Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Syfjaðir ökumenn álíka varasamir og ölvaðir

Rætt var um áhrif áfengis og lyfja á akstur, slysarannsóknir og umferðaröryggi í alþjóðlegu samhengi á síðari degi Umferðarþings. Gunnar Guðmundsson, sérfræðingur í lungnalækningum, sagði að syfjaðir ökumenn væru jafnhættulegir og þeir sem aka undir áhrifum áfengis og Guðmundur Freyr Úlfarsson, aðstoðarprófessor í byggingaverkfræði við Washingtonháskóla í St. Louis, sagði að samkvæmt erlendum rannsóknum væri eldri ökumönnum hættara við meiri meiðslum en þeim yngri og slysa- og dánartíðni þeirra væri hærri.

Umferdarthing
Kringum 100 manns hafa setið Umferðarþing í dag og í gær.

Birna Hreiðarsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu og varaformaður Umferðarráðs, greindi frá þróun í alþjóðlegu samstarfi í umferðaröryggismálum. Sagði hún að alls væru nú í gildi 56 samningar um umferðarmál sem gerðir hafa á vegum Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu. Hún sagði Evrópusambandið nú aðila að þessum umferðarsamningum og tæki þá beint í löggjöf sína.

Í erindi sínu kom Birna aðeins inn á tölfræði umferðarslysa á heimsvísu. Sagði hún um 1,2 milljónir manna farast í umferðarslysum í heiminum öllum á hverju ári. Um 70% þessara dauðsfalla væru í þróunarlöndunum. Varpaði hún því meðal annars fram hvort Íslendingar gætu lagt eitthvað til málanna í þróunaraðstoð á þessu sviði.

Aðstoðarvegamálastjóri Austurríkis, dr. Günter Breyer, fjallaði um stöðu í umferðaröryggi í Evrópu og leiðir til úrbóta. Hann sagði það stefnu Evrópulanda að draga um helming úr banaslysum í umferð á 10 árum til ársins 2010, úr um 50 þúsund í 25 þúsund. Sagði hann stöðuna þokkalega, talan yrði líklega komin niður í tæp 38 þúsund við lok þessa árs. Aðeins fyrir markvisst átak væri að búast við árangri á þessu sviði. Þar sem fjöldi banaslysa í umferð er mestur er talan um 200 á hverja milljón íbúa og þar sem staðan er best er fjöldi látinna 50 á hverja milljón íbúa. Miðað við þetta er fjöldinn á Íslandi 78 sem aðstoðarvegamálastjórinn sagði góða stöðu. Günter Breyer sagði mikla áherslu einnig lagða á vönduð umferðarmannvirki og sagði þau vera eina af árangursríkustu leiðunum til að fækka umferðarslysum.

Í erindi Gunnars Guðmundssonar kom meðal annars fram að samkvæmt erlendum tölum væri orsök um 30% útafakstra og árekstra við mætingar vegna þess að ökumenn dottuðu eða sofnuðu við stýrið. Á Íslandi sagði hann þessar tölur vera 13% vegna útafaksturs og um 12% vegna árekstra við mætingu. Hann sagði að meðal ráða til að draga úr áhættu vegna slysa af þessum orsökum væri að bæta aðstoðu til hvíldar í þjóðvegakerfinu, að bílstjórar gætu ekið útaf vegi og áð um stund þegar syfja sækir að þeim. Þá sagði hann svefnrannsóknir sýna að iðulega fengjum við of lítinn svefn og ekki nógu góðan svefn og hann sagði unnt að veita árangursríka meðferð við kæfisvefni.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira