Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 18/2003. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 11. júlí 2003

í máli nr. 18/2003

Íslenskir aðalverktakar hf. og

NCC AS

gegn

Vegagerðinni

Með bréfi, dags. 7. júlí 2003 kæra Íslenskir aðalverktakar hf. og NCC AS boðaða ákvörðun Vegagerðarinnar um að hafna öllum tilboðum, þ.á m. tilboði kærenda, í útboði nr. Vg2001-122 auðkennt „Héðinsfjarðargöng."

Kærendur krefjast þess að boðuð ákvörðun um að hafna öllum tilboðum í hinu kærða útboði, þ.á m. tilboði kærenda, verði stöðvuð. Þá er þess krafist að kærða verði gert að halda hinu kærða útboði áfram og taka lægsta tilboði í samræmi við útboðsgögn. Loks krefjast kærendur þess að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kærendum og að nefndin ákveði að kærði greiði kærendum kostnað við að hafa kæruna uppi.

Kærða var gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Með tölvubréfi 11. júlí 2003 upplýsti kærði að öllum tilboðum hafi verið hafnað með bréfi sem send hafi verið til þátttakenda útboðsins 8. júlí 2003.

Í máli þessu hafa kærendur uppi kröfu um stöðvun með vísan til 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Kærunefnd útboðsmála telur því rétt að taka þegar í stað afstöðu til kröfu kærenda um þann hluta málsins, en láta úrlausn um kröfur kærenda að öðru leyti bíða endanlegs úrskurðar.

Krafa kærenda um stöðvun um stundarsakir lýtur að boðaðri ákvörðun kærða um að hafna öllum tilboðum í hinu kærða útboði. Svo sem að framan greinir styðja kærendur kröfu sínu um stöðvun við 80. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Í 1. mgr. 80. gr. laganna segir, að telji kærunefnd útboðsmála að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup, þá geti nefndin, eftir kröfu kærenda, stöðvað útboð eða gerð samnings, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Eru nefndinni ekki veittar víðtækari heimildir um stöðvun aðgerða um stundarsakir en kemur fram tilvitnuðu lagaákvæði. Kærunefnd útboðsmála lítur svo á, að ákvörðun um stöðvun á fyrirhugaðri ákvörðun kærða, svo sem kærendur krefjast í máli þessu, falli ekki undir þær heimildir sem nefndinni eru fengnar samkvæmt skýru orðalagi 80. gr. laga um opinber innkaup. Þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að verða við kröfu kærenda um stöðvun á boðaðri ákvörðun kærða.

Ákvörðunarorð:

Kröfu Íslenskra aðalverktaka hf. og NCC AS um stöðvun á boðaðri ákvörðun Vegagerðarinnar um að hafna öllum tilboðum í útboði kærða nr. Vg2001-122, auðkennt „Héðinsfjarðargöng", er hafnað.

Rétt endurrit staðfestir,

11. júlí 2003

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Stanley Pálsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum