Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Stutt mæðranámskeið í Malaví geta skipt sköpum um velferð barna

Vísindamenn sem rannsökuðu vannærð börn í Malaví hafa komist að raun um að þriggja vikna námskeið fyrir mæður um mataræði geti skipt sköpum fyrir líf barna og forðað þeim frá banvænum sjúkdómum eins og niðurgangspestum.

Vannæring er útbreidd í Malaví, einu fátækasta ríki heims. Eitt af hverjum sex börnum yngri en fimm ára er talið vera undir kjörþyngd. Nýjustu tölur frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) benda til þess að helmingur allra barna í Malaví búi við vaxtarhömlun sem er bein afleiðing vannæringar.

Samkvæmt Reutersfrétt byggir rannsóknin á börnum kvenna sem sóttu stutt námskeið fyrir mæður og þungaðar konur þar sem áhersla er lögð á að hreinlæti við matargerð og lítilsháttar breytingar á hefðbundum barnamat. Niðurstöðurnar benda til að með litlum kostnaði eins og slíku námskeiðahaldi megi forða börnum frá sjúkdómum eins og niðurgangspestum og fá þau til að þyngjast eðlilega á fyrstu tveimur árunum.  Rannsóknin náði til 179 barna í tveimur sveitahéruðum í Malaví.

Vaxtarhömlun hefur alvarlegar afleiðingar fyrir bæði andlegan og líkamlegan þroska barna, skólaganga þeirra barna eru almennt styttri en annarra og tekjumöguleikar á fullorðinsárum jafnframt minni.

Rannsóknin var samstarfsverkefni International Crops Research Institute for the Semi-Arid Tropics (ICRISAT) og háskólans í Lilongve, höfuðborg Malaví.

Samkvæmt Heimsmarkmiði 2.2 á eigi síðar en árið 2030 að vera búið að útrýma vannæringu í hvaða mynd sem er, "þar á meðal verði árið 2025 búið að ná alþjóðlegum markmiðum um að stöðva kyrking í vexti og uppdráttarsýki barna undir 5 ára aldri, og hugað verði að næringarþörfum unglingsstúlkna, þungaðra kvenna, kvenna með börn á brjósti og aldraðra," eins og segir þar orðrétt.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum