjörtímabil. Sigur forsetans hafi verið mjög umdeildur og hinn 5. september 2021 hafi herforinginn Mamady Doumbouya leitt valdarán af hálfu hersins þar sem Condé hafi verið handtekinn. Þá hafi stjórnarskrá landsins jafnframt verið ógilt og ríkisstjórnin leyst upp. Hinn 17. september 2021 hafi Doumbouya verið lýstur forseti Gíneu. Í lok september 2021 hafi verið gefinn út stofnsáttmáli þar sem Doumbouya hafi verið gerður að bráðabirgðaforseta Gíneu um ótilgreindan tíma. Hinn 1. október 2021 hafi Doumbouya formlega svarið embættiseið. Samkvæmt fréttavefnum AP mælir stofnsáttmálinn m.a. fyrir um verkefni og skyldur bráðabirgðaríkisstjórnarinnar og er lagt bann við því að stjórnin er kom að valdaráninu geti tekið þátt í næstu kosningum og tekið sæti í nýrri ríkisstjórn. Jafnframt sé lagt bann við því að meðlimir fyrrum ríkisstjórnar Gíneu, þ. á m. Alpha Condé, bjóði sig fram í næstu kosningum. Þá sé mælt fyrir um bráðabirgðaráð sem muni þjóna sem þing. Ráðið verði skipað 81 fulltrúa, allt frá meðlimum stjórnmálaflokka til ungmennaleiðtoga, öryggissveita, verkalýðsfélaga, o.fl. Þá verði ráðinu einnig gert að tryggja að a.m.k. 30% fulltrúanna séu konur. Stofnsáttmálinn hafi verið skrifaður eftir nokkurra vikna fundarhöld við mismunandi aðila samfélagsins, m.a. trúar- og stjórnmálaleiðtoga og meðlimi sambandsins Economic Community of West African States (ECOWAS). ECOWAS hafi þó fordæmt valdaránið og kallað eftir því að Condé verði sleppt. Þá hafi sambandið jafnframt beitt refsiaðgerðum gagnvart aðilunum sem staðið hafi að baki valdaráninu og fjölskyldum þeirra. Herforinginn Doumbouya og aðrir meðlimir hersins sem stóðu að baki valdaráninu hafi lýst því yfir, samkvæmt fréttavefnum BBC, að herinn hafi ekki átt annarra kosta völ en að fremja valdarán vegna hömlulausrar spillingar, efnahagslegrar óstjórnar og mannréttindabrota í tíð Condé. Þá hafi Doumbouya lýst því yfir að markmið bráðabirgðaríkisstjórnarinnar væri m.a. að koma aftur á lýðræði í ríkinu og tryggja mannréttindi íbúa Gíneu.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020, um ástand mannréttindamála í Gíneu, kemur m.a. fram að helstu mannréttindabrot í ríkinu sé handahófskennd morð af hálfu yfirvalda, pyndingar til að ná fram játningum, handahófskenndar handtökur og spilling á öllum stigum ríkisvalds. Enn fremur takmarkanir á fjölmiðla- og fundafrelsi, ofbeldi gegn konum og stúlkum, refsivæðing samkynhneigðar og barnaþrælkun. Refsileysi meðal opinberra starfsmanna sé vandamál en yfirvöld hafi gripið til lágmarksaðgerða í þeim tilgangi að lögsækja og sakfella embættismenn sem brotið hafi af sér. Þá kemur fram í framangreindri skýrslu að varnarmálaráðuneyti Gíneu hafi eftirlit með liði herþjálfaðra lögreglumanna (e. gendarmerie) en öryggismálaráðuneyti ríkisins hafi eftirlit með ríkislögreglunni. Bæði lögregluembættin fari með það hlutverk að tryggja almennt öryggi innanlands en einungis geti lið herþjálfaðra lögreglumanna handtekið her- og lögreglumenn. Her landsins beri ábyrgð á öryggi ríkisins út á við en fari jafnframt með ákveðnar skyldur innanlands.

Samkvæmt framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins mælir stjórnarskrá Gíneu fyrir um sjálfstæði dómstóla. Þó sé mikil spilling innan dómsvaldsins sem einkennist helst af frændhygli sem takmarki skilvirkni dómsvaldsins. Þá sé skortur á hæfum lögfræðingum, auk þess sem refsilöggjöf ríkisins sé úrelt. Oft hafi dómsúrskurðum jafnframt ekki verið framfylgt af yfirvöldum. Íbúar treysti margir hverjir á óformlegt menningartengt dómskerfi innan síns þorps eða hverfis. Skilin á milli hins formlega og óformlega dómsvalds í ríkinu séu óljós og í sumum tilvikum hafi yfirvöld vísað málum frá hinu formlega dómsvaldi til hins óformlega dómskerfis. Að sama skapi geti málsaðilar leitað réttar síns innan formlega dómsvaldsins sé mál þeirra ekki leyst innan hins óformlega dómskerfis.

Í skýrslu BTI frá árinu 2020 og skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi frá 2021, kemur fram að meginþorri landsmanna í Gíneu séu múslimar, eða um 85% þjóðarinnar. Múslimar séu í miklum meirihluta í öllum fjórum héruðum (e. region) landsins. Kristnir séu um 8% af þjóðinni og búi aðallega í stórum borgum, þ. á m. Conakry, höfuðborg landsins. Um 7% íbúa landsins aðhyllist hefðbundin afrísk trúarbrögð. Í skýrslu BTI kemur fram að veraldarhyggja sé almennt viðurkennd af yfirvöldum og samfélaginu í Gíneu. Trúarbrögð hafi einungis lítil áhrif á réttarskipan og pólitískar stofnanir í landinu. Stjórnarskrá Gíneu leggi bann við mismunun á grundvelli trúarbragða og kveði á um að þegnum landsins sé frjálst að ákveða hverrar trúar þeir séu. Þá kveði landslög á um að skrifstofa trúmála (e. The Secretariat General of Religious Affairs – SRA) skuli samþykkja umsóknir allra trúarhópa sem hafi verið greitt fyrir og séu rétt útfylltar.

Samkvæmt The World Factbook er þjóðarbrotið Peul, sem nefnist öðru nafni Fulani, það fjölmennasta í Gíneu en um 33,4% íbúa landsins tilheyra þjóðarbrotinu. Á vefsíðu Minority Rights Group International um minnihlutahópa og frumbyggja kemur m.a. fram að þjóðarbrotið samanstandi að miklu leyti af nautgripahjarðmönnum. Nokkur spenna sé á milli Peul og smærri þjóðarbrota sem í gegnum tíðina hafi verið undirokuð af Peul. Næststærsta þjóðarbrotið sé Malinké, sem samanstandi af svokölluðu Mandé fólki, en þjóðarbrotið myndi um 31,1% þjóðarinnar. Í skýrslu EASO, um átök milli þjóðarbrotanna Peul og Malinké í borginni Conakry, kemur fram að þrátt fyrir að Peul sé stærsta þjóðarbrotið í Gíneu og teljist helsti fulltrúi vitsmunalegs, efnahagslegs og trúarlegs valds, sé það álitið ógn af öðrum samfélögum í landinu. Frá sjálfstæði Gíneu árið 1958 hafi landið þó aldrei haft forseta af Peul þjóðarbroti. Í forsetakosningum árið 2010 hafi Alpha Condé, sem tilheyri Malinké, sigrað frambjóðandann Cellou Dalein Diallo, sem tilheyri Peul. Talsverð átök hafi myndast milli þjóðarbrotanna í Conakry og öðrum borgum í kjölfar sigurs Condé og hafi öryggissveitir landsins brugðist við með óhóflegri valdbeitingu gagnvart meðlimum Peul þjóðarbrotsins. Reglulega hafi komið upp átök milli þjóðarbrotanna síðan þá og hafi meðlimir beggja þjóðarbrota m.a. unnið skemmdarverk á eignum mótaðila, farið ránshendi um verslanir og kveikt í eigum hvors annars. Þá hafi a.m.k. tólf einstaklingar látist í mótmælum í febrúar og mars 2018.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði  ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd aðallega á því að hann eigi á hættu ofsóknir vegna almenns ástands í heimaríki sínu. Handahófskennt ofbeldi, óeirðir og verkföll séu meðal þess sem einkenni landið og mikil óvissa ríki í kjölfar nýlegs valdaráns hersins. Þá tilheyri kærandi þjóðarbrotinu Peul sem eigi undir högg að sækja í Gíneu.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann tilheyri þjóðarbrotinu Peul. Kærandi kvað önnur þjóðarbrot líka illa við Peul og að mikil spenna væri milli þjóðarbrota í landinu. Frásögn kæranda um deilur og átök milli Peul þjóðarbrotsins, sem kærandi kveðst tilheyra, og annarra þjóðarbrota, einkum Malinké þjóðarbrotsins, fær stoð í þeim heimildum sem kærunefnd hefur skoðað. Jafnframt benda heimildir til þess að öryggissveitir hafi beitt meðlimi Peul þjóðarbrotsins óhóflegu valdi á mótmælum vegna kosninga í landinu. Þrátt fyrir það er það mat kærunefndar að heimildir bendi ekki til þess að staða þjóðarbrotsins sé svo alvarleg að hún geti talist ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað er Peul fjölmennasta þjóðarbrot Gíneu, n.t.t. tæp 34% af íbúum landsins og er það álitið ógn af öðrum þjóðarbrotum. Þá hafi mátt rekja átök milli Peul og Malinké að miklu leyti til kosninga í landinu og þá einkum endurkjörs Alpha Condé, sem tilheyrir Malinké þjóðerninu. Kærunefnd horfir til þess að ný bráðabirgðaríkisstjórn hefur nú tekið við í kjölfar valdaráns þar sem Condé var steypt af stóli og hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að markmið þeirra sé að koma aftur á lýðræði í landinu og tryggja mannréttindi íbúa Gíneu. Af þeim heimildum sem kærunefnd hefur skoðað er ekkert sem bendir til þess að átök hafi aukist eða versnað í landinu þrátt fyrir aukna óvissu og óstöðugleika í kjölfar valdaránsins. Þá kvaðst kærandi sjálfur ekki hafa upplifað ofbeldi í Gíneu af fyrstu hendi en að hann hafi þó orðið vitni að slíku. Kærunefnd telur því, með hliðsjón af framburði kæranda og heimildum um heimaríki hans, að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hans bíði ofsóknir í heimaríki á grundvelli þess að hann tilheyri Peul þjóðarbrotinu. Að mati kærunefndar verður heldur ekki séð að kærandi hafi sætt ofsóknum af öðrum ástæðum samkvæmt 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga eða eigi á hættu að verða fyrir slíku.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd aðallega á því að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í heimaríki sínu vegna almennra aðstæðna þar í landi. Upplýsingar um aðstæður í heimaríki kæranda beri glögglega með sér að almennt öryggisástand sé verulega ótryggt, en meðal þess sem einkennt hafi landið í langan tíma sé órói og öryggisleysi. Kærandi hafi m.a. þurft að hætta snemma í skóla vegna óöryggis í landinu. Ástandið hafi versnað síðan kærandi hafi yfirgefið Gíneu og nú ríki óvissa um framtíð landsins í kjölfar nýlegs valdaráns. Þá beri heimildir með sér að átök á milli þjóðernishópa séu tíð í landinu og að Malinké ættbálkurinn sé við stjórnvölinn.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað benda ekki til þess að útbreidd átök eigi sér stað í Gíneu, þrátt fyrir nýlegt valdarán af hálfu hersins. Samkvæmt gögnum ACLED (The Armed Conflict Location & Event Data Project) hafa óeirðir, átök og ofbeldi gegn borgurum í Gíneu farið talsvert dvínandi á síðasta ársfjórðungi 2021 samanborið við annan ársfjórðung sama árs og hefur dauðsföllum fækkað í samræmi við það. Það sem af er ári 2021 hafa verið skráðir 14 bardagar, 117 óeirðir, 5 tilvik um ofbeldi gegn almennum borgurum og 27 dauðsföll samkvæmt heimildum ACLED. Að virtum framburði kæranda, gögnum málsins og landaupplýsingum er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á því að hann sjái fram á erfiðar félagslegar aðstæður. Kærandi myndi ekki njóta stuðnings fjölskyldu í heimaríki heldur þyrfti hann líklega að styðja fjölskyldu sína sem lifi við sárafátækt. Félagslegt kerfi landsins byggi á því að fólki standi til boða aðstoð fjölskyldu. Þá séu þjóðernis- og trúarátök algeng, sem og mannréttindabrot og glæpir. Þá verði að líta til áhrifa Covid-19 faraldursins og þess ástands sem hann hafi skapað á stöðu kæranda, en þeir sem minna megi sín séu ætíð líklegri til að verða fyrir neikvæðum áhrifum en aðrir þegar slíkt neyðarástand skapist.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum. Ekki verður annað ráðið af frásögn kæranda og gögnum málsins en að kærandi sé vinnufær. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðabankans hefur atvinnuleysi í Gíneu verið undir 5% síðan árið 1991 og mældist það um 4,35% árið 2020. Þá hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að kærandi sé almennt heilsuhraustur og vinnufær. Kærandi kvaðst hafa lært að verða bílstjóri og hafi starfað við það í Gíneu. Jafnframt kvaðst hann eiga fjölskyldu í Gíneu, m.a. tvo bræður og eina systur.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má ráða að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki að einhverju leyti í heimaríki kæranda þá verði ekki talið að um viðvarandi mannréttindabrot sé að ræða eða að yfirvöld geti ekki veitt þegnum sínum vernd. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður kæranda og mats á trúverðugleika hans er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að félagslegar eða almennar aðstæður sem bíða kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Kærandi gerði í greinargerð sinni athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans. Kærunefnd hefur að framan tekið afstöðu til þeirra að því leyti sem þær kunna að hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands hinn 8. júlí 2021 og sótti um alþjóðlega vernd hinn 16. júlí 2021. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu. 

 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum