Hoppa yfir valmynd
10. desember 2021 Utanríkisráðuneytið

Ísland aðili að evrópsku öndvegissetri um fjölþáttaógnir

Til vinstri eru Auðunn Atlason og Yngvi Hommersand frá sendiráði Íslands í Helsinki. Til hægri eru Iida Karjalainen og Rasmus Hindrén frá Evrópska öndvegissetrinu um fjölþáttaógnir í Helsinki. - myndHybrid CoE

Ísland gerðist í dag aðili að Evrópska öndvegissetrinu um fjölþáttaógnir í Helsinki. Öndvegissetrið var sett á fót árið 2017 með það að markmiði að efla getu ríkja til að mæta áskorunum á sviði fjölþáttaógna. Alls á 31 ríki aðild að setrinu, en Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið taka einnig þátt í starfsemi þess.

„Aðild Íslands að öndvegissetrinu í Helsinki er mikilvægur liður í að auka samstarf við önnur ríki um að takast á við óhefðbundnar öryggisáskoranir. Ég er sannfærð um að þátttaka okkar í störfum öndvegissetursins verði til þess að efla sérþekkingu innan stjórnsýslunnar, í fræðasamfélaginu og meðal almennings. Ísland verður þar með betur í stakk búið til að mæta fjölþáttaógnum sem að okkur steðja,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Auðunn Atlason, sendiherra Íslands í Helsinki, og Teija Tiilikainen, framkvæmdastýra öndvegissetursins, undirritaðu í dag tilkynningu um aðild Íslands, sem var samþykkt einróma á fundi stjórnarnefndar öndvegissetursins 5. nóvember sl.

Evrópska öndvegissetrið í Helsinki vinnur að útgáfu, rannsóknum og greiningum, auk þess að veita þjálfun og halda námskeið og æfingar sem miða að því að auka þekkingu og samstarf á sviði fjölþáttaógna. Sjónum er m.a. beint að viðnámsþoli meginstoða samfélaga, lýðræðisferlum, stofnunum og innviðum. Setrið styður einnig við  upplýsta umræðu meðal almennings um málefni fjölþáttaógna með miðlun og útgáfu. Frekari upplýsingar um starfsemina er að finna á vefsíðu þess.

  • Auðunn Atlason sendiherra og Teija Tiilikainen, framkvæmdastýra setursins - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum