Hoppa yfir valmynd
13. janúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 12/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. janúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 12/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21110059

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

  1. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 16. nóvember 2022 kærði maður sem kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Íran (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. október 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 22. júlí 2021. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun hinn 23. september 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 28. október 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 16. nóvember 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 30. nóvember 2021.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana og aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé súnní Kúrdi frá […] umdæmi í Vestur-Aserbaísjan héraði í Íran. Írönsk yfirvöld meini Kúrdum að sækja nám á eigin tungumáli og kærandi sé því ólæs og óskrifandi. Kærandi hafi m.a. starfað sem kúrdískur burðarmaður (kolbar) og hafi starf hans falist í því að flytja vörur ólöglega fram og til baka milli Íran og Írak. Þá hafi hann flutt áróðursgögn sem hafi verið neikvæð í garð íranskra yfirvalda fyrir stjórnmálaflokkinn KDP yfir landamærin. Kærandi hafi oft verið hætt kominn við störf sín, þ. á m. þegar landamæraverðir hafi skotið í átt að honum. Þá viti kærandi til þess að þrír menn sem hafi einnig starfað sem kúrdískir burðarmenn á sama svæði hafi verið teknir af lífi af yfirvöldum. Kærandi hafi flúið Íran í kjölfar þess að meðlimir öryggissveita hafi ruðst inn á heimili kæranda í leit að honum. Frændi kæranda hafi ráðlagt honum að flýja land í miklum flýti og hafi honum því ekki reynst unnt að hafa með sér nokkur gögn.

Aðalkrafa kæranda er byggð á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi og stjórnmálaskoðana, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Írönsk yfirvöld standi fyrir ofsóknum í garð súnní múslima, Kúrda og þeirra sem hafa óæskilegar stjórnmálaskoðanir. Kærandi sé í aukinni hættu í heimaríki vegna starfa sinna í þágu KDP stjórnmálaflokksins. Þá mæti kúrdískir burðarmenn mikilli hörku af hálfu landamæravarða á vegum hins opinbera í Íran og séu myrtir vegna starfa sinna. Kröfu sinni til stuðnings vísar kærandi m.a. til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 349/2018 í stjórnsýslumáli nr. KNU18050019. Þá gerir kærandi fjölmargar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, þ. á m. við mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika frásagnar hans og umfjöllun stofnunarinnar um aðstæður kúrdískra burðamanna í Íran.

Með hliðsjón af framangreindu og að teknu tilliti til heimilda um stöðu mannréttindamála í Íran er varakrafa kæranda byggð á því að hann eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í heimaríki. Kærandi hafi flúið ofsóknir yfirvalda og geti því ekki leitað verndar þeirra. Verði af endursendingu kæranda til heimaríkis telur hann að það myndi brjóta gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Þrautavarakrafa kæranda er byggð á því að viðvarandi mannréttindabrot þrífist gegn Kúrdum í Íran. Írönsk yfirvöld hafi gerst sek um mannréttindabrot gegn Kúrdum og séu því síst til þess fallin að veita þeim vernd. Krafan er einnig byggð á því að kæranda bíði erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki og geti ekki fengið félagslega aðstoð, m.a. vegna mismununar og sinnuleysi íranskra yfirvalda í garð Kúrda.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. október 2021, kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem væru til þess fallin að sanna á honum deili og væri auðkenni hans því ósannað. Kærandi tali hins vegar kúrdísku og hafi sýnt fram á þekkingu á aðstæðum og staðháttum í Íran með trúverðugum hætti í viðtali hjá stofnuninni. Útlendingastofnun hafi því ekki þótt ástæða til að draga í efa að kærandi væri ríkisborgari Íran og hafi það verið lagt til grundvallar við úrlausn málsins.

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda var birt honum 2. nóvember 2021. Lá þá fyrir að kærandi hafði gefið upp tvö mismunandi auðkenni við umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, dags. 22. júlí 2021, þ.e. […], fd. […] og […], fd. […]. Þá lá fyrir svar grískra yfirvalda, dags. 1. nóvember 2021, þar sem fram kemur að kærandi sé skráður í kerfum þeirra undir auðkenninu […], fd. […] og ríkisborgari Íraks. Samkvæmt svarinu var meðfylgjandi afrit af vegabréfi sem kærandi hafði framvísað við umsókn um alþjóðlega vernd í Grikklandi.

Með tölvubréfi, dags. 13. desember 2021, óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um af hverju kærandi hefði ekki verið spurður út í framangreind atriði við málsmeðferð Útlendingastofnunar, þ. á m. af hverju hann sé skráður sem írakskur ríkisborgari í Grikklandi. Þá óskaði nefndin eftir upplýsingum um af hverju stofnunin hefði lagt til grundvallar að kærandi sé frá Íran, m.a. í ljósi þess að hann hafi ekki framvísað neinum gögnum frá landinu.

Í svari Útlendingastofnunar, sem barst síðar sama dag, kom fram að stofnunin hefði sent beiðni um upplýsingar vegna kæranda til grískra yfirvalda hinn 11. ágúst 2021. Rúmum tveimur mánuðum síðar hefði ekkert svar borist og hafi stofnunin tekið ákvörðun í máli kæranda hinn 28. október. Nokkrum dögum síðar, eða hinn 1. nóvember 2021, hafi svar loks borist frá grískum yfirvöldum. Hefði umrætt svar borist fyrr og ákvörðun í máli kæranda ekki verið tilbúin til birtingar hefði kærandi án nokkurs vafa verið kallaður til framhaldsviðtals. Þá kom fram að það hafi láðst að spyrja kæranda út í framangreint misræmi varðandi auðkenni hans. Kærandi hafi þótt trúverðugur hvað varðar frásögn um ríkisfang hans og af þeim sökum hafi verið byggt á því við úrlausn málsins að hann væri íranskur ríkisborgari. Auk þess kom fram í tölvubréfi, dags. 5. janúar 2021, að Útlendingastofnun væri ekki með framangreint afrit af vegabréfi kæranda undir höndum.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að Útlendingastofnun bárust upplýsingar frá grískum yfirvöldum hinn 1. nóvember 2021 sem gefa til kynna að kærandi sé handhafi írasks vegabréfs. Er því ljóst að Útlendingastofnun hafði fengið framangreindar upplýsingar áður en hin kærða ákvörðun var birt fyrir kæranda og þar með áður en hún varð bindandi og öðlaðist réttaráhrif, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Þrátt fyrir það var ekki lagt mat á þær upplýsingar í ákvörðun Útlendingastofnunar, sem birt var hinn 2. nóvember 2021. Þá liggur fyrir að kærandi hefur verið margsaga um auðkenni sitt og ekki framvísað neinum gögnum við meðferð málsins sem styðja við frásögn hans um að hann sé íranskur ríkisborgari. Kærandi var ekki beðinn um að gera grein fyrir framangreindu misræmi við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun og í ákvörðun stofnunarinnar var, sem fyrr segir, lagt til grundvallar að hann væri ríkisborgari Íran. Þar sem að í umsókn um alþjóðlega vernd felst fyrst og fremst ósk um vernd vegna aðstæðna í heimaríki aðila er ljóst að mál telst ekki fyllilega rannsakað sé enn óljóst hvert heimaríki umsækjanda um alþjóðlega vernd er. Að virtum gögnum málsins fær kærunefnd því ekki séð hvernig Útlendingastofnun hafi talið sér fært að komast að niðurstöðu í máli kæranda á þessum tímapunkti og er það mat nefndarinnar að stofnuninni hafi borið að rannsaka auðkenni kæranda með ítarlegri hætti, t.a.m. með því að leggja fyrir hann tungumála- og staðháttapróf.

Markmið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga er að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda verði bæði löglegar og réttar. Kærunefnd telur að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á forsendur og niðurstöðu í máli hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                            Sindri M. Stephensen

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum