Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fréttaannáll fjármála- og efnahagsráðuneytisins árið 2022

Úr fréttaannál ráðuneytisins fyrir árið 2022. - mynd

Á árinu 2022 voru viðfangsefni ráðuneytisins sem fyrr margvísleg og fjölbreytt líkt og fram kemur í meðfylgjandi fréttaannál. Fyrstu mánuði ársins voru verkefni sem tengdust ráðstöfunum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru ofarlega á baugi, en eftir því sem faraldurinn rénaði urðu þau umfangsminni. Þær aðgerðir sem stjórnvöld gripu til í því skyni að koma til móts við einstaklinga og fyrirtæki í faraldrinum grundvölluðust á sterkri stöðu ríkissjóðs og reyndust þær áhrifamiklar. Árið 2022 einkenndist af áframhaldandi kröftugum efnahagsbata og sem dæmi vinna nú nærri jafnmargir við ferðaþjónustu og gerðu fyrir faraldurinn.

Á árinu var kynnt fyrsta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2027 með áherslu á hóflegan vöxt útgjalda og áframhaldandi sókn í vaxandi útflutningsgreinum. Einnig var ákveðið í tengslum við fjármálaáætlun að grípa til mótvægisaðgerða til að sporna gegn þenslu og verðbólgu.

Kaupmáttur jókst

Álagningartölur voru birtar í júní og kom þá fram að síðustu árin hafa heildartekjur allra tekjuhópa hækkað og kaupmáttur aukist og allir tekjuhópar greiða minni tekjuskatt en áður, nema þeir sem allra hæstar tekjur hafa.

Meðal annarra stórra mála á könnu ráðuneytisins má nefna áframhaldandi sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka, þar sem markmið sem sett voru um fjárhagslegan ávinning og dreift eignarhald náðust. Söluandvirði hluta í bankanum hingað til nemur þannig rúmlega allri fjárfestingu ríkisins í fjárlagafrumvarpi ársins 2023. Þá var unnið að úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs í samræmi við það hlutverk sem ráðuneytinu var falið með lögum árið 2019.

Sem fyrri ár var unnið að öðrum reglubundnum verkefnum, ekki síst tengdum fjárlögum og fjárlagatengdum málum. Áframhaldandi styrking innviða og grunnþjónustu og áhersla á að verja kaupmátt og viðhalda raunvirði bóta almannatrygginga eru meginstef fjárlaga fyrir árið 2023 sem Alþingi samþykkti í desember.

Í desember var einnig tilkynnt um stuðningsaðgerðir í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði en fjölskyldum sem fá greiddar barnabætur á næsta ári fjölgar um tæplega 3.000 með breytingum á barnabótakerfinu.

Ísland hækkaði mest í stafrænni opinberri þjónustu

Ýmis önnur áherslumál voru fyrirferðarmikil, svo sem efling stafrænna innviða, sem Stafrænt Ísland, eining innan ráðuneytisins, vinnur að í samstarfi við ráðuneyti og stofnanir. Ísland hækkar enn í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu og innviðum en í úttekt Sameinuðu þjóðanna sem gerð er annað hvert ár og kynnt var í október er Ísland nú í 5. sæti af 193 löndum. Af þeim löndum sem eru í tíu efstu sætunum í úttektinni hækkar Ísland mest á milli kannanna og fer úr 12. sæti. Meðal nýsköpunarmála sem ráðuneytið lagði áherslu á má nefna þróun tæknilegra innviða, einföldun stofnanakerfisins og nýtt mannauðstorg ríkisins, sem opnað var á Ísland.is.

Á árinu varð ráðuneytið í öðru sæti stórra stofnana í Stofnun ársins 2021, en könnunin mælir ánægju og vellíðan starfsfólks í starfi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum