Hoppa yfir valmynd
9. september 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 319/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 319/2021

Fimmtudaginn 9. september 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi uppfylli ekki skilyrði ráðningarstyrks.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysistrygginga 10. mars 2021. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. apríl 2021, þar sem hann hafði fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta þann 11. september 2019. Þann 8. júní 2021 sendi kærandi fyrirspurn til Vinnumálastofnunar um hvort hann gæti tekið þátt í átakinu „Hefjum störf“. Með svari stofnunarinnar, dags. 16. júní 2021, var kæranda tilkynnt að umrætt átak væri almennt háð því að aðili ætti rétt til atvinnuleysisbóta og því gæti hann ekki tekið þátt í umræddu átaki.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. júní 2021. Með bréfi, dags. 29. júní 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 5. ágúst 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. ágúst 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann sé atvinnuleitandi sem eigi þó ekki rétt til atvinnuleysisbóta þar sem hann hafi fullnýtt þann rétt haustið 2019. Þá hafi kærandi fengið starf sem hann hafi misst vegna aðgerða stjórnvalda í Covid. Nú sé kærandi að leita sér að vinnu en eigi ekki möguleika þegar aðrir atvinnuleitendur fái mikla meðgjöf frá Vinnumálastofnun í gegnum „Hefjum störf“ átakið.

Kæranda finnist ólíklegt að markmiðið með „Hefjum störf“ átakinu hafi verið að koma höggi á aðra atvinnuleitendur, líkt og raunin sé. Þá sé erfitt að sjá hvernig það geti talist sanngjarnt að nánast útiloka suma atvinnuleitendur frá því að eiga kost á að fá vinnu með þessum hætti. Enn fremur sé spurning hvort þessi mismunun standist hreinlega stjórnarskrá þar sem ekki megi mismuna borgurunum með jafn ómálefnalegum hætti.

Kærandi vilji benda á 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands en þar segi að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Ljóst sé að sá hópur fólks sem kærandi tilheyri sé ekki jafn fyrir lögum. Rétt sé að minna á að stjórnarskráin sé rétthærri bæði lögum og reglugerðum.

Þó svo að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum óski hann eftir því að fá sömu réttindi og aðrir atvinnuleitendur í gegnum „Hefjum störf“ átakið. Að öðrum kosti séu stjórnvöld að útiloka möguleika hans á að fá atvinnu því að hann sitji ekki við sama borð og aðrir atvinnuleitendur.

Þá óski kærandi eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála, sem sé sá kæruvettvangur sem hann geti leitað til, taki málið til meðferðar. Í huga kæranda sé augljóst að hér sé um hagsmunamál fjölda einstaklinga að ræða sem falli á milli í kerfinu með ómálefnalegum hætti, sem brjóti gegn stjórnarskrá Íslands.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 10. mars 2021. Kæranda hafi verið tilkynnt með erindi, dags. 16. apríl 2021, að umsókn hans hafi verið synjað þar sem hann hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysistrygginga í september 2019. Þá hafi kærandi ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils.

Þann 8. júní 2021 hafi kærandi sent Vinnumálastofnun fyrirspurn. Kærandi hafi óskað eftir upplýsingum um hvort hann gæti tekið þátt í átakinu „Hefjum störf“. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi svarað fyrirspurn kæranda þann 16. júní 2021 og tjáð honum að átakið „Hefjum störf“ væri almennt háð því að aðili væri tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi tjáð kæranda að þar sem hann hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysistrygginga í september 2019 gæti hann ekki tekið þátt í umræddu átaki.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 64. gr. laganna sé ráðherra fengin heimild til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna.

Þann 13. mars 2021 hafi tekið gildi reglugerð nr. 291/2021, um breytingu á reglugerð nr. 918/2020 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Með umræddri reglugerð hafi átakið „Hefjum störf“ verið sett á fót, sem hafi falið í sér aukið svigrúm fyrir atvinnurekendur til þess að ráða atvinnuleitendur til starfa með styrk frá Vinnumálastofnun. 

Með reglugerð nr. 291/2021 hafi fjögur ákvæði til bráðabirgða bæst við reglugerð nr. 918/2020. Samkvæmt I. ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 918/2020 sé Vinnumálastofnun heimilt að gera samning við fyrirtæki um ráðningu atvinnuleitanda sem teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Þá sé Vinnumálastofnun heimilt samkvæmt II. ákvæði til bráðabirgða í sömu reglugerð að gera samskonar samning við frjáls félagasamtök og við stofnun samkvæmt III. ákvæði til bráðabirgða. Í ljósi þess að kærandi hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta í september 2019 hafi hann ekki uppfyllt skilyrði ráðningarstyrks samkvæmt I., II. og III. ákvæði til bráðabirgða.

Samkvæmt IV. ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 918/2020 hafi Vinnumálastofnun verið heimilt að gera samning við stofnun um ráðningu atvinnuleitanda sem fullnýtt hafi rétt sinn til atvinnuleysisbóta á tilteknu tímabili. Í b-lið 4. mgr. í IV. ákvæði til bráðabirgða sé kveðið á um að skilyrði fyrir greiðslu styrksins sé að viðkomandi atvinnuleitandi hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021. Kærandi uppfylli ekki umrætt skilyrði þar sem hann hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta í september 2019.

Þann 30. júní 2021 hafi tekið gildi reglugerð nr. 785/2021, um breytingu á reglugerð nr. 918/2020. Með umræddri reglugerð hafi verið gerð breyting á IV. ákvæði til bráðabirgða. Vinnumálastofnun sé nú heimilt að gera samning við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök um ráðningu atvinnuleitanda sem fullnýtt hafi rétt sinn til atvinnuleysisbóta á tilteknu tímabili. Í b-lið 4. mgr. í IV. ákvæði til bráðabirgða sé þó kveðið á um sama skilyrði og áður hafi verið, það er að viðkomandi atvinnuleitandi hafi fullnýtt rétt sinn til atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021.

Í kæru velti kærandi því upp hvort umrætt átak stjórnvalda, „Hefjum störf“, standist ákvæði stjórnarskrár Íslands og vísi kærandi í því samhengi til 65. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki verði séð að sú regla sem til umfjöllunar sé fari bersýnilega gegn rétthærri lagaheimildum. Ekki fremur en aðrar ávinnslureglur laga um atvinnuleysistryggingar eða reglugerða sem hafi verið settar á þeim grunni. Þar að auki sé Vinnumálastofnun falin framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar og reglugerða, settra með stoð í lögunum. Stofnunin hafi ekki úrskurðarvald um það hvort lagareglur eða reglugerðir sem settar séu með stoð í þeim kunni að fara í bága við einstök ákvæði stjórnarskrárinnar og sé því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem á því byggi. Samkvæmt stjórnskipunarvenju eigi dómstólar úrlausn þess hvort lög frá Alþingi teljist samþýðanleg ákvæðum stjórnarskrárinnar. 

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði ráðningarstyrks samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 918/2020, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði ráðningarstyrks samkvæmt ákvæðum I. til IV. í reglugerð nr. 291/2021, um breytingu á reglugerð nr. 918/2020 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 62. gr. laga laganna er kveðið á um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. greiðast styrkir á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur.

Samkvæmt I. til III. ákvæðis í framangreindri reglugerð nr. 291/2021, um breytingu á reglugerð nr. 918/2020, er Vinnumálastofnun heimilt að gera samning við fyrirtæki, frjáls félagasamtök eða stofnun um ráðningu atvinnuleitanda sem tryggður er innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Samkvæmt IV. ákvæði til bráðabirgða í sömu reglugerð er heimilt að gera samning við stofnun um ráðningu atvinnuleitanda sem hefur fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Þó er gerð krafa um að viðkomandi atvinnuleitandi hafi fullnýtt rétt sinn á tímabilinu 1. október 2020 til 31. desember 2021.

Kærandi byggir á því að framangreind regla sé í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Samkvæmt því ákvæði skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Sömu reglu er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram kemur í 1. mgr. að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.

Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 54/2006 er ráðherra fengin heimild til að setja nánari skilyrði fyrir greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga. Reglugerð nr. 291/2021 var sett með heimild í 2. mgr. 62. gr. og 64. gr. laga nr. 54/2006. Skýrt er kveðið á um að ráðningarstyrkir eigi einungis við um þá atvinnuleitendur sem hafi fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu 1. október til 31. desember 2021. Sú regla er án mismununar gagnvart þeim sem hún gildir um og því bendir ekkert til annars en að jafnræðis hafi verið gætt. Því er ekki fallist á að hin kærða ákvörðun feli í sér brot á jafnræði.

Þar sem kærandi hafði fullnýtt bótarétt sinn í september 2019 var hann ekki tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 eftir þann tíma. Að því virtu eru framangreind skilyrði reglugerðar nr. 291/2021, með síðari breytingum, ekki uppfyllt og er ákvörðun Vinnumálastofnunar því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að A, uppfylli ekki skilyrði ráðningarstyrks, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum